Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Frumsýning: Heimildarmyndin “Eigi skal höggva”

07.03.2018 @ 20:40 - 21:15

Heimildarmyndin “Eigi skal höggva” verður frumsýnd á sjónvarpsstöðinni RUV miðvikudaginn 7. mars kl. 20:40.

EIGI SKAL HÖGGVA

Heimildamynd um Svartá í Bárðardal og fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir.
Svartá á upptök sín í Svartárvatni í Bárðardal. Við vatnið stendur bærinn Svartárkot, í 450m hæð og 90 km frá sjó. Svartá rennur í Suðurá og sameinaðar bera þær nafn Svartár til ósa í Skjálfandafljóti.

Kippkorn sunnan við Svartárvatn eru Suðurárbotnar. Þar sprettur Suðurá fram kristaltær undan Ódáðahrauni. Tungan milli Suðurár/Svartár og Skjálfandafljóts er Stóratunga. Hún teygir sig frá ósi Svartár við fljótið og 25km til suðurs, langleiðina að þjóðlendumörkum við Suðurárbotna.

Stórutungusvæðið, með ánum beggja megin, er einstakt á landsvísu fyrir margra hluta sakir. Í hrjóstrugu hálendisumhverfi, sem mótað er af uppblæstri og nágrenni við Ódáðahraun, er umhverfi Svartár og Suðurár einstök gróðurvin, með mosabreiðum, fjalldrapa og víði, lynggróðri og blómjurtum, mýrar- og mógróðri. Hér þrífst gróskumikill hálendisgróður, mikið skordýralíf og fjölskrúðugt fuglalíf, en sumir fuglar eru á válista, t.d. straumönd og húsönd, ásamt fálka, en hér er eitt mikilvægasta óðal hans á Norðurlandi.

Í Suðurá lifir bleikja og urriði, og í Svartá er einn glæsilegasti urriðastofn landsins, þekktur meðal innlendra og erlendra veiðimanna. Hinum megin
fellur Skjálfandafljót í tilkomumiklum fossum, en þekktastir þeirra eru Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss. Rannsóknir hafa sýnt að vistkerfi Mývatns og Laxár og Svartár eru mikilvæg hvort öðru.

Allt er svæðið síðan rammað inn í glæstan fjallahring þar sem í suðvestri blasa við Bárðarbunga og Trölladyngja, Dyngjufjöll og Askja í suðri, Herðubreið og Kollóttadyngja í suðaustri og Mývatnsfjöllin í norðri ásamt útsýni út Bárðardal í átt til hafs.

Fyrirtækið SSB-orka hyggst reisa 9,8 MW virkjun við neðri hluta Svartár og tengja hana við tengivirki Landsnets við Laxárvirkjun með 47 km löngum jarðstreng yfir Mývatns- og Laxárdalsheiði, og niður í Laxárdal. Framkvæmdirnar eru nú í lögformlegu umhverfismati.

Stífla á Svartá ofan ármóta Grjótár en 20m3 af 23m3/s vatnsmagni Svartár verður leitt í 3,1 km langri aðrennsispípu í stöðvarhús. Þessum áætlunum
fylgja línulagnir, námugröftur, vegaframkvæmdir ásamt verulegu raski samfara lagningu jarðstrengs. Helgunarsvæði Svartárvirkjunar verður flokkað sem iðnaðarsvæði.

Stórutungusvæðið og allur innsti hluti Bárðardals er ósnortin náttúruperla af öðru en búskap í jaðri miðhálendisins. Virkjun Svartár valda fyrirsjáanlegu tjóni á lífríki árinnar og mun raska heildarásýnd svæðisins sem ósnortinnar náttúruauðlindar. Miðvikudaginn 7. mars 2018 verður frumsýnd á RUV heimildamynd um Stórutungusvæðið, þessa einstöku náttúrperlu, fólkið sem býr á svæðinu, ferðalangana sem sækja það heim, og áhrif fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á lífríki, náttúru og umhverfi.

Kvikmynagerð: Pálmi Gunnarsson og Friðþjófur Helgason.

Details

Date:
07.03.2018
Time:
20:40 - 21:15
Event Categories:
,

Venue

RUV