Hálfrar aldar hetjusaga

Félagið okkar Fuglavernd varð fimmtugt þann 28. janúar síðastliðinn. Það er eitt elsta og jafnframt stærsta náttúruverndarfélag landsins og hefur marga fjöruna sopið í baráttunni fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Saga félagsins verður ekki rakin hér, heldur blásið til afmælishátíðar á afmælisári.
Aðalhátíðin verður haldin í Nauthóli þann 20. apríl. Boðað er til dagskrár frá hádegi og fram á kvöld. Aðalfundur verður haldinn þennan dag og síðan verður fræðslu- og skemmtidagskrá með erindum, myndasýningum og ávörpum. Umhverfisráðherra mætir og býður til hanastéls. Um kvöldið býðst fólki að snæða á staðnum.
Hátíðarútgáfa fugla kemur út í vor. Ákveðið var að fresta 2012 blaðinu, færa útgáfuna fram á vor og reyna að halda þeim útgáfutíma framvegis. Jafnframt er blásið til afmælisljósmyndasýningar. Fugl ársins verður kynntur í fyrsta sinn. Að tilnefna fugl ársins hefur lengi tíðkast hjá systurfélögum víða. Í tilefni afmælisins og sögu félagsins, þótti við hæfi að tilnefnda Haförninn. Veglegt smárit um örninn kemur síðan út á árinu í tilefni afmælisins. Jafnframt verður forsprakkanna minnst í ræðu og riti og þá sérstaklega Björns Guðbrandssonar, sem var prímus mótor félagsins í áratugi og sannkölluð hetja í baráttunni fyrir verndun arnarins.

Allar líkur eru til þess að Fuglavernd verði fullgildur meðlimur BirdLife International á árinu og þykir það viðeigandi á afmælisári. Loks hefur nýr vefur verið settur í loftið.

Það er því full ástæða til tilhlökkunar á þessari stóru stundu.
Ljósmynd: Daníel Bergmann.