Fuglar og fornminjar

Hlynur Óskarsson og Víðir Óskarsson verða með erindi um ferð fjögurra manna hóps til Perú sumarið 2014 í sal Arion banka, Borgartúni 19, þriðjudaginn 28. apríl.
Perú er ákaflega fjörbreytt land hvað varðar landslag, gróður, mannlíf og menningu, en ekki síst með tilliti til fuglalífs.  Greint verður frá helstu einkennum fuglafánu landsins auk þess sem yfirlit verður gefið yfir helstu búsvæði þeirra. Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30.

Erindi á aðalfundi 16. apríl n.k.

Aðalfundur félagsins verður haldinn 16. apríl 2015 og mun erindi fundarins fjalla um forgangsröðun rannsókna og veiðistjórnunar á íslenskum fuglum. Veiðiálag og stofnþekkingu. Erpur S. Hansen, Náttúrustofu Suðurlands flytur.

Í erindinu eru teknar saman frumniðurstöður rannsókna á veiðiálagi og stofnþekkingu þeirra 30 fuglategunda sem leyft er að veiða hérlendis. Veiðiálag er reiknað út frá tiltækri stofnþekkingu og lagt til grundvallar forgangsröðun fyrir bæði rannsóknir og veiðistjórnun. Reiknaður var veiðistuðull með svo kallaðri „Potential Biological Removal“ aðferð (PBR) [1] fyrir 29 tegundir (veiðitölur vantar fyrir skúm). Ef PBR er 1 eða lægri, þá telst veiðin sjálfbær. Veiðiálag (veiði/PBR) er skilgreint hér sem hlutfall af skráðri meðalveiði 2004-2013. Þessi aðferð hentar þegar þekkingu á lýðfræði tegunda er ábótavant sem á við um margar tegundir hérlendis. Einnig var reiknuð hlutfallsleg breyting á meðalveiði allra tegunda fyrir og eftir 2003 (veiðitölur frá Umhverfisstofnun). Athygli vekur að meðalveiði milli þessara tveggja tímabila hefur minnkað um 40% eða meira hjá 17 tegundum (89% tegunda). Þessi samdráttur stafar að öllu jöfnu af fækkun í stofni viðkomandi tegunda, minni sókn eða blöndu þessa tveggja. Tekið skal fram að túlkun veiðibreytinga er torveld sökum flókinnar skilgreiningar veiðistofna hjá farfuglategundum. Núverandi stofnástand aðeins sjö veiðitegunda er ákjósanlegt fyrir veiði og þolir aðeins heiðagæs talsverða aukningu á veiði. Rjúpa er ein þessara sjö tegunda og jafnframt eina dæmið hérlendis um veiði sé stjórnað eftir veiðiþoli. Stofnar 14 tegunda flokkast „í hættu“, flestir vegna mikils og langvarandi viðkomubrests, og eru margar sjófuglategundir þar á meðal. Einnig flokkast fimm tegundir „í hættu“ vegna þess hve veiðiálag er hátt sem aftur bendir sterklega til ofveiði. Fimm tegundir til viðbótar flokkast „í útrýmingarhættu“, þar af fjórar sem hafa verið ofsóttar sem meintir tjónvaldar (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur og hrafn), auk teistu. Válistategundum sem nú eru veiddar fjölgar því úr fjórum í sjö og telja nú 23% veiðitegunda. Blesgæs hefur ein slíkra tegunda verið friðuð.

Kallað er eftir stefnumótun í veiðistjórnun sem byggir á vísindalegum grunni. Tegundir í útrýmingarhættu og á válista er eðlilegt að friða strax og meta þarf hvort meint tjón réttlæti veiði á viðkomandi tegundum. Þetta á við um fleiri tegundir sem ekki eru eins illa staddar, eins og t.d. hettumáf. Einhverjar rannsóknir eru stundaðar á flestum mikilvægustu veiðitegundum og ætti að efla þær með mælingum á fleiri lýðfræðilegum þáttum og forgangsraða með hliðsjón af veiðiálagi, alþjóðlegu mikilvægi o.s.frv. Veiðistjórnunarkerfið þarf að byggja á árlegri samantekt og úrvinnslu upplýsinga og fela í sér árlega endurskoðun veiðitímabila allra tegunda í ljósi þeirra upplýsinga.

 

Um “Potential Biological Removal” aðferðina má lesa hér:  Peter W Dillingham & David Fletcher (2008). Estimating the ability of birds to sustain additional human-caused mortalities using a simple decision rule and allometric relationship. Biological Conservation 141: 1738-1792

 

Fuglar og ljósmyndun 19.03.2015

Fuglavernd, Canon og Nýherji verða með fræðslufund um fuglaljósmyndun fimmtudagskvöldið 19. mars 2015 ásamt því að sýna aðdráttarlinsur frá Canon. Þar munu bæði atvinnumenn og áhugafólk um fuglaljósmyndun veita fræðslu, en meðfram því að leggja áherslu á fuglavernd verður farið í tæknileg atriði sem og praktíska hluti, eins og t.d. hvernig er best að nálgast fugla í sínu náttúrulega umhverfi. Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37, og hefst kl. 19:30. Þátttaka er ókeypis en óskað er eftir skráningu (hér er linkur á skráningarsíðu). Jóhann Óli Hilmarsson fjallar um virðingu fyrir viðfangsefninu og kemur þar aðeins inná löggjöf um fuglavernd. Þá fjallar hann um góða staði til að ljósmynda fugla ásamt því að sýna myndir af fuglum í umhverfi sínu. Sindri Skúlason fer yfir listina að mynda fugla ásamt því að fara lauslega í tæknileg atriði og hvernig best er að nálgast fugla og hvað sé mikilvægt að hafa í huga við fuglaljósmyndun (hann tók myndina af flórgoðanum). Ásta Magnúsdóttir og Helga Guðmundsdóttir sýna valdar myndir og segja sögurnar á bak við þær. Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. hina nýju EF 100-400mm f/4.5-5.6L IS II USM, EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X, EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Skemmtilegur og spennandi viðburður fyrir alla áhugasama um fugla og fuglaljósmyndun!

Á ferð um Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar segir Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.

Myndasýning frá Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar næstkomandi mun Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari segja frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.

Fuglanámskeið ætlað börnum

Fuglarnir í garðinum heima – námskeið ætlað börnum. Laugardaginn 7. febrúar kl 11:00 – 12:00 verður haldið námskeið á vegum Fuglaverndar og Garðyrkjufélags Íslands um garðfugla í Síðumúla 1 í Reykjavík.
Þegar vetrarhörkur ríkja eiga fuglar erfiðara með að finna sér fæðu. Lífsbaráttan er hörð og þeir því oft háðir mat­ar­gjöf­um og þá er gott að eiga sér vin sem færir þeim fóður.

Steinar Björgvinsson fuglaskoðari ætlar að fræða börn um hvernig á að fóðra smáfugla í garðinum að vetri eins og t.d. skógarþresti, snjótittlinga og svartþresti.

Steinar sýnir börnunum myndir af garðfuglum, kennir þeim hvernig hægt er að búa til fuglafóður og segir þeim frá hvað fuglar vilja helst éta. Þá verður  hugað að hvar best er að skilja fóðrið eftir svo kettirnir nái síður til fuglanna. Einnig verður sagt frá heppilegum hreiðukössum, fuglaböðum og fleiru.

Foreldrar og aðrir aðstendur barna eru hvött til að mæta með börnin á fugladag barna í Síðumúla 1, Reykjavík og taka þátt og fræðast um þá göfugu iðju að fóðra fugla.
Aðgangur er frír.

Á meðfylgjandi mynd má sjá mjög gæfan auðnutittling sem hefur verið lengi í fóðrum í garði ljósmyndarans Arnar Óskarssonar á Selfossi.

 

 

eBird – fuglaskráningar

Síðan í mars 2011 hefur hópur íslenskra fuglaskoðara verið virkur við að setja inn athuganir í vefkerfi sem kallast eBird – www.ebird.org. Hægt er að draga saman athuganir á einstökum tegundum yfir tímabil og má t.d. hér sjá athuganir frá 2011-2015 (http://tinyurl.com/m2rkehw). Þetta sýnir tíðni auðnutittlinga í innsendum listum á eBird. Í loks árs 2014 virðist vera meira af þeim en haustin 2011-2013, en þá eru þeir í um og yfir 60% innsendra lista. Fyrir neðan má sjá fjölda lista á viku eftir árum sem línuritin byggja á.

Það er mjög einfalt fyrir fólk að setja inn athuganir þarna og því fleiri sem eru virkir þeim mun betri upplýsingar fást um sveiflur milli ára og árstíða. Eina sem þarf að gera er að skrá sig inn í kerfið og byrja að setja inn athuganir. Velja má að nota íslensku fuglaheitin við innskráningu. Sérstaklega þægilegt ef um garðfuglaathuganir er að ræða. Hér má sjá yfirlit yfir allar íslenskar athuganir: http://tinyurl.com/nk9hvyy

 

Munið eftir smáfuglunum

Jarðbönn og snjór eru nú um víða um land og eiga fuglarnir erfitt. Fuglavernd hvetur landsmenn að hugsa til þessara smáu meðbræðra og ekki síst farfuglanna sem koma langt að og þurfa orku og vatn til að lifa af.  Sem dæmi um fóður má nefna brauð, epli, fitu, kjötsag, matarafanga handa þröstum, störum og hröfnum, sólblómafræ eða páfagaukafræ handa auðnutittlingum, kurlaður maís og hveitikorn handa snjótittlingunum.  Fita er það fóður sem hentar flestum fuglum vel í kuldum og má blanda matarolíu, tólg eða smjöri við afganga og korn. Síðan þarf vatn að vera aðgengilegt.

Skógarþrestir, svartþrestir og starar éta að jafnaði skordýr og önnur smádýr en ber á haustin. Í vetrarhörkum leita þeir í æti sem menn bera út í garð og eru sérlega sólgnir í feitmeti eins og kjötsag og mör. Einnig þiggja þeir ávexti svo sem epli, perur og rúsínur. Brauðmeti, sérstaklega ef það er blandað með matarolíu eða öðru feitmeti er einnig vel þegið í vetrarkuldum. Best er að koma þessum kræsingum fyrir á fóðurpalli eða hengja upp í tré. Epli og perur er gott að skera í tvennt og stinga uppá greinarenda 1-2 metra frá jörðu.

Snjótittlingar éta einkum fræ af jörðinni. Snjótittlingum er frekar illa við að vera inn á milli trjáa og því er best að gefa þeim á opnu svæði eða á húsþök. Þeir éta líka af fóðurpöllum en aðeins einstaka fugl lærir að éta úr hangandi fóðurdalli. Mulið maískorn, sólblómafræ og finkukorn er í uppáhaldi hjá þeim.

Auðnutittlingar og barrfinkur vilja einkum sólblómafræ og finkukorn. Mjög auðvelt er að venja þá á að éta úr hangandi fóðurdöllum, kornstönglum og af fóðurpöllum í trjám. Þeir éta líka finkukorn af jörðinni. Með því að hengja fóðurdalla í tré rétt utan við glugga er hægt að fylgjast vel með atferli þeirra og hafa mikla ánægju af en við seljum eina tegund af slíkum.

Hrafnar sækja einkum í matarúrgang sem borinn er út að vetrarlagi. Hrafnarnir éta einkum kjöt og spik en næla sér einnig í brauðbita og jafnvel ávexti. Að eðlisfari eru hrafnarnir ákaflega varir um sig og hætta sér því ekki nærri húsum. Best er þess vegna að gefa þeim þar sem pláss er gott til allra átta.

Hettumáfar og sílamáfar sækja í matarúrgang þegar þeir koma síðla vetrar eða á vorin. Þeir eru einkum á ferðinni snemma morguns og valda þá oft ónæði.

Þessar upplýsingar má líka finna á garðfuglavefnum og að auki hvað megi gefa flækingum sem sjást hér oft á veturna.
Þessa fallegu ljósmynd af gráþresti tók Alex Máni Guðríðarson á Selfossi.

Vetrarfuglaganga í Laugardal

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 23. nóvember kl. 10. Gangan er skipulögð í samstarfi Fuglaverndar og Grasagarðs Reykjavíkur. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.

Mæting við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema víða í trjálundum. Í vetur hafa músarrindlar verið tíðir gestir í Grasagarðinum og vitað er um nokkur krossnefspör sem halda til á svæðinu og sjást öðru hvoru. Nýlega sást glóbrystingur á ferli í Laugardal og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Gunnar Þór Hallgrímsson tók þessa mynd af glóbrystingi í fyrravetur.

Ráðstefna um mófugla 29.11

Laugardaginn 29. nóvember hélt Fuglavernd ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggðu á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.

Ráðstefnan bar yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og var haldin í salarkynnum Háskóla Íslands í Odda. Hún hófst á því að lagt var fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo var m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.
Landnotkun var rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo var sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta var svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga. Fundurinn ályktaði og hefur ályktunin verið send til umhverfis- og auðlindaráðherra sem einnig gegnir embætti landbúnaðarráðherra.  Hér má sjá ályktunina. 

Dagskrá
10:10 Fundarstjóri Jón S. Ólafsson opnar ráðstefnuna.
10:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ávarpar ráðstefnuna í forföllum umhverfis- og auðlindaráðherra
10:25 Íslenskir mófuglastofnar, far og vetrarstöðvar
Sett var fram yfirlit yfir íslenskar tegundir og útbreiðslu.
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
10:50 Búsvæðaval og vernd mófugla
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:15 Áhrif landnotkunar á mófuglastofna
Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:40 Léttur standandi hádegisverður
12:10 Stofnmat og vöktun
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
12:35 Verndun og alþjóðlegar skuldbindingar
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
13:00 Fundarstjóri ber upp ályktun fundarins
13:15 Fundi slitið

Ráðstefnan var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis.

Spói: JÓH