Takið þátt í heiðlóutalningu

Um helgina verður evrópsk heiðlóutalning og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Nú er bara að hafa augun hjá sér og nótera hvar og hvort lóur sjást og þá hve margar. Ekki væri verra ef fólk hefði tök á að kíkja í fjörur eða telja lóur í bíltúrum. Talningarnar þurfa ekki að vera merkilegar. Lóur sem menn sáu á rauðu ljósi á umferðareyjum komu t.d. sterkar inn í síðustu talningu 2008.
Þegar talið er á landi (þ.e. ekki í fjörum), gjarnan í bíltúrum, er gott að skrá hversu margir kílómetrar voru eknir og hversu langt frá vegi séðar lóur voru. Með slíkum upplýsingum má slá á lágmarksþéttleika.

Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is) heldur utanum talninguna svo vinsamlegast sendið honum upplýsingarnar. Við munum svo birta niðurstöðurnar hér á síðunni okkar og samanburð við síðustu talningu sem var í október 2008.

Bjarni Sæmundsson tók meðfylgjandi mynd.