Hófsemi veiðimanna lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2017. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 57 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 40 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Viðkoma rjúpunnar var metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars. Hlutfall unga reyndist vera 78% á Norðausturlandi og 79% á Suðvesturlandi, þetta er ágæt viðkoma. Miðað við niðurstöður rjúpnatalninga er stærð rjúpnastofnsins  í meðallagi víðast hvar um land 2017 en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi, þar er stofninn í lágmarki. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2017 var metin 173 þúsund fuglar, en var 132 þúsund fuglar 2016. Framreiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fuglar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og ofmeta stærð stofnsins nær örugglega.

Sjá nánar: Tillögur um rjúpnaveiði 2017

Veiðidagar rjúpu 2017

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:

  • föstudaginn 27. október, laugardaginn 28. október og sunnudaginn 29. október,
  • föstudaginn 3. nóvember, laugardaginn 4. nóvember og sunnudaginn 5. nóvember,
  • föstudaginn 10. nóvember, laugardaginn 11. nóvember og sunnudaginn 12. nóvember,
  • föstudaginn 17. nóvember, laugardaginn 18. nóvember og sunnudaginn 19. nóvember.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi.

Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005: “Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. 

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort.

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

 

Hvernig á að greina blesgæs? – Gæsaveiðitímabilið er hafið

Fuglaveiðimenn eru farnir að undirbúa fyrstu veiðiferð tímabilsins. Veiðar á grágæsum og heiðagæsum hófust sunnudaginn 20. ágúst.Þann 1. september hefst veiðitímabil anda, en á vef Umhverfisstofnunar má sjá veiðitímabil þeirra fugla sem heimilt er að veiða.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Greining blesgæsar

Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.

Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.

Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.

Hrun í stofninum ástæða friðunar

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar

Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.

Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu. 

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar

© Ljósmynd: Blesgæs. Jóhann Óli Hilmarsson

Ungum er það allra best

Það verður aldrei of oft hamrað á því að, að velferð fugla þarf alltaf að ganga fyrir. Það má ekki trufla þá, ekki fara of nálægt þeim sérstaklega ekki fara of nálægt hreiðrum.

Látið unga í friði sem virðast vera munaðarlausir, takið þá ekki úr sínu náttúrulega umhverfi. Foreldrarnir eru oftast í næsta nágrenni að safna æti og bíða eftir því að mannfólkið hverfi á braut.

Þegar fólk hringir til Fuglaverndar og segist hafa fundið unga er allra best að láta hann bara vera í friði, því oftast kemur móðirin að leita að unganum sínum þegar fólkið fer. Fuglarnir verða hræddir við fólk og láta sig hverfa. Þegar mannfólkið er farið þá fara foreldrarnir aftur að leita að ungunum sínum. Þá er leiðinlegt að búið sé að hirða ungann, “bjarga” honum með því að fara með hann í burtu.

Skógarþrastarungar fara ófleygir úr hreiðri

Í grein Ævars Petersen í Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingnum, segir:1

Skógarþrastarungar eru ófleygir í hálfa til eina viku eftir að þeir fara úr hreiðri og dreifast þá vanalega um nærliggjandi garða. Á þessu tímabili eru þeir sérlega auðveld bráð fyrir ketti sem mikið er af í sumum þéttbýlishverfum.
Meðan skógarþrastarungar eru ófleygir en farnir úr hreiðri telur fólk gjarnan að þeir séu yfirgefnir. Þá eru þeir oft handsamaðir því fólk telur sig vera að bjarga þeim. Svo er alls ekki og hið eina rétta er að láta þá í friði. Foreldrarnir finna þá auðveldlega því ungarnir láta heyra til sín og nema foreldrar þau hljóð langar leiðir.

Náttúran sér um sína

Ef eitthvað er að ungum eru þeir oft skildir eftir af foreldrum sínum í náttúrunni og þurfa þeir að reyna að bjarga sér sjálfir. Yfirleitt er best að láta fugla vera í svona aðstæðum, leyfa náttúrunni að sjá um sig sjálf.

Öðru máli gegnir ef ungi eða fullorðinn fugl er slasaður, vængbrotinn eða fastur í einhverju rusli t.d. plasti eða snæri.

Ef nauðsynlega þarf að fanga fugl, setjið hann í kassa með pappír í botninum og setjið skál af vatni fyrir fuglinn. Látið kassan á dimman, hlýjan og rólegan stað og hafið samband við dýralækni eða Húsdýragarðinn.

 

1. Ævar Petersen (2014). Svartþröstur aðstoðar við hreiður skógarþrasta. Náttúrufræðingurinn 82(1-2): 61-64

Fuglar með unga

Dagur Jarðar í Grasagarðinum

Á laugardaginn, á Degi Jarðar, stóð Fuglavernd fyrir fuglaskoðun í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur. Alls komu um 60 manns í fuglaskoðunina, svo hópnum var skipt upp í tvo hópa til að njóta betur leiðsagnar um garðinn. Leiðsögumenn voru Einar Þorleifsson og Hannes Þór Hafsteinsson. Að lokinni göngunni komu hóparnir í garðskálann (Kaffi Flóru) þar sem kynning var á starfsemi Fuglaverndar, fuglahúsum og fuglafóðri.

Að lokinni dagskrá í Grasagarðinum tók við dagskrá hjá Garðyrkjufélagi Íslands þar sem boðið var upp á súpu og brauð í hádeginu. Þar voru kynnt starfsemi Garðyrkjufélagsins og býflugnarækt.

Myndir frá Degi Jarðar 2017

 

 

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Væri ég fuglinn frjáls gefin grunnskólum

Væri ég fuglinn frjáls, bekkjarsett hefur verið gefið í alla grunnskóla með 5. bekk

Fuglavernd hefur gefið út bókina Væri ég fuglinn frjáls, fyrstu skrefin í fuglaskoðun.

Allir grunnskólar landsins sem eru með 5. bekk hafa nú fengið að gjöf bekkjarsett af bókinni, til þess að efla náttúrufræðikennslu en það er eitt af markmiðum Fuglaverndar. Viðtökur við bókinni hafa vægast sagt verið frábærar, hvarvetna höfum við mætt miklu þakklæti fyrir gjöfina og kennarar hafa tekið nýju námsefni fegins hendi.

Þá fengum við sérstakt hrós fyrir umbúnað sendinganna, en við endurnýttum pappakassa og dagblöð sem umbúðir sendinganna til grunnskólanna.

Í samvinnu við Menntamálastofnun var bókin kynnt á dögunum á málþingi um náttúrufræðimenntun og þaðan er sömu sögu að segja, viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum.

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er mjög algengur fugl á Íslandi og telur hátt í milljón fugla að hausti. Hún er hvergi eins algeng í Evrópu og hér – og eins og þekkt er þá er lóan okkar helsti vorboði.  Lóan er einum degi seinna á ferðinni í ár en í fyrra, þegar hún sást við Garðskagavita 26. mars. Meðalkomutími þessa ljúfa vorboða undanfarna tvo áratugi er 23. mars.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, bendir á að afar sjaldgæft sé að svo margar lóur hafi hér vetursetu eins og nú í vetur, en í desember sáust yfir 100 lóur á Seltjarnarnesi og nokkrir tugir um og eftir áramót. Það séu þó allar líkur á því að fuglarnir sem sáust við Einarslund séu farfuglar, að sögn Kristins.

„Hún er að koma svona fram undir apríl, þannig að menn geta svo sem hengt sína vorkomu á hvað sem þeir vilja, en lóan er náttúrulega ágætur fulltrúi, syngur fallega og er ljúfur fugl. Þannig að það er ágætt að halda í þessa hefð og telja að vorið sé komið með lóunni,“ segir Kristinn.

Á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands kom fram í gær að fjórar heiðlóur sáust á flugi við Einarslund á Höfn. Óvenjumargar lóur ákváðu að vera um kyrrt á Íslandi nú í vetur, í stað þess að fljúga til Bretlandseyja eins og venja er.

 

Hettumáfur. Ljósmynd: Elma Rún Benidiktsdóttir

Máfahátíð á Húsavík

Máfahátíð verður í fyrsta skipti haldin á Húsavík dagana 9. til 10. mars nk.  Það er Fuglastígur á Norðausturlandi sem stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við ýmsa aðila. Henni er ætlað að vekja athygli á ríku fuglalífi Norðurlands/Íslands að vetri til og hvernig það getur nýst samfélaginu. Þetta er gert með viðburðum af ýmsu tagi og er kastljósinu beint að öllum fuglum, stórum jafnt sem smáum, vinsælum jafnt sem óvinsælum. Þegar á botninn er hvolft, eru þeir allir jafn áhugaverðir – náttúran minnir á sig og þolmörk sín í gegnum þá.

Undanfarin ár hefur sambærileg hátíð notið mikillar velgengni í Varanger, nyrst í Noregi og mun forsprakki hennar, Tormod Amundsen frá arkitektastofunni Biotope, koma ásamt fleiri erlendum gestum. Hann mun greina frá tilurð hátíðarinnar,  undraverðum árangri í uppbyggingu fuglaskoðunar í Varanger og möguleikum okkar á því sviði. Þá mun hinn heimsþekkti fuglamyndlistamaður, Darren Woodhead, lyfta vetrarfuglunum á stall með pensli sínum. Hann mun kynna listsköpun sína í opinni dagskrá og vera með sérstakt námskeið fyrir nemendur Borgarhólsskóla.

Fuglaskoðun að vetri

Fuglaskoðun á Íslandi að vetri til á vafalaust eftir að aukast. Margar af þeim tegundum sem erlendum fuglaskoðurum þykir hvað eftirsóknarverðastar eru hér allt árið. Straumendur eru til dæmis auðfundnar víða við Norðurströndina að vetri til og geta þær sómt sér vel á stalli með Norðurljósunum, sökum góðs aðgengis, fegurðar og sérstöðu (finnast ekki utan Íslands í Evrópu). Sama má segja um fálkann, rjúpuna, húsöndina og fleiri vetrarfugla. Þá myndar æðarfuglinn gjarnan stóra fleka við strandlengjuna sem eru tilkomumikil sjón og í þeim leynast stundum ægifagrir æðarkóngar. Litskrúðugir hávellu- og toppandarsteggir gleðja líka augað. Þannig má lengi telja.

Eins og nafn hátíðarinnar gefur til kynna er máfunum, aldrei þessu vant, gert hátt undir höfði. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir eru algengustu fuglarnir í flestum sjávarplássum landsins og af mörgum gerðum. Sú hugsun að þeir geti nýst okkur á einhvern hátt er yfirleitt víðsfjarri. Tilhneigingin hefur frekar verið í hina áttina, þ.e. að líta á máfana sem eins konar meindýr eða eitthvað sem er fyrir okkur. Samfélagið lítur þá gjarnan hornauga. En hvað eru máfar eiginlega? Og hvernig geta þeir og aðrir fuglar nýst manninum?

Máfarnir afhjúpaðir

Leitast verður við að afhjúpa líf máfanna á hátíðinni og munu nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík ríða á vaðið með þátttöku í útinámsverkefni tengdu alþjóðlegri rannsókn á máfum í Norður-Atlantshafi. Teymi máfasérfræðinga mun veiða þá í þar til gerðar gildrur við höfnina og setja litmerki á fætur þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra og lífshlaupi. Þarna gefst nemendum og öðrum áhugasömum tækifæri á að skoða máfana í bak og fyrir. Yann Kolbeinsson, líffræðingur og fuglaskoðari, mun leggja til sína þekkingu.

Máfahátíðin er samstarfsverkefni Fuglastígs á Norðausturlandi, Náttúrustofu Norðausturlands, Norðurþings og fleiri aðila. Það er von okkar að hátíðin festi sig í sessi sem árlegur viðburður á Norðausturlandi, tileinkaður fuglaskoðun og samspili manns og náttúru við Norður-Atlantshaf. Hún höfðar ekki síst til þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref í fuglaskoðun eða jafnvel ekki komnir á stað. Fuglaskoðun er fyrir alla.
 

Viðburðurinn: Máfahátíð á Húsavík

Silkitoppur og skógarþröstur. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 27. – 30. janúar

Garðfuglahelgin 2017 er alveg að bresta á. Athugendur velja hvaða dag þeir fylgjast með garðfuglunum eftir veðri og aðstæðum. Þátttakendur skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og þá er miðað við mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Talningin miðar við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Ef fuglunum er ekki gefið reglulega þá er gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Epli eru vinsæl hjá mörgum fuglum og auðvelt að koma þeim fyrir með því að skera þau í tvennt og festa á trjágrein.

 

Hér er viðburðurinn: Garðfuglahelgin 2017

Hér er viðburðurinn á Facebook: Garðfuglahelgin 2017 

Krumminn fugl viskunnar

Kvikmyndasýning

Í samstarfi við Náttúrufræðistofu Kópavogs verður kvikmyndin Krumminn, fugl viskunnar eftir Pál Steingrímsson sýnd í fjölnotasal á 1. hæð Náttúrufræðistofu/Bókasafns Kópavogs laugardaginn 14. janúar kl. 13:00.

Sýningin er í samstarfi við Fuglavernd og til minningar um Pál sem lést nýverið en eftir hann liggja margar forvitnilegar kvikmyndir um dýralíf á Íslandi. Þann 8. apríl verður myndin Flug spóans sýnd.

Sýningarnar eru liður í fjölskyldustundum Menningarhúsanna í Kópavogi sem haldnar eru á hverjum laugardegi.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Viðburðurinn á vef Kópavogsbæjar

Viðburðurinn á Facebook

Hólmfríður Arnardóttir kynnir Fuglavernd

Kynning Fuglaverndar á Grund

Fimmtudaginn 8. desember heimsóttu starfsmenn Fuglaverndar Dvalarheimilið Grund og kynntu félagsstarfið.

Umsjónarmaður morgunstundarinnar á Grund, Pétur Þorsteinsson hafði samband við félagið og óskaði eftir kynningunni og var okkur ljúft og skylt að verða við þeirri bón.

Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar flutti erindi um stofnun og starfsemi Fuglaverndar og að því loknu sköpuðust umræður um fugla, vernd og fóðrun garðfugla. Um 30 manns hlýddu á erindið sem vakti mikla ánægju.