Hófsemi veiðimanna lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2017. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 57 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 40 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Viðkoma rjúpunnar var metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars. Hlutfall unga reyndist vera 78% á Norðausturlandi og 79% á Suðvesturlandi, þetta er ágæt viðkoma. Miðað við niðurstöður rjúpnatalninga er stærð rjúpnastofnsins  í meðallagi víðast hvar um land 2017 en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi, þar er stofninn í lágmarki. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2017 var metin 173 þúsund fuglar, en var 132 þúsund fuglar 2016. Framreiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fuglar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og ofmeta stærð stofnsins nær örugglega.

Sjá nánar: Tillögur um rjúpnaveiði 2017

Veiðidagar rjúpu 2017

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:

  • föstudaginn 27. október, laugardaginn 28. október og sunnudaginn 29. október,
  • föstudaginn 3. nóvember, laugardaginn 4. nóvember og sunnudaginn 5. nóvember,
  • föstudaginn 10. nóvember, laugardaginn 11. nóvember og sunnudaginn 12. nóvember,
  • föstudaginn 17. nóvember, laugardaginn 18. nóvember og sunnudaginn 19. nóvember.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi.

Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005: “Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. 

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort.

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

 

Erindi á aðalfundi 16. apríl n.k.

Aðalfundur félagsins verður haldinn 16. apríl 2015 og mun erindi fundarins fjalla um forgangsröðun rannsókna og veiðistjórnunar á íslenskum fuglum. Veiðiálag og stofnþekkingu. Erpur S. Hansen, Náttúrustofu Suðurlands flytur.

Í erindinu eru teknar saman frumniðurstöður rannsókna á veiðiálagi og stofnþekkingu þeirra 30 fuglategunda sem leyft er að veiða hérlendis. Veiðiálag er reiknað út frá tiltækri stofnþekkingu og lagt til grundvallar forgangsröðun fyrir bæði rannsóknir og veiðistjórnun. Reiknaður var veiðistuðull með svo kallaðri „Potential Biological Removal“ aðferð (PBR) [1] fyrir 29 tegundir (veiðitölur vantar fyrir skúm). Ef PBR er 1 eða lægri, þá telst veiðin sjálfbær. Veiðiálag (veiði/PBR) er skilgreint hér sem hlutfall af skráðri meðalveiði 2004-2013. Þessi aðferð hentar þegar þekkingu á lýðfræði tegunda er ábótavant sem á við um margar tegundir hérlendis. Einnig var reiknuð hlutfallsleg breyting á meðalveiði allra tegunda fyrir og eftir 2003 (veiðitölur frá Umhverfisstofnun). Athygli vekur að meðalveiði milli þessara tveggja tímabila hefur minnkað um 40% eða meira hjá 17 tegundum (89% tegunda). Þessi samdráttur stafar að öllu jöfnu af fækkun í stofni viðkomandi tegunda, minni sókn eða blöndu þessa tveggja. Tekið skal fram að túlkun veiðibreytinga er torveld sökum flókinnar skilgreiningar veiðistofna hjá farfuglategundum. Núverandi stofnástand aðeins sjö veiðitegunda er ákjósanlegt fyrir veiði og þolir aðeins heiðagæs talsverða aukningu á veiði. Rjúpa er ein þessara sjö tegunda og jafnframt eina dæmið hérlendis um veiði sé stjórnað eftir veiðiþoli. Stofnar 14 tegunda flokkast „í hættu“, flestir vegna mikils og langvarandi viðkomubrests, og eru margar sjófuglategundir þar á meðal. Einnig flokkast fimm tegundir „í hættu“ vegna þess hve veiðiálag er hátt sem aftur bendir sterklega til ofveiði. Fimm tegundir til viðbótar flokkast „í útrýmingarhættu“, þar af fjórar sem hafa verið ofsóttar sem meintir tjónvaldar (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur og hrafn), auk teistu. Válistategundum sem nú eru veiddar fjölgar því úr fjórum í sjö og telja nú 23% veiðitegunda. Blesgæs hefur ein slíkra tegunda verið friðuð.

Kallað er eftir stefnumótun í veiðistjórnun sem byggir á vísindalegum grunni. Tegundir í útrýmingarhættu og á válista er eðlilegt að friða strax og meta þarf hvort meint tjón réttlæti veiði á viðkomandi tegundum. Þetta á við um fleiri tegundir sem ekki eru eins illa staddar, eins og t.d. hettumáf. Einhverjar rannsóknir eru stundaðar á flestum mikilvægustu veiðitegundum og ætti að efla þær með mælingum á fleiri lýðfræðilegum þáttum og forgangsraða með hliðsjón af veiðiálagi, alþjóðlegu mikilvægi o.s.frv. Veiðistjórnunarkerfið þarf að byggja á árlegri samantekt og úrvinnslu upplýsinga og fela í sér árlega endurskoðun veiðitímabila allra tegunda í ljósi þeirra upplýsinga.

 

Um “Potential Biological Removal” aðferðina má lesa hér:  Peter W Dillingham & David Fletcher (2008). Estimating the ability of birds to sustain additional human-caused mortalities using a simple decision rule and allometric relationship. Biological Conservation 141: 1738-1792