Samstarf Fuglaverndar, Landgræðslu, LBHÍ, Votlendissjóðs, RSPB og Cairngorm Connect

Í lok septembermánaðar síðastliðins heimsótti framkvæmdastjóri Fuglaverndar Hólmfríður Arnardóttir þjóðgarðinn Cairngorms í Skotlandi ásamt Einari Bárðarsyni framkvæmdastjóra Votlendissjóðsins og Sveini Runólfssyni stjórnarmanni.  Frá Landgræðslunni fór Sigurjón Einarsson og fyrir hönd Lanbúnaðarháskólans fór Hlynur Óskarsson. Heimsóknin var styrkt af ELP sjóðnum (The Endangered Landscapes Programme) og er liður í undirbúnings verkefni sem íslensku aðilarnir og RSPB (The Royal Society for the Protection of Birds) eru í samstarfi um. RSPB eru ein stærstu umhverfisverndarsamtök í heiminum og hafa verið samstarfsaðilar okkar í fjölda ára og Votlendissjóðsins frá stofnun hans.  Frá RSPB komu Zbig Karopwicz og Mark Day. Hópurinn naut leiðsagnar sérfræðinga á sviði votlendis og enduheimtar þeirra. Farið var í votlendisgöngur og fræðst um sögu svæðanna, lífríki og starf. Meðal annars var fylgst með gröfumanni sem sérhæfir sig í að fylla í skurði og vinna í votlendi án þess að skilja eftir sig mikil spor.

Hópurinn heimsótti og fræddist um  Inch Marshes, náttúruverndarsvæði  í eigu RSPB og á lista Ramsar samningsins yfir mikilvæg alþjóðleg votlendissvæði. Mýrin sú arna er kjörin á varptíma fyrir tegundir sem við þekkjum hér á landi; spóa, stelk, álft, hrossagauk sem og vepju. Enda var ein ástæða heimsóknarinnar að skoða endurheimt og viðhald svæða sem eru kjörlendi tegunda sem einnig verpa á Íslandi og eiga undir högg að sækja á svæðum þar sem landbúnaður, skógrækt og framræsla mýra eru í sókn.  Því þessar aðgerðir minnka varpsvæði þessara tegunda.

Í heimsókninni í Cairngorms hitti hópurinn marga mæta sérfræðinga: Jeremy Roberts, Chiara Alagia og Sidney Henderson frá Cairngorm Connect, Mark Hancock RSPB, Thijs Claes RSPB, Fergus Cumberland RSPB.