Jólaopnun á skrifstofu Fuglaverndar 11. og 18. des.

Verið hjartanlega velkomin í heimsókn á skrifstofu Fuglaverndar á Hverfisgötu 105 í Reykjavík (gegnt Lögreglustöðinni). Þar fást falleg jóla- og tækifæriskort, fuglafóðrarar og fóður, fuglahús, garðfuglabæklingur o.fl. á sanngjörnu verði, posi er á staðnum. Næg bílastæði á bakvið hús, innkeyrsla frá Snorrabraut og Skúlagötu.
Einnig verður opið næsta fimmtudag 18. desember, kl. 14-20.

Vetrarfuglaganga í Laugardal

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 23. nóvember kl. 10. Gangan er skipulögð í samstarfi Fuglaverndar og Grasagarðs Reykjavíkur. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.

Mæting við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema víða í trjálundum. Í vetur hafa músarrindlar verið tíðir gestir í Grasagarðinum og vitað er um nokkur krossnefspör sem halda til á svæðinu og sjást öðru hvoru. Nýlega sást glóbrystingur á ferli í Laugardal og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Gunnar Þór Hallgrímsson tók þessa mynd af glóbrystingi í fyrravetur.

Ráðstefna um mófugla 29.11

Laugardaginn 29. nóvember hélt Fuglavernd ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggðu á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.

Ráðstefnan bar yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og var haldin í salarkynnum Háskóla Íslands í Odda. Hún hófst á því að lagt var fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo var m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.
Landnotkun var rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo var sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta var svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga. Fundurinn ályktaði og hefur ályktunin verið send til umhverfis- og auðlindaráðherra sem einnig gegnir embætti landbúnaðarráðherra.  Hér má sjá ályktunina. 

Dagskrá
10:10 Fundarstjóri Jón S. Ólafsson opnar ráðstefnuna.
10:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ávarpar ráðstefnuna í forföllum umhverfis- og auðlindaráðherra
10:25 Íslenskir mófuglastofnar, far og vetrarstöðvar
Sett var fram yfirlit yfir íslenskar tegundir og útbreiðslu.
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
10:50 Búsvæðaval og vernd mófugla
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:15 Áhrif landnotkunar á mófuglastofna
Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:40 Léttur standandi hádegisverður
12:10 Stofnmat og vöktun
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
12:35 Verndun og alþjóðlegar skuldbindingar
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
13:00 Fundarstjóri ber upp ályktun fundarins
13:15 Fundi slitið

Ráðstefnan var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis.

Spói: JÓH

 

Námskeið í stafrænni fuglaljósmyndun

Fuglavernd heldur námskeið í fuglaljósmyndun núna í nóvember. Markmið námskeiðsins er að kynna grunnatriði í fuglaljósmyndun, tæki, tækni og nálgun við fugla. Farið verður yfir hvaða myndavélar henta best, hvernig linsur, þrífætur, forrit og fl. tæknileg atriði. Rætt verður um myndbyggingu, felutjöld, ljósmyndun úr bíl og annan útbúnað. Hvað er öðruvísi við að mynda fugla, hvað ber að varast og hvað gerir það eftirsóknarvert. Námskeiðið getur nýst jafnt byrjendum sem lengra komnum sem hafa áhuga á fuglaljósmyndun. Námskeiðið er þrískipt og er haldið dagana 12.,15. og 18. nóv.2014.

Miðvikudagur 12. nóvember frá 18:30-22
Í fyrsta hluta er farið yfir grunnatriðin. Farið verður yfir hvað skiptir máli við val á myndavélum, linsum og aukabúnaði. Stillingar og tæknileg atriði verða rædd. Farið verður í hluti eins og myndbyggingu og hvað þarf að hafa í huga þegar verið er að mynda. Bent verður á góða staði til fuglaljósmyndunar, skoðað hvernig best er að nálgast fugla og farið verður í ýmis hagnýt atriði er snúa að fuglaljósmyndun. Leiðbeinandi í fyrsta hluta er Sindri Skúlason https://www.flickr.com/photos/sindri_skulason/

Laugardagur 15. nóvember frá 12:00-16:00
Í öðrum hluta er farið í vettvangsferð þar sem þátttakendur spreyta sig í fuglaljósmyndun. Farið verður á nokkra góða fuglaljósmyndastaði sem eru eftirsóttir á höfðuborgarsvæðinu. Sýnt hvernig þekking á íslensku fánunni nýtist í að nálgast viðfangsefnið.
Leiðbeinandi í öðrum hluta er Jóhann Óli Hilmarsson, fuglaljósmyndari http://www.johannoli.com/

Þriðjudagur 18. nóvember frá 18:30-22:00
Þriðji hluti er svo helgaður úrvinnslunni og frekari leiðum til að öðlast færni í bæði fuglaljósmyndun og eftirvinnslu. Farið verður yfir helstu atriði við lagfæringu mynda og hvaða forrit er best að nota.
Leiðbeinandi í þriðja hluta er Christopher Lund ljósmyndari http://www.chris.is/

Vinsamlegast skráið þátttöku á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is fyrir miðja næstu viku. Verð er 35.000 fyrir félagsmenn en 39.000 fyrir aðra.

Jóhann Óli Hilmarsson tók þessa mynd af súlum.

Takið þátt í heiðlóutalningu

Um helgina verður evrópsk heiðlóutalning og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Nú er bara að hafa augun hjá sér og nótera hvar og hvort lóur sjást og þá hve margar. Ekki væri verra ef fólk hefði tök á að kíkja í fjörur eða telja lóur í bíltúrum. Talningarnar þurfa ekki að vera merkilegar. Lóur sem menn sáu á rauðu ljósi á umferðareyjum komu t.d. sterkar inn í síðustu talningu 2008.
Þegar talið er á landi (þ.e. ekki í fjörum), gjarnan í bíltúrum, er gott að skrá hversu margir kílómetrar voru eknir og hversu langt frá vegi séðar lóur voru. Með slíkum upplýsingum má slá á lágmarksþéttleika.

Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is) heldur utanum talninguna svo vinsamlegast sendið honum upplýsingarnar. Við munum svo birta niðurstöðurnar hér á síðunni okkar og samanburð við síðustu talningu sem var í október 2008.

Bjarni Sæmundsson tók meðfylgjandi mynd.

Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru

Þriðjudaginn næstkomandi, 16.sept., verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru.  Við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.
Má einnig sjá á fésbók.

Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli.

Fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni núna um helgina

Fuglavernd býður upp á fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni og að Tjörninni núna á laugardaginn 28. júní. Síðasta gangan í þessari röð. Lagt verður af stað frá andyri norræna hússins klukkan 16:00 en gangan tekur tæpan klukkutíma. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða gönguna en skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn, Þorfinnstjörn, Suðurtjörn og Norðurtjörn.
Róleg og þægileg fuglaskoðun í miðborginni – Bara að klæða sig eftir veðri og taka sjónaukann með.

Elma Rún tók þessa gæsarungamynd fyrir hálfum mánuði í Vatnsmýrinni.

Græn ganga 1. maí

Fuglavernd er eitt af þeim félögum sem standa að grænu göngunni 1. maí í samstarfi við stéttarfélög. Efnt er til göngunnar til að krefjast þess að almenningur hafi áfram, eins og hingað til frjálsan aðgang að náttúru Íslands og að almannarétturinn verði virtur.

Þátttakendur safnast saman um kl. 13:00 við hestinn á Hlemmi. Gengið verður á eftir 1. maí göngu stéttarfélaganna sem hefst kl. 13:30. Að dagskrá lokinni á Ingólfstorgi kl. 15 verður gengið að Alþingishúsinu þar sem þúsund grænum fánum verður stungið niður. Göngumenn eru hvattir til að klæðast grænu.

Náttúran er ein dýrmætasta sameign þjóðarinnar. Náttúran, með víðernum og fegurð landsins er einnig orðin okkar helsta tekjulind með örum vexti í ferðaþjónustu. Samhliða því hafa forráðamenn landsvæða takmarkað för fólks um náttúruperlur með gjaldtöku við Geysi og Kerið í Grímsnesi. Einnig er unnið að tillögum um svonefndan náttúrupassa, sem er útfærsla á gjaldi fyrir að skoða náttúru Íslands. Komið hefur fram í skoðanakönnunum að meirihluti landsmanna er mótfallinn slíku gjaldi. Þá hefur þess orðið vart í auknum mæli að landeigendur reyni að takmarka för fólks með því að loka vegum og fornum leiðum með keðjum og hliðum. Almannarétturinn og ferðafrelsið eru því í greinilegri hættu. Krafa grænu göngunnar í ár er að þau beri að vernda og virða.

Eftirfarandi félög standa að grænu göngunni 2014: Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Eldvötn, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Ferðaklúbburinn 4×4, Framtíðarlandið, Fuglavernd, Græna netið, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruvaktin, Samtök útivistarfélaga (SAMÚT), Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS), Umhverfisvaktin við Hvalfjörð og Ungir umhverfissinnar.

 

Fésbókarsíða atburðarins

 

Glókollur - karlfugl

Fuglaganga í Laugardal

Sunnudaginn 4. maí næstkomandi munum við í samvinnu við Grasagarðinn skoða fjölskrúðugt fuglalífið í Laugardalnum.    Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur og Aron Leví Beck fuglarannsóknarmaður leiða gönguna og munu fræða okkur um hætti skógarfugla. Lagt af stað við aðalinngang í garðinn kl. 11.00.

Á meðfylgjandi mynd situr glókollur á grein – Örn Óskarsson tók myndina en á garðfuglavefnum okkar má sækja margvíslegan fróðleik.