Hvað gerir Fuglavernd?

Fuglavernd logoFuglar byggja tilveru sína á því að geta aflað sér fæðu, ásamt því að hafa hentuga staði til hvíldar og varps. Mörg þeirra svæða sem fuglar byggja afkomu sína á eru í hættu vegna athafna mannsins.

Fuglavernd vinnur að því að fuglar og búsvæði þeirra skaðist sem minnst með því að:

  • hvetja stjórnvöld, sveitastjórnir og framkvæmdaaðila til að þess að hafa náttúruvernd að leiðarljósi við skipulagningu og framkvæmdir
  • vinna að skráningu, upplýsingöflun og verndun mikilvægra fuglasvæða á Íslandi (IBA-skrá yfir svæði bæði á láði og legi)
  • vernda tegundir sem eru í útrýmingarhættu á Íslandi eða eiga erfitt uppdráttar
  • vinnur að því að fræða almenning um fugla og búsvæði þeirra
  • koma á fót friðlöndum fyrir fugla

Fuglavernd er aðili að BirdLife International Alþjóðlegu fuglaverndarsamtökunum. Einnig á Fuglavernd fulltrúa í nefndum og ráðum sem vinna að náttúruvernd.

Vernd búsvæða

Baráttan fyrir vernd votlendis og endurhæfingu framræstra mýra og tjarna hefur verið eitt af höfuðbaráttumálum okkar á síðustu árum. Fuglavernd átti stóran þátt í því að koma umræðunni um endurheimt votlendis af stað. Fjörur og grunnsævi, sérstaklega í grennd við þéttbýli, hafa verið skert verulega eins og mörg sorgleg dæmi eru um á höfuðborgarsvæðinu.

Sjá: Friðlandið í Flóa, Hollvinir Tjarnarinnar, IBA – Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði og Svartá í Bárðardal

Vernd fuglategunda

Fuglaverndarfélag Íslands var stofnað 1963 og haförninn var helsti hvatinn enda stofninn um 30 varppör. Samvinna við rannsóknir á fuglameðafla við grásleppuveiðar er þriggja ára rannsóknarverkefni 2015-2017. Þá hafa sjófuglar og hnignun þeirra stofna verið í brennidepli sem og fuglategundir á válista IUCN en skráning tegundar á válista hefur ekki lagalegt gildi á Íslandi og ósjálfbærar veiðar úr þeim stofnum því löglegar.

Sjá: Fugl ársins 2017, Fuglameðafli, Lundinn og lífríkið.

 

Fræðslufundir

Yfir vetrarmánuðina heldur Fuglavernd fræðslufundi reglulega þar sem valdir fyrirlesarar segja frá rannsóknum, ferðum eða öðru sem þykja kann áhugavert. Aðgangur að fræðslufundum er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd.

Sjá: Viðburðir

Fuglaskoðun

Fuglavernd hefur boðið bæði upp á styttri og lengri fuglaskoðunarferðir. Stundum í samvinnu við önnur félög. Í sumarbyrjun er farið í vettvangsferðir í Friðlandið í Flóa. Nú er þar risið fuglaskoðunarskýli og göngustígar eru stikaðir á vorin.

Sjá: Viðburðir, Friðlandið í Flóa

Garðfuglahelgi

Árlega eru landsmenn hvattir til að skoða og skrá fjölda og tegundir fugla einn klukkutíma í görðum og þá er átt við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir. Garðfugladagar eru venjulega í lok janúar eða í byrjun febrúar.

Sjá: Verkefnin > Garðfuglar > Garðfuglahelgi

Garðfuglakönnun

Árlega fer fram talning yfir lengri tíma í görðum sem Fuglavernd heldur utan um.

Sjá: Verkefnin > Garðfuglar > Garðfuglakönnun

Fjármál: Fuglavernd byggir afkomu sína að mestu leyti á félagsgjöldum og með aðild að félaginu færð þú m.a. áskrift að tímaritinu FUGLAR og frían aðgang að fræðslufundum og fuglaskoðunum á vegum félagsins. Umhverfisráðuneytið hefur svo styrkt einstök verkefni og rekstur að einhverju leyti og Þjóðhátíðarsjóður styrkti um árabil arnarstarfið en framkvæmd vöktunar hefur að mestu færst yfir til Náttúrufræðistofnunar. Pokasjóður verslunarinnar kostaði uppbyggingu í Friðlandinu og Auðlind náttúrusjóður endurheimt votlendis.  Fuglavernd hefur til fjáröflunar verið með nokkrar fuglatengdar vörur til sölu, t.d.með kort með fuglamyndum sem má panta hér á vefnum og nett barmmerki af lóum, fálkum og lundum.