Sunnudaginn 31. maí 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.
maí, 2015
Fuglaskoðun á Álftanesi um helgina
Ljósmynd Eyþór Ingi Sigurðsson.
apr, 2015
Fuglalíf í Laugardalnum – 3. maí kl. 11
Á sunnudagsmorgun kl. 11 verður boðið upp á fuglagöngu í Grasagarði Reykjavíkur í Laugardal en í garðinum er fjölskrúðugt fuglalíf. Hannes Þór Hafsteinsson, garðyrkjufræðingur og fuglaáhugamaður,leiðir gönguna. Hannes mun fræða gesti um þær fuglategundir sem fyrir augu ber og auk þess skoða hvaða tegundir plantna laða að fugla. Gestum er bent á að gaman getur verið að taka með sér sjónauka í gönguna.
Mæting við aðalinnganginn kl. 11. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
JÓH tók þessa mynd af auðnutittlingi.
feb, 2015
Á ferð um Svalbarða
Miðvikudaginn 25.febrúar segir Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013. Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.
Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.
jan, 2015
eBird – fuglaskráningar
Síðan í mars 2011 hefur hópur íslenskra fuglaskoðara verið virkur við að setja inn athuganir í vefkerfi sem kallast eBird – www.ebird.org. Hægt er að draga saman athuganir á einstökum tegundum yfir tímabil og má t.d. hér sjá athuganir frá 2011-2015 (http://tinyurl.com/m2rkehw). Þetta sýnir tíðni auðnutittlinga í innsendum listum á eBird. Í loks árs 2014 virðist vera meira af þeim en haustin 2011-2013, en þá eru þeir í um og yfir 60% innsendra lista. Fyrir neðan má sjá fjölda lista á viku eftir árum sem línuritin byggja á.
Það er mjög einfalt fyrir fólk að setja inn athuganir þarna og því fleiri sem eru virkir þeim mun betri upplýsingar fást um sveiflur milli ára og árstíða. Eina sem þarf að gera er að skrá sig inn í kerfið og byrja að setja inn athuganir. Velja má að nota íslensku fuglaheitin við innskráningu. Sérstaklega þægilegt ef um garðfuglaathuganir er að ræða. Hér má sjá yfirlit yfir allar íslenskar athuganir: http://tinyurl.com/nk9hvyy
nóv, 2014
Vetrarfuglaganga í Laugardal
Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 23. nóvember kl. 10. Gangan er skipulögð í samstarfi Fuglaverndar og Grasagarðs Reykjavíkur. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.
Mæting við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema víða í trjálundum. Í vetur hafa músarrindlar verið tíðir gestir í Grasagarðinum og vitað er um nokkur krossnefspör sem halda til á svæðinu og sjást öðru hvoru. Nýlega sást glóbrystingur á ferli í Laugardal og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.
Gunnar Þór Hallgrímsson tók þessa mynd af glóbrystingi í fyrravetur.
sep, 2014
Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru
Þriðjudaginn næstkomandi, 16.sept., verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru. Við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi. Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.
Má einnig sjá á fésbók.
Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli.
maí, 2014
Fuglaskoðun í Kjós fellur niður
apr, 2014
Fuglaganga í Laugardal
Sunnudaginn 4. maí næstkomandi munum við í samvinnu við Grasagarðinn skoða fjölskrúðugt fuglalífið í Laugardalnum. Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur og Aron Leví Beck fuglarannsóknarmaður leiða gönguna og munu fræða okkur um hætti skógarfugla. Lagt af stað við aðalinngang í garðinn kl. 11.00.
Á meðfylgjandi mynd situr glókollur á grein – Örn Óskarsson tók myndina en á garðfuglavefnum okkar má sækja margvíslegan fróðleik.