Haxi kom í heimsókn

Haxi hagsmunafélag líffræðinema við Háskóla Íslands heimsótti Fuglavernd nú í byrjun árs 2019.

Rúmlega tuttugu manna föngulegur hópur heimsótti okkur föstudagskvöldið 11. janúar. Fengu þau kynningu á starfsemi félagsins og virtist koma flestum skemmtilega á óvart hversu umfangsmikil hún er. Lögð var áhersla á gott samstarf Fuglaverndar og vísindasamfélagsins s.s. hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofunum hringinn í kringum landið og önnur umhverfisverndarsamtök en þess má geta að Fuglavernd er tengiliður milli Umhverfis- og Auðlindaráðuneytis og samstarfsvettvangs umhverfisverndarsamtaka sem eru býsna stór hópur.

Einnig var lögð áhersla á allt það sjálfboðastarf sem félagar Fuglaverndar inna af hendi, bæði við hagsmunagæslu af ýmsum toga, rannsóknir, útgáfu, fræðslu og miðlun en ekki hvað síst þegar taka þarf til hendinni.

Kvöldið flaug hjá í skemmtilegum umræðum við fróðleiksfúsa líffræðinemana. Við hjá Fuglavernd viljum þakka þeim kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til við að takast á við skemmtileg verkefni í framtíðinni, hvar svo sem þessir núverandi líffræðinemar koma til með að velja sér starfsvettvang í framtíðinni.

Líffræðinemar við Háskóla Íslands
Líffræðinemar við Háskóla Íslands II