Nýsjálenska tímaritið Forest & Bird fjallar um íslenska Fugl ársins

Fjallað var um Fugl ársins 2021 í vetrar tímariti Forest & bird sem gefið er út í Nýja Sjálandi. Þar er vissulega vetur nú.
Ef þið hafið hug á að skoða greinina þá getiði smellt á eftirfarandi hlekk og flettið síðan á bls. 8
Forest & Bird
Meðfylgjandi mynd er af Lóu- barmmerkinu sem Fuglavernd lét framleiða og er til sölu í netversluninni.

Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar.

Formaður Fuglaverndar Ólafur Karl Nielsen sæmdur Fálkaorðunni

Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur og formaður Fuglaverndar var sæmdur Fálkaorðunni við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær 17. júní 2021. Heiðurinn hlýtir hann vegna rannsókna á íslenskum fuglum, ekki síst fálka og rjúpu, og miðlun þekkingar á því sviði.
Það er auðvitað viðeigandi að Ólafur K. beri Fálkaorðu á brjósti.

Hér er hann Ólafur K. í góðum félagasskap á Bessastöðum í gær.

Kría í Vatnsmýrinni

Alþjóðlegi farfugladagurinn 8. Maí

Alþjóðlegi farfugladagurinn er í dag en hann er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Fuglaverndarfélög um allan heim standa þá fyrir fuglaskoðunarferðum og ýmsum fuglatengdum viðburðum. Hefð hefur verið að Fuglavernd bjóði upp á fuglaskoðun á þessum degi en vegna sóttvarnarráðstafana sér félagið sér ekki fært að gera það í þetta skiptið en hvetur fólk til að fara í fuglaskoðun á eigin vegum. Gott er að taka með sér sjónauka og handbók um fugla og spreyta sig á að þekkja þá. Einnig er hægt að finna smáforrit í síma til að styðjast við. Víða um land má finna skemmtilega fuglaskoðunarstaði og Reykjavíkurborg og Fuglavernd hafa m.a. gefið út bækling um fuglaskoðun í Reykjavík sem nálgast má hér.

 

Farfuglar

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar og nokkrar tegundir fargesta fara hér einnig um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið sinni milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva í Evrópu. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum.

Þeirra á meðal er krían sem flýgur langleiðina yfir hálfan hnöttinn milli varp- og vetrarstöðva vor og haust. Þetta langa flug kostar mikla orku og fyrirhöfn en ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri. Krían á þó undir högg að sækja og varpárangri hennar hefur hrakað mjög á síðustu árum og er talið að fæðuskortur vegna umhverfisbreytinga í hafinu sé orsök þess. Margt bendir til að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu rótin að þeim vanda.

Krían er komin til landsins og hefur sést um sunnanvert landið undanfarið. Hún er m.a. mætt í Vatnsmýrina þar sem njóta má þess að sjá hana og heyra og bjóða hana velkomna í tilefni dagsins.

Fuglavernd hvetur fólk til að taka vel á móti öllum farfuglum og sýna sérstaka aðgæslu í kringum varp fugla.

Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Alþjóðlegi farfugladagurinn 10. október

Alþjóðlegi farfugladagurinn er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Vegna hertra samkomutakmarkana á Höfuðborgarsvæðinu þurftum við að aflýsa fyrirhugaðri fuglaskoðun við Bakkatjörn.

Þess í stað verður hér fjallað um farfugla.

Farfuglar

Fuglar búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta flogið. Því geta þeir hæglega valið sér góðan stað til að vera á og einnig flutt sig um set þegar aðstæður breytast. Aðalatriði er að nóg sé af fæðu, en einnig skiptir veður og öryggi miklu máli.

Það kostar mikla orku að fljúga á milli landa. Ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri hjá þeim tegundum sem teljast til farfugla.

Á vetrarstöðvunum er mildara veður og meiri fæða en á norðlægari slóðum yfir veturinn. 

Við sjáum farfugla hópa sig á haustin. Þá eru þeir að byggja sig upp fyrir langflugið og einnig bíða þeir saman eftir ákjósanlegu veðri. Fuglar virðast næmir á veðrið og geta spáð fram í tímann. Það skiptir þá miklu að hafa meðbyr. Hraðskreiðar lægðir hafa þó oft komið farfuglum í bobba, tafið för þeirra þannig að orku þrýtur eða leitt þá af leið.

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum. 

Fargestir

Nokkrar fuglategundir fara hér um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva á Bretlandseyjum eða annars staðar í Vestur-Evrópu. Kunnastar eru þrjár tegundir gæsa: blesgæs (dvelst einkum á Suðurlandsundirlendi og við innanverðan Faxaflóa), helsingi (aðallega norðanlands á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin) og margæs (Faxaflói og Breiðafjörður). 

Gæsir

Lesa meira um Tegundavernd>Gæsir

Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Tegundavernd: Gæsir

Við höfum tekið saman efni um gæsir undir flokknum tegundavernd.

Gæsir eru meðalstórir fuglar, talsvert stærri en endur, hálslengri og háfættari. Þorri gæsa sem hefur viðkomu hér á landi er mjög norðlægur, það er að segja fljúga langt norður á auðnir heimskautssvæðanna til varps. Áður náðu varpsvæði þessara norðlægu gæsa mun sunnar en vegna ágangs manna, aukins veiðiálags og röskunar búsvæða hafa þau færst norðar.

Á haustin safnast gæsir saman í stóra hópa og hefja farflug suður á hlýrri svæði. Með oddafluginu draga gæsirnar úr loftmótstöðu á löngu flugi sínu yfir höf og lönd.

Hér á landi má finna 5 gæsategundir, blesgæs, grágæs, heiðagæs, helsingja og margæs. Blesgæs og margæs eru alfriðaðar en veiðitímabil er í gildi fyrir grágæs, heiðagæs og helsingja.

Lesa meira: Tegundavernd>Gæsir

Komdu með: í Hafnarhólma

Hafnarhólmi á Borgarfirði eystra er frábær staður heim að sækja og við hvetjum alla þá sem ætla að leggja land undir fót í sumar að heimsækja Hafnarhólma. Þar er að finna fjölskrúðugt fuglalíf og aðstaða til fuglaskoðunar er með því besta sem gerist á landinu.

Fuglavernd hlaut að erfðagjöf meirihluta í hólmanum árið 2017, en hér má lesa allt um Hafnarhólmann, Búsvæðavernd>Hafnarhólmi.

Rándýrin í garðinum

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

Kettir veiða helst algenga garðfugla: (smellið á tegundina til að sjá varptíma)

 – skógarþröstur

 – svartþröstur

 – stari

– snjótittlingur

– auðnutittlingur

þúfutittlingur

Rannsóknir

Í Bandaríkjunum árið 2013 hjá The Smithsonian Conservation Biology Institute and the U.S. Fish and Wildlife Service var gerð rannsókn. Þar var talið að útikettir drepi um 2, 4 milljarða fugla á hverju ári og séu þar stærsta dánarorsök af mannavöldum í landinu. Síðan þá hafa svipaðar niðurstöður komið fram í Kanada og í Ástralíu.

Meira um rannsóknirnar:
The impact of free-ranging domestic cats on wildlife of the United States

Estimated Number of Birds Killed by House Cats (Felis catus) in Canada

How many birds are killed by cats in Australia?

Kattarkragar

Þá hafa kattakragar verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kattarkragar eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel.

Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.

Meira má lesa um kattarkraga:
Birds be safe: Can a novel cat collar reduce avian mortality by domestic cats (Felis catus)?

Assessing the effectiveness of the Birdsbesafe® anti-predation collar cover in reducing predation on wildlife by pet cats in Western Australia

Kattarkraga má víða finna í vefverslunum t.d. birdsbesafe.com

Söngur svartþrastarins

Svartþröstur (Turdus merula)er venjulega fremur felugjarn, nema syngjandi karlfuglar á vorin, sem hreykja sér í trjátoppum, á ljósastaurum og húsmænum. Fuglar í makaleit syngja meira en þeir sem eiga maka og eru eingöngu að auglýsa óðal sitt. Frá svartþresti má heyra hvellan, hljómfagran og þunglyndislegan söng, sem og hart og hvellt kallhljóð.

Fuglarnir fara að syngja í lok febrúar, oft löngu fyrir birtingu og sérstaklega í dumbungsveðri og hlýindum. Þeir fyrstu verpa í lok mars, þeir verpa oft yfir sumarið og ófleygir ungar hafa fundist alveg fram í september. Íslenskt veðurfar með umhleypingum á útmánuðum, á eftir að síast inní gen fuglanna, þeir telja sig enn vera á suðlægari slóðum eða í mildara loftslagi. Utan varpstöðva sést hann í görðum, við bæi og í fjörum.

Fjöldi eggja: 3–5
Liggur á: 13–15 daga
Ungatími:13–14 dagar
Stofnstærð:yfir 2000 varppör

Svartþröstur verpur í trjám í görðum og trjálundum, stundum á húsum. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, svipaða eða efnismeiri en skógarþrösturinn. Ungarnir eru ósjálfbjarga, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir eða að verða fleygir. Urptin er 3-5 egg, álegan tekur um tvær vikur og uppvöxtur unga svipaðan tíma. Varptími svartþrasta er langur og verpa þeir nokkrum sinnum yfir sumarið.

Svartþröstur er þjóðarfugl Svía og þar er hann veðurviti.

Svartþrastarkarl. © Jóhann Óli Hilmarsson.
Svartþrastarkvenfugl. © Jóhann Óli Hilmarsson

Heimildir:

Fuglavefurinn – Svartþröstur
Náttúruminjaafn Íslands – fugl mánaðarins – svartþröstur

Álftin og áldósin

Ljósmmynd © Britta Steger

Náttúrufræðistofnun Íslands vann gott starf í gær, sem aðra daga. Eftir ábendingar til Fuglaverndar – BirdLife Iceland á fésbókinni, heyrðum við í þeim og þeir létu ekki á sér standa. “Maðurinn með háfinn” er einn stjórnarmanna Fuglaverndar og leiðandi í fjölbreyttu sjálfboðaliðastarfi á vegum félagsins.

Í færslu frá Náttúrufræðistofnun Íslands segir:

Björgun dýra í neyð!
Það er löng hefð fyrir því á Náttúrufræðistofnun að hjálpa fuglum og öðrum dýrum sem hafa lent í hremmingu. Þær eru ófáar ferðirnar sem farnar hafa verið á umliðnum áratugum til að fanga erni, fálka, smyrla, uglur og aðra fulltrúa hinnar fiðruðu dróttar himinsins! Í morgun kom eitt slíkt kall: álft með áldollu krækta upp á neðra skolt við Urriðavatn! Hér voru hæg heimtök og ekki nema steinsnar frá NÍ í Urriðaholti á vettvang.

Fuglinn fannst eftir stutta leit; hann var lagstur fyrir í mýrinni austan við vatnið og augljóslega mjög af honum dregið. Fyrsta tilraun til að fanga fuglinn endaði háðulega. „Maðurinn með háfinn“ flaug á höfuðið og lá flatur í mýrinni en álftin náði á hlaupum út á vatn. Nú voru góð ráð dýr, báts var þörf!

Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst! Bjargvætturinn, Magni Þór Konráðsson hjá Firringu ehf., mætti á vettvang með fley og fagrar árar. Eftirleikurinn var auðveldur, fuglinn var sigldur uppi, háfaður, settur í spennitreyju og við landtöku var dollan klippt laus. Sárið var ljótt og fuglinn augljóslega búinn að bera dolluna í nokkurn tíma. Þetta var álbaukur undan orkudrykk. Álftin hafði rekið neðra skolt inn um drykkjargatið og þannig fest þennan aðskotahlut á viðkvæmum stað.

Náttúrufræðistofnun hefur átt góða samvinnu við Húsdýragarðinn um endurhæfingu fugla í neyð. Þangað lá leiðin með álftina og hún er nú í góðum höndum. Í Húsdýragarðinum fær hún næði til að gróa sára sinna og endurheimta fyrri styrk og í framhaldinu verður henni sleppt aftur út í náttúruna. Þetta litla dæmi sýnir að kæruleysi, líkt og að fleygja frá sér tómri áldollu, getur dregið dilk á eftir sér. Sýnum ábyrgð og skiljum ekki hluti eftir úti í náttúrunni sem geta orðið vinum okkar að grandi!


ÓKN

Og eins og Reykjavík iðandi af lífi sagði í færslu um atvikið: Áhrifarík dæmisaga um hvað umgengni okkar í náttúrunni getur haft mikil áhrif.