Örn Óskarsson tók myndinaAllar ljósmyndir á garðfuglavefnum eru teknar af Erni Óskarssyni  http://ornosk.com/.

Garðfuglar kallast fuglar sem sjást í görðum. Garður er svæði við hús eða híbýli, allt frá grasflöt eða matjurtagarði til gamalgróins trjágarðs með margar tegundir trjáa og runna.

Garðfuglar geta verið fuglar sem gera garðinn að óðali sínu yfir sumartímann, byggja sér hreiður í trjám eða undir þakskeggi og ala þar upp unga sína. Einnig geta þetta verið fuglar sem koma í garðinn til að afla sér fæðu eða leita sér skjóls á öllum árstímum. Þetta geta verið íslenskir staðfuglar eða erlendir vetrargestir eða flækingsfuglar.

Lestu þér til um garðfuglategundir, fóðrun garðfugla og hvernig þú getur gert garðinn þinn aðlaðandi fyrir fugla.

Á skrifstofu Fuglaverndar eru til sölu fóður til að gefa fuglum, fóðrarar, varpkassar sem gera garðinn aðlaðandi fyrir fugla og Garðfuglabæklingurinn.

Garðfuglahelgin

Árlega stendur Fuglavernd fyrir Garðfuglahelginni, sem er vanalega síðustu helgi janúarmánaðar. Áhugasamir félagsmenn Fuglaverndar hafa einnig staðið fyrir Garðfuglakönnun yfir vetrartímann frá árinu 1994.

Umsjónarmenn garðfuglakönnunarinnar, þeir Örn Óskarsson og Ólafur Einarsson hafa til dæmis staðið fyrir Garðfuglakönnun í Fjölbrautaskóla Suðurlands og vekur það mikinn áhuga og umræður á vinnustaðnum á vetri hverjum.