Kvenfuglinn (assa, til vinstri) er áberandi stærri en karlfuglinn (ari) og með sterkbyggðari gogg. © Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Haförninn íslenski 2021

Varp haf­arn­ar­ins gekk vel í ár og komust 58 ung­ar á legg. Krist­inn Hauk­ur Skarp­héðins­son, dýra­vist­fræðing­ur hjá Nátt­úru­fræðistofn­un, seg­ir þetta mesta fjölda unga frá því að hafern­ir voru fyrst tald­ir fyr­ir rétt­um 100 árum árið 1921. Hann rifjar upp að þá hafi upp­lýs­inga verið aflað á mann­talsþing­um, en síðan hafi rann­sókn­ir smám sam­an eflst og arn­ar­stofn­inn sé nú einna best þekkti fugla­stofn lands­ins.

Í ár var orpið á 69 óðulum og komust ung­ar á legg á 45 þeirra. Krist­inn Hauk­ur seg­ir að all­ar vísi­töl­ur arn­ar­ins séu sterk­ar í ár, hreiður, varp, ung­ar og óðul í ábúð sem eru nú 86. Í fyrra komust 52 ung­ar á legg og 56 árið 2019, sem þá var besta árið í 100 ára sögu taln­inga. Nú áætl­ar Krist­inn Hauk­ur að arn­ar­stofn­inn telji á fjórða hundrað fugla, en stór hluti hans séu ung­fugl­ar, sem al­gengt er að byrji að verpa 5-6 ára. Á sjö­unda ára­tug síðustu ald­ar voru arna­pör­in aðeins tal­in vera ríf­lega 20.

Aðal­heim­kynni arn­ar­ins eru frá Faxa­flóa norður og vest­ur um í Húna­flóa. Full­orðnir fugl­ar hafa sést reglu­lega aust­ur í Mý­vatns­sveit en hafa ekki ekki slegið sér niður í varp á þeim slóðum.

„Enn er nokkuð í land að haförn­inn loki hringn­um og fari að verpa í öll­um lands­hlut­um, en ég held að það ger­ist á næstu ára­tug­um ef þessi hag­fellda þróun held­ur áfram,“ seg­ir Krist­inn Hauk­ur.

Hann seg­ir að tíðarfarið á und­an­förn­um árum hafi verið ern­in­um hag­stætt og stofn­inn hafi fengið meiri frið og svig­rúm til að þró­ast og þrosk­ast en áður.

Þetta er úr frétt Morgunblaðisins