Kettir á varptíma

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert.  Lang best væri að kettir væru inni yfir varptímann en einhvern vegin þarf að tækla ketti sem eru vanir útigöngu.

Á þessum tíma er mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Sagt er að kettir stundi mest veiðar í ljósaskiptunum en  norðarlega á hnettinum lengist dagurinn að vori og senn renna dagur og nótt saman í eitt.  Veiðar katta einskorðast því ekki við ljósaskiptin.

Hægt er að venja kött á að vera inni á nóttunni. Þegar kallað er á hann um kvöldmatarleiti og hann kemur inn þá ber að verðlauna með kattagóðgæti. Svo á ekki að hleypa honum út fyrr en daginn eftir og reyna að takamarka útiveruna við fáeinar klukkustundir.

Kattakragar hafa reynst gott meðal til að minnka veiðar katta og þeir virka betur heldur en bjöllurnar.  Fuglavernd selur kattakraga í vefverslun sinni.

Framleiðendur kraganna Birdsbesafe eru með mikið af fróðleik og upplýsingum um rannóknir á virkni kraganna. Hér má lesa um það á ensku.

Bjöllur og kragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

 

• halda köttum inni, sérstaklega frá kvöldi og fram á morgun (helst frá kl. 17 seinnipart dags og til kl. 9 að morgni),
• gefa köttum sérlega ljúffenga máltíð (kjöt) seinni partinn (þá venjast þeir á að koma heim og eru líklegri til að vilja vera inni, saddir og sælir)
• setja litríka kattakraga utan um ólar kattanna
• setja aukabjöllur á ólarnar