Heimsókn frá RSPB / BirdLife International

Vikuna 19. – 24. febrúar var hér á landi Mark Day tengiliður okkar, við RSPB og BirdLife International.  Um vinnuheimsókn var að ræða, þar sem RSPB hefur stutt við bakið á Fuglavernd með ýmsum hætti á undanförnum árum og kemur til með að gera áfram eins og fram kemur í þeirra stefnu.

RSPB eru ein rótgrónustu náttúruverndarsamtök Bretlands, stofnuð 1889. Hjá samtökunum starfar fjöldi sjálfboðaliða, verndarsvæði RSPB eru 180 talsins svo að það er heilmikill liðsstyrkur fólginn í því að vera í góðu samstarfi við þessa nágranna okkar.

Auk þess að funda með starfsmönnum og stjórn Fuglaverndar var einnig tækifæri til að hitta fulltrúa frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Votlendissjóðnum, Landgræðslu Ríkisins og fleiri aðilum sem vinna í náttúruvernd á Íslandi. Einn dag vikunnar náðum við að fara út af skrifstofunni og funda, en veðrið var ekki sem ákjósanlegast til ferðalaga þessa vikuna þar sem hver lægðin kom á eftir annari.

Við náðum þó að líta í heimsókn á Friðlandið í Flóa sem við komuna skartaði sínu fegursta í vetrarríki. En skjótt skipast veður í lofti eins og við vitum sem búum á Íslandi og þegar við komum út úr fuglaskoðunarhúsinu var skyggni orðið afar takmarkað og sannkölluð hundslappadrífa. Þessi upplifun þótti alveg mögnuð.

Vetrarríki í Friðlandi í Flóa