Alþýðuheiti íslenskra fugla

31. október n.k. ætlar Sigurður Ægisson að vera með erindi á fræðslufundi Fuglaverndar um alþýðuheiti fugla. Íslenskir varpfuglar – og margir aðrir sem landið okkar og miðin gista á ákveðnum árstímum – hafa ekki allir ætíð borið þau heiti sem nú eru opinberlega við lýði í fræðiritum og umræðunni, þótt vissulega séu mörg þeirra aldagömul og gróin í tungunni. Í sumum tilvikum er um nýyrði að ræða, tiltölulega ung. Á öllum tímum hafa auk þessa verið til með alþýðunni enn önnur heiti, líklega oftast  staðbundin, þó ekki alltaf, sem fæst komust á þrykk en varðveittust ýmist í munnlegri geymd, handritum eða í prentuðu máli. Sigurður Ægisson hefur í rúma tvo áratugi viðað að sér þessum aukaheitum og víða leitað fanga í því sambandi. Um 700 þeirra birtust í fuglabók hans sem út kom árið 1996 og nefndist Ísfygla en síðan þá hafa bæst við um 300. Í erindi sínu fimmtudagskvöldið 31. október næstkomandi mun hann á einni klukkustund reifa þetta áhugamál sitt og með aðstoð skjávarpa taka valin dæmi um fuglaheiti sem erfitt er að ráða í, og að auki leggja nokkrar þrautir fyrir áhorfendur.

Á meðfylgjandi mynd sem Sigurður Ægisson tók er steindepill eða depill, góutittlingur, grádílóttur steindepill, máríetlubróðir, steindelfur, steindepla, steindólfur, steinklappa, steinklöpp, steinverpill eða sumarþröstur.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar fyrirlesturinn klukkan 20:30. Gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.