Kría í Vatnsmýrinni

Alþjóðlegi farfugladagurinn 8. Maí

Alþjóðlegi farfugladagurinn er í dag en hann er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Fuglaverndarfélög um allan heim standa þá fyrir fuglaskoðunarferðum og ýmsum fuglatengdum viðburðum. Hefð hefur verið að Fuglavernd bjóði upp á fuglaskoðun á þessum degi en vegna sóttvarnarráðstafana sér félagið sér ekki fært að gera það í þetta skiptið en hvetur fólk til að fara í fuglaskoðun á eigin vegum. Gott er að taka með sér sjónauka og handbók um fugla og spreyta sig á að þekkja þá. Einnig er hægt að finna smáforrit í síma til að styðjast við. Víða um land má finna skemmtilega fuglaskoðunarstaði og Reykjavíkurborg og Fuglavernd hafa m.a. gefið út bækling um fuglaskoðun í Reykjavík sem nálgast má hér.

 

Farfuglar

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar og nokkrar tegundir fargesta fara hér einnig um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið sinni milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva í Evrópu. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum.

Þeirra á meðal er krían sem flýgur langleiðina yfir hálfan hnöttinn milli varp- og vetrarstöðva vor og haust. Þetta langa flug kostar mikla orku og fyrirhöfn en ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri. Krían á þó undir högg að sækja og varpárangri hennar hefur hrakað mjög á síðustu árum og er talið að fæðuskortur vegna umhverfisbreytinga í hafinu sé orsök þess. Margt bendir til að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu rótin að þeim vanda.

Krían er komin til landsins og hefur sést um sunnanvert landið undanfarið. Hún er m.a. mætt í Vatnsmýrina þar sem njóta má þess að sjá hana og heyra og bjóða hana velkomna í tilefni dagsins.

Fuglavernd hvetur fólk til að taka vel á móti öllum farfuglum og sýna sérstaka aðgæslu í kringum varp fugla.