Leyndardómar Borgarfjarðar

Fuglaskoðun – Dagsferð

Hvenær: 13. Maí 2017

Tímasetning: 9:00 – 18:00

Hvar: Brottför frá Hverfisgötu 105 101 Reykjavík, komið þangað aftur. (Einnig hægt að koma upp í bílinn á leið í Borgarfjörðinn)

Leiðsögumaður: Jóhann Óli Hilmarsson

Verð: 15.000 kr.

Fjöldi: Lágmark 9 manns, hámark 19 manns.

Hafa með: Nesti fyrir daginn, hlýjan og skjólgóðan fatnað og skó, sjónauka, ljósmyndabúnað og handbækur um fugla.

Skráning: ER LOKIРer bindandi og haft verður samband við þátttakendur vegna greiðslu um leið og lágmarksfjölda er náð.

 

Ferðalýsing – Leyndardómar Borgarfjarðar

Farið verður sem leið liggur í Grunnafjörð. Grunnafjörður er eitt af sex Ramsar-svæðum á Íslandi og hið eina sem liggur að sjó.  Víðlendar leirur eru í Grunnafirði og má segja að fjörðurinn sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður.  Margæs (um fjórðungur stofnsins) og rauðbrystingur  hafa viðkomu á ferðum sínum til og frá vetrarstöðvum í Evrópu og varpstaða á heimskautasvæðunum. Tjaldur, heiðlóa, sandlóa og lóuþræll eru og algeng á fartíma. Í firðinum er mikið af æðarfugli. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna, t.d. tjaldur.

Síðan verður ekið í Borgarfjörð. Borgarfjörður er grunnur og víðáttumikill fjörður með miklu grunnsævi og leirum, sem fóstra þúsundir fugla.  Utarlega í firðinum eru stærstu fellistöðvar æðarfugls á landinu, en innar er helsti brandandastaður landsins, þar má sjá nokkur hundruð fugla af þessum nýja landnema síðsumars, en við munum sjá varppörin í fjörugum biðilsleikjum.  Fjörðurinn er mikilvægur fyrir farfugla, bæði gæsir, endur og vaðfugla vor og haust.  Fyrir botni fjarðarins er Hvanneyri.  Þar er fyrsta búsvæðisverndarsvæði landsins, sem á að tryggja grænlensku blesgæsinni athvarf á Íslandi, sem jafnframt er Ramsar-svæði.  Um 10% stofnsins hefur viðkomu vor og haust, þær nátta sig á firðinum, eta á engjum og túnum og baða sig á Vatnshamravatni.  Við munum væntanlega ná í stélið á blesgæsafarinu.

Álftanes, Akrar og Löngufjörur með Sauratjörn er strandsvæði sem einkennist af víðáttumiklum leirum, sjávarfitjum, sandfjöru, grunnsævi, eyjum og skerjum auk mýrlendis, vatna og tjarna. Fjölbreytt andfuglalíf er á tjörnum við Álftanes, m.a. hafa skeiðönd, grafönd og gargönd sést þar. Grunnsvæðið er mjög mikilvægt fyrir æðarfugl og mikill fjöldi vaðfugla (svo sem rauðbrystingur, sanderla, stelkur, lóuþræll o.fl.) og margæs fer um svæðið vor og haust. Sex af átta varpstöðum dílaskarfs við Faxaflóa eru í skerjum á svæðinu. Lómur er óvíða algengari, t.d. er þétt varp í Hjörsey og við Akra og stór hópur álfta fellir flugfjaðrir.  Ernir sjást tíðum svífa þöndum vængjum. Útselur kæpir í Hvalseyjum og Tjaldeyjum og landselir halda sig að staðaldri við Löngufjörur.

Viðburðurinn á Facebook: Fuglaskoðun – Leyndardómar Borgarfjarðar 

Ljósmynd: Brandendur í Djúpavogi. Ljósmyndari: Jóhann Óli Hilmarsson.