Munið eftir smáfuglunum

Jarðbönn og snjór eru nú um víða um land og eiga fuglarnir erfitt. Fuglavernd hvetur landsmenn að hugsa til þessara smáu meðbræðra og ekki síst farfuglanna sem koma langt að og þurfa orku og vatn til að lifa af.  Sem dæmi um fóður má nefna brauð, epli, fitu, kjötsag, matarafanga handa þröstum, störum og hröfnum, sólblómafræ eða páfagaukafræ handa auðnutittlingum, kurlaður maís og hveitikorn handa snjótittlingunum.  Fita er það fóður sem hentar flestum fuglum vel í kuldum og má blanda matarolíu, tólg eða smjöri við afganga og korn. Síðan þarf vatn að vera aðgengilegt.

Skógarþrestir, svartþrestir og starar éta að jafnaði skordýr og önnur smádýr en ber á haustin. Í vetrarhörkum leita þeir í æti sem menn bera út í garð og eru sérlega sólgnir í feitmeti eins og kjötsag og mör. Einnig þiggja þeir ávexti svo sem epli, perur og rúsínur. Brauðmeti, sérstaklega ef það er blandað með matarolíu eða öðru feitmeti er einnig vel þegið í vetrarkuldum. Best er að koma þessum kræsingum fyrir á fóðurpalli eða hengja upp í tré. Epli og perur er gott að skera í tvennt og stinga uppá greinarenda 1-2 metra frá jörðu.

Snjótittlingar éta einkum fræ af jörðinni. Snjótittlingum er frekar illa við að vera inn á milli trjáa og því er best að gefa þeim á opnu svæði eða á húsþök. Þeir éta líka af fóðurpöllum en aðeins einstaka fugl lærir að éta úr hangandi fóðurdalli. Mulið maískorn, sólblómafræ og finkukorn er í uppáhaldi hjá þeim.

Auðnutittlingar og barrfinkur vilja einkum sólblómafræ og finkukorn. Mjög auðvelt er að venja þá á að éta úr hangandi fóðurdöllum, kornstönglum og af fóðurpöllum í trjám. Þeir éta líka finkukorn af jörðinni. Með því að hengja fóðurdalla í tré rétt utan við glugga er hægt að fylgjast vel með atferli þeirra og hafa mikla ánægju af en við seljum eina tegund af slíkum.

Hrafnar sækja einkum í matarúrgang sem borinn er út að vetrarlagi. Hrafnarnir éta einkum kjöt og spik en næla sér einnig í brauðbita og jafnvel ávexti. Að eðlisfari eru hrafnarnir ákaflega varir um sig og hætta sér því ekki nærri húsum. Best er þess vegna að gefa þeim þar sem pláss er gott til allra átta.

Hettumáfar og sílamáfar sækja í matarúrgang þegar þeir koma síðla vetrar eða á vorin. Þeir eru einkum á ferðinni snemma morguns og valda þá oft ónæði.

Þessar upplýsingar má líka finna á garðfuglavefnum og að auki hvað megi gefa flækingum sem sjást hér oft á veturna.
Þessa fallegu ljósmynd af gráþresti tók Alex Máni Guðríðarson á Selfossi.