Áskorun til fjárlaganefndar Alþingis um náttúrustofur

Stjórn Fuglaverndar harmar niðurskurð á fé til náttúrustofa. Stjórnin skorar á fjárlaganefnd, að auka framlag til stofanna.

Á stofunum eru unnar þýðingarmiklar grunnrannsóknir á lífríki Íslands. Í því sambandi vill stjórn Fuglaverndar benda á mikilvægt hlutverk stofanna við vöktun stofna bjargfugla og lunda. Stofnar nær allra sjófugla sem verpa á Íslandi hafa átt undir högg að sækja og þeir hafa minnkað á undanförnum árum. Rannsóknir og vöktun eru forsenda þess að skilja hvað ráði þessari fækkun og hvernig tryggja megi vernd þessara fugla. Náttúrustofurnar hafa verið leiðandi við rannsóknir á sjófuglum og mikilvægt að geta þeirra á því sviði verði ekki skert!

Það er óforsvaranlegt, nú þegar Íslendingar eru í fararbroddi í alþjóðlegu loftslagssamstarfi eins og Arctic Circle, að skerða rekstur náttúrustofanna.

Fréttatilkynning var send til fjölmiðla og samrit sent nefndarmönnum fjárlaganefndar Alþingis.