Kolgrafafjörður-skoðunarferð

Farið var í Kolgrafafjörð sunnudaginn 16. mars. Alls 25 fuglategundir sáust í ferðinni, hnísur, landselir og útselir – 7 ernir voru á sveimi og einn þeirra sýndi sig mjög vel og svo sást fálki í Melasveitinni. Í bígerð er að fara aftur í apríl/maí 2014. Áhugasamir hafi samband í fuglavernd@fuglavernd.is en ákveðið verður bráðlega með tímasetningar.

Mesta fjörið við brúna á Kolgrafafirði er venjulega á útfallinu, þá geta hundruð súlna stungið sér alveg uppvið brúna, toppskarfar, æðarfuglar, máfar og útselir synda þar í kring og háhyrningar eiga það til að synda undir brúna eins og ekkert sé.
Ernir eru á sveimi, fálka bregður fyrir og í æðarhópunum eru stöku æðarkóngar. Mikið er af bjartmáfi, hvítmáfi og veiðibjöllu og fáeinum gulöndum, toppöndum og fleiri fuglum bregður fyrir. Á myndinni má sjá háhyrninga sem Jóhann Óli ljósmyndaði þar fyrr í mánuðinum en hann mun sjá um leiðsögnina.