Fuglaganga á Degi íslenskrar náttúru

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru verðum við með fuglagöngu í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur klukkan 15 og lagt verður upp frá Elliðaárbænum. Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur mánudaginn 16. september og verður hátíðarsamkoma við Elliðavatnsbæinn í Heiðmörk kl. 13:30 þar sem árleg fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verða veitt sem og Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholdi. Stefnt er að því að samkoman fari fram undir berum himni. Gestir eru hvattir til að klæða sig eftir veðri.
Aron Leví Rúnarsson og Sævar Heiðarsson leiða skógar- og fuglagönguna.

Á vef umhverfisráðuneytisins má sjá meira um dag íslenskrar náttúru.

Fuglaganga í Nauthólsvík 13. ágúst

Fuglavernd í samvinnu við Ylströndina í Nauthólsvík bjóða upp á fuglafræðslu og fuglagöngu þriðjudaginn 13. ágúst frá 17:00-18:00. Gengið verður í um eina klukkustund um fjöruna og fuglalífið skoðað. Lagt af stað frá Ylströndinni stundvíslega klukkan fimm. Edward Barry Rickson mun leiða gönguna. Munið eftir sjónaukanum og einnig getur verið gaman að hafa fuglabók með – og svo er bara að klæða sig eftir veðri. Allir velkomnir.

Þessa mynd af sendlingi tók Gunnar Þór Hallgrímsson

Fuglaganga í Heiðmörk 4. júlí n.k.

Fuglavernd í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur verður með fuglaskoðun í Heiðmörk fimmtudagskvöldið 4. júlí. Lagt verður af stað stundvíslega klukkan 20:00, frá Elliðavatnsbænum, sjá meðfylgjandi kort, og gengið meðfram vatninu og um nágrenni þess. Við megum búast við að sjá jaðrakan, óðinshana og himbrima ásamt öðrum tegundum og mun Edward Rickson leiða gönguna.
Allir velkomnir – munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera vel klædd.

Á ljósmyndinni má sjá óðinshana veitast að jaðrakan. Sigurjón Einarsson tók myndina.

Fuglaskoðun í Vatnsmýrinni 29. júní

Fuglavernd í samvinnu við Norræna húsið býður upp á fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni og að Tjörninni núna á laugardaginn 29.júni. Lagt verður af stað frá andyri norræna hússins klukkan 16:00 en gangan tekur um klukkutíma. Arnór Þrastarson mun leiða gönguna en skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn og Þorfinnstjörn. Þetta er síðasta gangan í þessari röð. Róleg og þægileg fuglaskoðun í miðborginni.

Svo er bara að klæða sig eftir veðri, og taka sjónaukann með.
Hér fyrir neðan er linkur á vefmyndavél sem Norræna húsið hefur sett upp í vatnsmýrinni – mjög athyglisvert þar sem maður getur stjórnað því sjálfur frá hvaða sjónarhorni er horft.

 

Tjörn í friðlandinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglaskoðun í Flóa 16. júní 2013

Sunnudaginn 16. júní n.k. mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Örn Óskarsson mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 16:30 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.
Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum því það er mjög blautt á og muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.

Gönguferðir um Krýsuvíkursvæðið 9. maí

Fimmtudaginn 9. maí bjóða náttúruverndarsamtök alla náttúruunnendur velkoma til Krýsuvíkur til að skoða þetta fallega svæði. Kynnisferðir bjóða upp á sætaferðir frá BSÍ kl. 10:15 með viðkomu á N1 Hafnarfirði kl. 10:30 – en þeir sem ætla að nýta sér það sendi okkur línu á fuglavernd@fuglavernd.is eða skrái sig á fésbók síðu atburðarins.

Dagskrá hefst í Seltúni kl. 11:00.

Boðið verður upp á nokkrar stuttar og fræðandi gönguferðir um svæðið þannig að fólk geti valið þá göngu sem það vill eða farið í allar göngurnar, sem verða leiddar af staðkunnugum.

1. Hverasvæðið í Seltúni kl. 11:00
Gengið um litríkt hverasvæðið og fyrirbrigði þess skoðuð í fylgd jarðfræðings.
Seltún hafnaði í orkunýtingarflokki í rammaáætlun.

2. Sveifluháls – Pínir kl. 11:30
Gengið verður upp að hvernum Píni ofan við Seltún. Örlítið ofar á hálsinum fæst
gott útsýni yfir fyrirhugað virkjanasvæði og næsta umhverfi.

3. Grænavatn – Austurengjahver kl. 12:15 – 13:30.
Frá hinu iðagræna Grænavatni og upp í Austurengjar er stutt ganga. Austurengjahver var settur
í biðflokk í rammaáætlun.

 

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruvaktin, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Framtíðarlandið, Fuglavernd og fleiri náttúruverndarsamtök.

Dagsferð í fuglaskoðun á Reykjanesi

Laugardaginn 11. maí verður Fuglavernd með fuglaskoðunarferð um Reykjanesið. Helgi Guðmundsson leiðsögumaður og fuglaáhugamaður leiðir ferðina. Lagt verður af stað frá Höfða klukkan 9:00 að morgni þess 11. maí stundvíslega en áætlaður komutími til baka verður um klukkan fimm. Fólk þarf að muna að taka með sér sjónauka, jafnvel fuglabók, nesti fyrir allan daginn og gott er að hafa heitt á brúsa. Skráning er á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477 og kostar kr. 8000 kr. fyrir félagsmenn og kr. 10.000 fyrir utanfélagsmenn. Farið verður í ferðina ef 12 skrá sig en hámark eru 17 þátttakendur. Bendum þó á að síðasta vor seldist upp á nokkrum dögum.

Eftirfarandi er stutt leiðarlýsing birt með fyrirvara.
Farið verður frá Höfða kl. 09:00 og litið til fugla á Álftanesi þar sem margæsir eru nú í þúsundavís og stórir hópar af kríum og rauðbrystingum. Ef veður leyfir verður jafnframt skoðað flórgoða- og hettumávavarp á Ástjörn.
Ekið suður með sjó og numið staðar á helstu fuglaskoðunarstöðum, s.s. við höfnina í Garði, þar sem e.t.v. má sjá skrofur og súlur fljúga hjá. Við Garðskaga má jafnframt búast við sjófuglum og enn fremur safnast þar oft fjöldi vaðfugla í fjörur. Í Sandgerði eru einnig fjölmargir vaðfuglar og má að líkindum sjá sanderlur í fjörum og óðinshana á tjörnum.
Því næst verður ekið í átt að Ósabotnum og komið við í Höfnum. Þá verður litið til hafs við Valahnjúk á Reykjanesi þar sem Eldey blasir við skammt undan landi. Í Valahnjúk verpa m.a. fýll, rita og teista.
Ekið til austurs um Grindavík og Ögmundarhraun að Krýsuvíkurbergi. Í berginu verpa allir íslenskir svartfuglar: lundi, álka, langvía og stuttnefja, auk fýls og ritu. Ef veður og færð leyfir verður ekið niður að bjarginu og svipast um eftir bjargfuglum. Síðan verður haldið hjá Kleifarvatni til Reykjavíkur.

Þessa mynd af óðinshana tók Jakob Sigurðsson.

Fuglaskoðun á Álftanesi 12. maí

Í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum munum við vera með fuglaskoðun á Álftanesi sunnudaginn 12.maí. Alflestir farfuglarnar eru þá komnir. Ólafur Torfason mun leiða hópinn en lagt verður af stað frá Kasthústjörn klukkan 13:00 stundvíslega.

Ljósmyndin er af margæs en nú er mikið af þeim á Álftanesi og eru þær hér fargestir vor og haust. Okkar fargestir eru af undirtegund sem er ljósari á kviðinn og verpa á kanadísku Íshafseyjunum en hafa vetursetu á Írlandi. Aðalfæða þeirra er marhálmur, og draga þær nafn sitt af því, en þær sækja oft í tún á vorin og etur sjávarfitjung og grænþörunga. Margæsin er minnsta gæsin hér á landi, aðeins lítið eitt stærri en stokkönd. Höfundur myndarinnar er Eyþór Ingi Jónsson.

Allir velkomnir – munið að taka sjónaukan með. Það má svo gerast félagi að Fuglavernd með því að senda okkur póst á fuglavernd@fuglavernd.is en hér má sjá allt um aðildina: https://fuglavernd.is/felagar/

Hér er slóðin á vef alþjóðlega farfugladagsins: http://www.worldmigratorybirdday.org/

Fuglaganga í grasagarðinum 5.maí

Sunnudaginn 5. maí verður Grasagarðurinn í samstarfi við Fuglavernd með fuglagöngu um garðinn og nágrenni. Þetta er um eins og hálfstíma ganga en lagt verður af stað frá aðalinngangi Grasagarðsins kl. 11. Hannes Þór Hafsteinsson leiðir gönguna. Eyþór Ingi tók þessa fallegu mynd af glókolli en nokkur pör eru í garðinum. 

 

Græn ganga 1. maí

Miðvikudaginn 1. maí verður græn ganga á vegum samtaka um náttúru- og umhverfisvernd. Gangan verður farin niður Laugaveg í kjölfar kröfugöngu verkalýðsfélaganna. Í lokin verður grænum fánum stungið niður á Austurvelli við Alþingi. Göngumenn eru hvattir til að klæðast grænu. Hist verður á Snorrabraut við Hlemm kl. 13. Gangan hefst hálftíma síðar.

Efnt er til grænnar göngu til að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og til að minna á að þingið hefur ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar. Á því kjörtímabili sem nú er að hefjast verða teknar ákvarðanir um mörg verðmæt náttúrusvæði, t.d. Mývatn og Reykjanesskaga. Landskipulagsstefna sem gerir ráð fyrir háspennulínu og virkjunum á hálendinu mun koma til afgreiðslu hjá Alþingi og fyrir liggur krafa um stórar háspennulínur m.a. á Reykjanesskaga, í Skagafirði og víðar á Norðurlandi. Krafa grænu göngunnar er að náttúru Íslands verði hlíft.

Í nýliðinni kosningabaráttu voru umhverfismál lítið rædd þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni lítinn stuðning við áframhaldandi uppbyggingu virkjana og stóriðju. Þannig reyndust 44% aðspurðra andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% fylgjandi í nýlegri könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Landvernd. Í sömu könnun sögðust 51,3% vera andvíg því að fleiri álver yrðu reist hér á landi en 30,9% voru því hlynnt.

Eftirfarandi samtök standa að grænu göngunni: Fuglavernd, Landvernd, Ungir umhverfissinnar, Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Náttúruverndarsamtök Íslands, Framtíðarlandið, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Náttúruvaktin, Sól á Suðurlandi, Eldvötn og Græna netið.

Jóhann Óli Hilmarsson tók myndina af flórgoðunum.