Dyrhólaós

Stefnir Ísland á að grafa skurði umhverfis jörðina?

Í dag 2. febrúar er Alþjóðlegi votlendisdagurinn eða World Wetlands Day

Þennan dag árið 1971, var undirritaður alþjóðasamningur um verndun alþjóðlega mikilvægra votlendissvæða, einkum fyrir fuglalíf, og er hann kenndur við  borgina Ramsar í Íran. Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að setja verndun mikilvægra votlendissvæða í öndvegi.

Votlendissvæði eru afar mikivæg búsvæði margra fuglategunda, en stórfelld röskun þeirra um alla jörð hefur skaðað fuglalíf og stuðlað að mikilli aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland á líklega heimsmet í röskun votlendissvæða en um 70% votlendis á láglendi hefur verið raskað. Við höfum grafið skurði sem telja um 33.000 km, sem samsvarar rúmlega 80% af vegalengdinni umhverfis jörðina um miðbaug.

Enn eru uppi áform um stórfellda röskun á votlendi og má þar nefna Dyrhólaós í Mýrdal sem fyrirhugað er að rýra með nýrri vegarlagningu. Dyrhólaós og umhverfi hans er á Náttúruminjaskrá (svæði 708) og þar eru einu sjávarleirurnar sem finnast á Suðurlandi og því mikilvægt búsvæði fugla.

Fuglavernd leggst eindregið gegn þessum áformum og lýsir áhyggjum af því að veglagningin geti haft varanleg skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn eins og m.a. er bent á í nýlegri umsögn Fuglaverndar um fyrirhugaða færslu þjóðvegar (1) um Dyrhólaós í Mýrdal. Fuglavernd hvetur stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum framkvæmdum og huga frekar að stækkun og friðlýsingu náttúruminjasvæðisins eins og Náttúrufræðistofnun hefur lagt til.

Á 50 ára afmæli Ramsarsamningsins er Ísland enn á þeim stað að meira er raskað af votlendi en nemur því sem er endurheimt. Með sama áframhaldi er hætt við að þess verði ekki langt að bíða að íslenskir skurðir muni samanlagt ná umhverfis jörðina.