Fuglaverndarfélag Íslands var stofnað þann 12. janúar 1963 og hafði félagið það megið markmið í byrjun að bjarga haferninum frá útrýmingu á Íslandi.  Að stofnun félagsins komu ásamt fleirum Björn Guðbrandsson, Úlfar Þórðarson, Richard Thors og Þórður Þorbjarnarson.  Arnarstofninn stóð mjög illa á þessum árum og stefndi allt í að hann hyrfi úr íslenskri fuglafánu ef ekkert væri að gert. Hið nýstofnaða félag lét strax mikið að sér kveða enda voru verkefnin ærin og þoldu enga bið.

Friðun arnarins

Alþingi Íslendinga hafði samþykkti árið 1913 að friða haförninn og tóku lög þess efnis gildi 1914.   Því miður vantaði mikið upp á að lögunum væri framfylgt og fækkaði haförnum jafnt og þétt.  Áralangar ofsóknir höfðu gengið nærri stofninum og enn var mikið um að ernir væru skotnir þrátt fyrir friðun.  Sú lenska að setja út eitruð hræ til að fækka tófum hjó líka stór skörð í stofninn enda sóttu ernir ekkert síður í hræin en tófur.  Milli 1960 og 1970 var arnarstofninn í sögulegu lágmarki og ekki voru nema 19-20 varppör á landinu þegar verst lét.

Eitt af fyrstu verkefnum Fuglaverndar var að tryggja áframhaldandi friðun hafarnarins og vinna að banni gegn því að setja út eitruð hræ.  Þetta gekk eftir og lög þess efnis voru sett 1964.  Mikilvægt var að lögunum um friðun hafarnarins væri betur framfylgt en verið hafði og ljóst var að til þess að svo mætti verða þurfti almenna viðhorfsbreytingu bæði hjá bændum og almenningi.  Fuglavernd leitaði því eftir samstarfi við bændur á jörðum þar sem vitað var um arnaróðöl.  Tóku flestir því vel og aðstoðuðu við að tryggja að örninn fengi frið yfir varptímann.  Bændur eiga miklar þakkir skilið fyrir þann skilning sem þeir hafa sýnt verndun arnarins og hefur þetta góða samstarf án efa átt stóran þátt í þeim árangri sem hefur náðst í að byggja upp stofninn á ný.  Fræðslufundir og myndasýningar áttu svo þátt í því að efla almenna vitund um mikilvægi hafarnarins í íslenskri fuglafánu.  Teknar voru upp árlegar talningar til að fylgjast með stofnstærð og árlegar merkingar unga hafa gefið góða yfirsýn yfir útbreiðslu þeirra og dreifingu.  Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglavernd hafa unnið saman að þessu verkefni um árabil.   Í dag telur arnarstofninn 69 varppör svo tekist hefur að snúa þróuninni við þó enn sé langt í land að stofninn nái fyrri hæðum en talið er að um 150-200 varppör hafi verið á landinu um miðja 19. öld.   Það er sorgleg staðreynd að fimmti hver örn sem finnst látinn hér á landi hefur verið skotinn og enn eru þeir til sem spilla arnarvarpi vísvitandi þvert á lög og reglur.  Verndun hafarnarins er því ekki síður mikilvægur þáttur í starfsemi Fuglaverndar í dag og enn er mikil þörf á að efla vitund manna um mikilvægi verndunar hafarnarins og annara fuglategunda.

Sjá: Haförninn

Í tilefni fimmtíu ára afmælis Fuglaverndar var gefið út afmælisrit, sjá í vefverslun: bókin Haförninn.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson flutti erindi á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands og rekur þar sögu friðunar arnarins á hundrað árum frá 1913-2013. Erindið má sjá hér.

bjorn2
Björn Guðbrandsson forgöngumaður og heiðursfélagi í Fuglavernd.

Birni Guðbrandssyni, sem var aðaldriffjöður félagsins í þrjá áratugi, og hans samstarfsmönnum má eflaust þakka að erninum var bjargað frá útrýmingu hérlendis. Þó svo að örninn sé vonandi kominn yfir erfiðasta hjallann eftir útrýmingarherferðina í byrjun þessarar aldar, á hann enn undir högg að sækja.  Árið 1994 var Björn Guðbrandsson kjörinn heiðursfélagi Fuglaverndarfélagsins fyrir störf sín í þágu félagsins og verndun arnarins.

Vernd búsvæða og fuglategunda

Þó að starf Fuglaverndar hafi í fyrstu að mestu snúist um að bjarga erninum frá útrýmingu á Íslandi þá komu fljótt önnur verkefni upp á borð félagsins og bar þar kannski hæst verndun varpsvæða, verndun og endurheimt votlendis og friðun fuglategunda.  Þessi verkefni hafa fylgt Fuglavernd allt fram til dagsins í dag.

Fuglavernd rekur öflugt fræðslustarf .  Haldnir eru reglubundnir fræðslufundir, myndasýningar og fuglaskoðunarferðir auk þess sem að Fuglavernd gefur út hið veglega tímarit Fuglar einu sinni á ári.  Félagið rekur skriftofu með einum og hálfum starfsmanni en að öðru leiti er allt starf unnið í sjálfboðavinnu.

Fuglavernd vinnur náið með löggjafanum og sveitafélögum að málum sem lúta að verndun fugla og varpsvæða.  Má þar nefna vinnu við fjölgun friðaðra svæða undir RAMSAR sáttmálanum og aðild að alþjóðlegum samningum um verndun ýmissa fuglategunda. Ekki er vanþörf á enda er hart sótt að mikilvægum svæðum í nafni virkjanaframkvæmda og stóriðju auk annara framkvæmda í eða við viðkvæm fuglasvæði.

Fuglavernd á í nánu samstarfi við skyld félög í öðrum löndum eins og RSPB í Bretlandi og nú nýverið varð fuglavernd aðili að BirdLife International.

gerast félagi í Fuglavernd snýst ekki bara um það að leggja þitt á vogarskálarnar til verndunar ákveðinna fuglategunda heldur ekki síður að trygga að þínir afkomendur geti í framtíðinni notið óspilltrar íslenskrar náttúru í öllum sínum fjölbreytileika á sama hátt og við gerum í dag.  Í því felst hinn sanni ávinningur.