Ungum er það allra best

Það verður aldrei of oft hamrað á því að, að velferð fugla þarf alltaf að ganga fyrir. Það má ekki trufla þá, ekki fara of nálægt þeim sérstaklega ekki fara of nálægt hreiðrum.

Látið unga í friði sem virðast vera munaðarlausir, takið þá ekki úr sínu náttúrulega umhverfi. Foreldrarnir eru oftast í næsta nágrenni að safna æti og bíða eftir því að mannfólkið hverfi á braut.

Þegar fólk hringir til Fuglaverndar og segist hafa fundið unga er allra best að láta hann bara vera í friði, því oftast kemur móðirin að leita að unganum sínum þegar fólkið fer. Fuglarnir verða hræddir við fólk og láta sig hverfa. Þegar mannfólkið er farið þá fara foreldrarnir aftur að leita að ungunum sínum. Þá er leiðinlegt að búið sé að hirða ungann, “bjarga” honum með því að fara með hann í burtu.

Skógarþrastarungar fara ófleygir úr hreiðri

Í grein Ævars Petersen í Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingnum, segir:1

Skógarþrastarungar eru ófleygir í hálfa til eina viku eftir að þeir fara úr hreiðri og dreifast þá vanalega um nærliggjandi garða. Á þessu tímabili eru þeir sérlega auðveld bráð fyrir ketti sem mikið er af í sumum þéttbýlishverfum.
Meðan skógarþrastarungar eru ófleygir en farnir úr hreiðri telur fólk gjarnan að þeir séu yfirgefnir. Þá eru þeir oft handsamaðir því fólk telur sig vera að bjarga þeim. Svo er alls ekki og hið eina rétta er að láta þá í friði. Foreldrarnir finna þá auðveldlega því ungarnir láta heyra til sín og nema foreldrar þau hljóð langar leiðir.

Náttúran sér um sína

Ef eitthvað er að ungum eru þeir oft skildir eftir af foreldrum sínum í náttúrunni og þurfa þeir að reyna að bjarga sér sjálfir. Yfirleitt er best að láta fugla vera í svona aðstæðum, leyfa náttúrunni að sjá um sig sjálf.

Öðru máli gegnir ef ungi eða fullorðinn fugl er slasaður, vængbrotinn eða fastur í einhverju rusli t.d. plasti eða snæri.

Ef nauðsynlega þarf að fanga fugl, setjið hann í kassa með pappír í botninum og setjið skál af vatni fyrir fuglinn. Látið kassan á dimman, hlýjan og rólegan stað og hafið samband við dýralækni eða Húsdýragarðinn.

 

1. Ævar Petersen (2014). Svartþröstur aðstoðar við hreiður skógarþrasta. Náttúrufræðingurinn 82(1-2): 61-64

Fuglar með unga