Innra Hvanngil í Njarðvík. Ljósmynd: Ólafur Karl Nilsen

Ágrip

Fuglalíf var rannsakað í Njarðvík á Borgarfirði Eystra sumarið 2018. Tveir leiðangrar á vegum Fuglaverndar sóttu svæðið heim, fyrst í síðari hluta maí og síðan í byrjun ágúst. Skráðar voru 35 tegundir fugla í Njarðvíkurlandi og þar af voru 26 tegundir sem verpa á landareigninni. Fuglalíf í landi Njarðvíkur er frekar fábreytt en landið er víðfeðmt eða um 47 ferkílómetrar. Mófuglavarp er mjög strjált, samanlagður þéttleiki aðeins 40,7 pör á ferkílómetra. Einkennisfuglar eru hrossagaukur, skógarþröstur og þúfutittlingur. Meira fuglalíf er við sjóinn og einkennisfugl þar er fýll, sem er algengur og útbreiddur varpfugl norðan megin Njarðvíkur og eins í Njarðvíkurskriðum sunnan megin víkurinnar. Af öðrum sjófuglum er helst að nefna æðarfugl. Æðarfuglar verpa lítið sem ekkert á svæðinu en sækja síðsumars á Njarðvík til að fella flugfjaðrir og 1500 æðarfuglar felldu á víkinni 2018. Lítil umferð farfugla er um Njarðvík vor og síðsumar.

Tólf tegundir á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir fugla verpa í landi Njarðvíkur. Njarðvík nær því ekki að flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Ætlunin er að halda áfram rannsóknum á fuglalífi Njarðvíkur og sumarið 2019, m.a. með því að gaumgæfa fyrirliggjandi gögn um fuglafánuna (mest dagbækur Magnúsar Þorsteinssonar) og með vettvangsrannsóknum.

Inngangur

Magnús Þorsteinsson bóndi í Höfn á Borgarfirði Eystra fæddist 1. ágúst 1936 og lést 7. september 2017. Magnús arfleiddi Fuglavernd að hlut sínum í Hafnarhólma og Njarðvíkurlandi. Þetta er ein mesta rausnargjöf sem félagið hefur fengið. Njarðvík er landmikil jörð og Hafnarhólmi er þekktur fyrir
auðugt fuglalíf. Mikil ábyrgð fylgir þessu nýja hlutverki Fuglaverndar sem umsjónaraðila lands og mikilvægt að vel takist til. Ætlun Fuglaverndar er að náttúruvernd, vöktun lífríkis og vettvangsfræðsla til almennings um gangverk náttúrunnar verði ráðandi þættir í nýtingu þessa svæðis til lengri tíma
litið. Fyrsta skrefið í þeirri viðleitni er að kortleggja þau náttúrugæði sem svæðið býður uppá og fyrsti áfangi í þeirri vinnu er fuglafánan. Fuglavernd stóð fyrir leiðöngrum í maí og ágúst austur á Borgarfjörð til að gera úttekt á fuglalífi Njarðvíkurlands, og reyna að svara þeim spurningum hvaða tegundir verpa á svæðunum og í hve miklu magni. Fuglavernd fékk styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í þetta verkefni. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum rannsókna 2018.

Aðferðir

Farið var í tvær vettvangsferðir 2018. Fyrri ferðin var frá 18. til 22. maí og síðan 4. til 8. ágúst. Þátttakendur í fyrri ferðinni voru Ólafur K. Nielsen, Ólafur Einarsson og Iris Nadeau og í seinni ferðinni Ólafur K. Nielsen og Björg Þorleifsdóttir. Auk þess að huga að fuglum þá ræddu leiðangursmenn við
heimafólk og skráðu niður upplýsingar um fugla- og dýralíf hjá staðkunnugum.

Almenn úttekt á fuglalífi

Veður til fuglaathugana í maí-leiðangrinum var mjög óhagstætt, mjög hvasst suma daga og rigning með köflum.  Þann 19. maí var fundað með Jóni Þórðarsyni, sveitarstjóra, Andrési Hjaltasyni, bónda á Njarðvík 1, og Helgu Erlu Erlendsdóttur, umsjónarkonu Hafnarhólma. Foráttuveður var síðdegis. Snemma morguns þann 20. maí var farið til mófuglatalninga í Njarðvík en mjög hvasst var, 15-20 m/sek í hviðum, og því hætt við talningar en gengið fram á Urðardal og farið um Njarðvík og hugað að fuglum. Fundað með Jakobi Sigurðssyni bónda í Hlíðartúni. Mjög hvasst fram á nótt. Snemma morguns þann 21. maí var haldið til mófuglatalninga í Njarðvík og dvalið við það allan daginn. Töldum fugla á 27 sniðum. Þann 22. maí var
pakkað saman en fundað með Karli Sveinssyni, Bakkagerði, áður en haldið var frá Borgarfirði um kl. 12:00.

Veður til fuglaathugana í ágúst-leiðangrinum var líka mjög óhagstætt, rok og mikil úrkoma. Komið var á Borgarfjörð að kveldi 4. ágúst. Þann 5. ágúst var gengið frá Njarðvíkurbæjum og út með víkinni að norðan og alla leið að Skjaldarfjalli skammt sunnan við Brimnes, rigning síðdegis. Þann 6. ágúst var
farið að Unaósi og gengið út að Krosshöfða, rigning allan daginn. Þann 7. ágúst hellirigndi meira og minna allan daginn. Árdegis þann 8. var farið frá Borgarfirði og enn rigndi!

Njarðvíkurland er um 27 ferkílómetrar. Mófuglatalningarnar spönnuðu láglendið í Njarðvík en fjöllin beggja vegna víkurinnar eru ókönnuð svo og mestur hluti strandlengjunnar norðan víkurinnar.

Mófuglatalning

Mófuglar voru taldir á 27 sniðum þann 21. maí. Sniðin voru samtals 13,24 km að lengd (meðallengd 0,49 km, spönn 0,20-0,94). Þau voru öll þvert á hæðarlínur og náðu frá Fjarðará og upp í hlíðar sitt hvoru megin dalsins. Sniðin náðu hæst upp í um það bil 150 m hæð yfir sjó. Handahófskerfi var notað
til að staðsetja sniðin. Til að finna upphafs- og lokapunkt og til halda sig á sniðlínunni voru notuð gpsstaðsetningartæki. Í talningu voru allir mófuglar, sem sáust eða heyrðist í, skráðir sem og atferli þeirra. Fuglum var raðað á 5 fjarlægðarbil hornrétt út frá sniðlínu og ytri mörkin fyrir hvert bil voru 40
m, 80 m, 120 m, 160 m, 200 m og 240 m. Talningamenn voru með fjarlægðarmæla og það auðveldaði mönnum að raða athugunum á fjarlægðarbil.

Unnið var úr niðurstöðum talninga í forritinu Distance (sjá: http://www.ruwpa.stand.ac.uk/distance/). Við úrvinnslu voru eingöngu teknar með athuganir þar sem viðkomandi fugl sýndi glögg merki um að hann væri á óðali. Þetta var atferli líkt og söngur og varnaðarhljóð. Útreikningar á þéttleika voru miðaðir við eitt og sama sýnileikafallið fyrir allar tegundir. Fimm líkön voru notuð til að meta sýnaleikafallið og til að velja á milli þeirra var notað svokallað AIC viðmið. Við útreikninga var athugunum utan 200 m frá sniðlínu sleppt. Um aðferðina við sniðtalningar og úrvinnslu gagna er annars vísað í Buckland 20011 til nánari upplýsingar.

Fuglafána Njarðvíkur

Hér verða teknir fyrir þeir fuglar sem sáust í athugunum 2018 sem og upplýsingar um fugla frá heimildarmönnum sem eru Andrés Hjaltason (AH), Njarðvík 1, og Jakob Sigurðsson (JS), Hlíðartúni. Fyrst er tegundin nefnd, síðan staða hennar á svæðinu og svo athuganir frá 2018 og/eða upplýsingar
frá heimildarmönnum.

Eftirfarandi hugtök eru notuð um stöðu einstakra tegunda: varpfugl, umferðafugl, gestur og flækingur. „Varpfugl“ telst sú tegund sem örugglega hefur orpið í Njarðvíkurlandi, „umferðafugl“ er tegund sem kemur við á svæðinu vor og haust á leið til og frá varpheimkynnum sínum, „gestur“ er tegund sem dvelur langdvölum en varp ekki þekkt, „flækingur“ er sú tegund sem endrum og eins slæðist á svæðið.

Tenglar á fuglategundum eru yfir á Válista fugla sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman.

Fýll (Fulmarus glacialis) er algengur varpfugl á svæðinu og sést þar líklega á öllum árstímum nema ekki yfir háveturinn. Fýlar verpa í Njarðvíkurskriðum og í bökkum og klettum frá Háska norðan megin í Njarðvík og alla leið að Krosshöfða nærri Unaósi. Fýlsvarp á þessu svæði er mest í Gripdeild (AH). Fýlsvarpið frá Unaósi að Skálanesi telur um 6900 varppör.2 Fýlsvarpið í Njarðvíkurskriðum var skannað frá vegi 19.5.2018. Þetta er ekki mikið varp og í mesta lagi tugir para sem sáust í fjallinu bæði ofan og neðan vegar. Frá Njarðvíkurskriðum og horft norður yfir víkina sáust fýlar í varpi þann
19.5.2018 í Háska og áfram austur og norður með í átt að Brimnesi, frekar strjált varp að sjá. Frá Skálanesi og að Brimnesi sást strjálingur af fýl í öllum klettum.

Flórgoði (Podiceps auritus) er líklega flækingur í Njarðvík. Einn flórgoði var með hávellum við ósa Njarðvíkurár þann 19.5.2018.

Dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) er gestur á svæðinu og dvelur þar á sjónum líklega árið um kring. Tveir ungir dílaskarfar sátu í skeri undir Njarðvíkurskriðum 19.5.2018.

Álft (Cygnus cygnus) hefur orpið í mýrinni við Göngudalsá (AH). Tvær álftir voru á sjónum innarlega á víkinni 5.8.2018, líklega fellifuglar.
Heiðagæs (Anser brachyrhynchus) er líklega umferðafugl í Njarðvík. Heiðagæsapar sást á flugi uppdalinn þann 21.5.2018.

tafla 1, þéttleiki mófuglar

Tegund Þéttleiki (varppör á km2) 95% öryggismörk Stofnstærð (varppör)
95% öryggismörk
Rjúpa 0,6 0,2-2,1 4 1-16
Heiðlóa 2,3 1,0-5,3 17 7-40
Hrossagaukur 19,0 14,3-25,3 35 18-66
Jaðrakan 0,6 0,2-2,2 4 1-16
Spói 0,3 0,05-12,0 2 0-12
Þúfutittlingur 4,6 2,4-8,8 35 18-66
Skógarþröstur 12,4 8,8-17,4 93 66-131
Samtals 40,7 32,6-50,8 305 244-381

Stokkönd (Anas platyrhynchos) er líklega árviss varpfugl í Njarðvík og dvelur þar árið um kring. Þann 21.5.2018 sást stokkandapar við Mógil og annað niður við bæina.

Urtönd (Anas crecca) er líklega varpfugl í Njarðvík og sást kolla þann 5.8.2018 á flugi við bæina.

 

Æðarfugl
Æðarfugl. Ljósmynd: SindriSkulason

Æður (Somateria mollissima) er líklega strjáll varpfugl í Njarðvík en algengur gestur og dvelur þar á sjónum árið um kring. Æðarfuglar sækja langt upp með Njarðvíkurá (JS). Æður verpur stöku sinnum á Skálanesi (AH). Þann 19.5.2018 sást æðarbliki á Njarðvíkurá og par sást fljúga upp með ánni, þetta
eru væntanlega varpfuglar á dalnum ofan við bæina. Þann 5.8.2018 sáust um 20 kollur með unga á Njarðvík, 400 fellifuglar (mest blikar) voru innarlega á víkinni og út við Skálanes voru um 1000 fellifuglar (mest blikar) og um 100 fellifuglar og 1 kolla með unga voru á sjónum á milli Skjaldarfjalls og Brimness.

Hávella (Clangula hyemalis) árviss gestur á Njarðvík og dvelur þar líka árið um kring. Þann 19.5.2018 sáust 25 hávellur á sjónum við ós Njarðvíkurárinnar. Fáeinar hávellur sáust á s.st. 5.8.2018. Straumönd (Histrionicus histrionicus) er árviss gestur á svæðinu og að öllum líkindum varpfugl við Njarðvíkurá. Fimm steggir voru sjónum undir Njarðvíkurskriðum 19.5.2018 og sama dag tvö pör og steggur neðst á Njarðvíkurá.

Toppönd (Mergus serrator) er árviss gestur á svæðinu og sést líklega á öllum árstímum. Þann 5.8.2018 voru 10 fellifuglar innarlega á víkinni.

Rjúpa (Lagopus muta) er árviss en strjáll varpfugl í Njarðvík og dvelur þar árið um kring og oft koma hópar á haustin og til dæmis er gott um fugl í Urðardal og Dyrfjalladal (AH). Þéttleiki óðalskarra á talningasvæðinu í Njarðvík var 0,6 karrar á ferkílómetra og áætluð stofnstærð á dalnum uppaf víkinni
var 4 pör (1. tafla). Þetta er örugglega vanmat því í gönguferð á Urðardal þann 20.5.2018 sáust allavega þrír óðalskarrar þar sem urðarbingirnir eru ofarlega á dalnum. Urðardalur var reyndar utan við mófuglatalningasvæðið. Einnig sást karri í skógræktargirðingu á milli Hvanngilja 19.5.2018.

Tjaldur (Haematopus ostralegus) er árviss varpfugl á svæðinu og dvelur þar frá vori og fram á haust. Þann 19.5.2018 sást tjaldur með óðalsatferli við ósa Njarðvíkurár. Hefur orpið í túnum (JS) og 1 hreiðurlegur tjaldur sást við tún hjá Njarðvíkuránni 21.5.2018. Þann 5.8.2018 sáust 10 tjaldar í sandfjörunni fyrir botni víkurinnar.

Heiðlóa (Pluvialis apricaria) er árviss og útbreiddur varpfugl í Njarðvíkurlandi og dvelur þar frá vori og fram á haust. Þéttleiki varpfugla á talningasvæðinu í Njarðvík var 2,3 pör á ferkílómetra og áætluð stofnstærð á dalnum uppaf víkinni var 17 pör (1. tafla).

Sandóa (Charadrius hiaticula) er árviss varpfugl í Njarðvík og líklega einnig umferðafugl og sést frá vori fram á haust. Þann 19.5.2018 var 1 sandlóa með óðalsatferli við ósa Njarðvíkurár. Þann 5.8.2018 voru 5 sandlóur í fjörunni fyrir botni víkurinnar og m.a. hálffleygur ungi.

Hrossagaukur (Gallinago gallinago) er árviss og algengur varpfugl í Njarðvíkurlandi og dvelur þar frá vori og fram á haust. Hrossagaukur var algengast mófuglinn á talningasvæðinu í Njarðvík og metinn þéttleiki var 19 pör á ferkílómetra og stofnstærð á dalnum 143 pör (1. tafla).

Jaðrakan (Limosa limosa) er nýlegur landnemi í Njarðvík (JS) og nú árviss varpfugl, dvelur frá vori og fram á haust. Þéttleiki varpfugla á talningasvæðinu í Njarðvík var 0,6 pör á ferkílómetra og stofnstærð á dalnum 4 pör (1. tafla).

Spói er sjaldgæfur varpfugl í Njarðvík. Njarðvík, 21.5.2018. Ljósmynd: ÓKN.

Spói (Numenius phaeopus) árviss en strjáll varpfugl, sést frá vori og fram á haust (1. mynd). Þéttleiki varpfugla á talningasvæðinu í Njarðvík var 0,3 pör á ferkílómetra og áætluð stofnstærð á dalnum var 2 pör. Spóar hafa orpið í túnum við bæina (JS) og þar sáust 3-5 pör þann 21.5.2018.

Stelkur (Tringa totanus) er árviss en strjáll varpfugl og sést frá vori og fram á haust. Þéttleiki á talningasvæðinu í Njarðvík var 0,9 pör á ferkílómetra og stofnstærð á dalnum var 6 pör.

Rauðbrystingur (Calidris canutus) er umferðafugl og líklega árviss fjörufugl í Njarðvík um vor og síðsumar. Um 100 rauðbrystingar sátu í skeri undir Njarðvíkurskriðum 19.5.2018.

Sanderla (Calidris alba) er umferðafugl og líklega árviss fjörufugl í Njarðvík um vor og síðsumar. Þann 5.8.2018 voru 20 sanderlur í fjörunni fyrir botni víkurinnar.

Tildra (Arenaria interpres) er umferðafugl og líklega árviss fjörufugl í Njarðvík um vor og síðsumar. Tvær tildrur sáust í skeri undir Njarðvíkurskriðum þann 19.5.2018.

Svartbakur (Larus marinus) er árviss varpfugl og dvelur líklega allt árið í Njarðvík. Hann varp innan um silfurmáfa í Gripdeild en það varp er nú horfið (AH). Svartbakur, varplegur, var innan um silfurmáfa við Skálanes 5.8.2018.

Silfurmáfur (Larus argentatus) er árviss varpfugl og dvelur líklega allt árið í Njarðvík. Mikið silfurmáfsvarp var áður í Gripdeild en nú að mestu horfið (AH). Einn lá á hreiðri neðan vegar innan við Njarðvíkurskriður þann 19.5.2018. Dreift silfurmáfsvarp er með bökkunum norðan víkur og þar sáust
5 fullorðnir fuglar 5.8. sem létu varplega. Utar, við Skálanes, voru um 30 silfurmáfar og m.a. nýfleygir ungar. Fáeinir silfurmáfar sáust í bjargi á milli Skjaldarfjalls og Brimness 5.8.2018.

Rita (Rissa tridactyla) er árviss varpfugl í Stapa undir Skjaldarfjalli norðan við Skálanes og einnig í Mávatorfum vestan við Gripdeild (AH).

Kjói (Stercorarius parasiticus) er árviss varpfugl og dvelur í Njarðvík frá vori og fram á haust. Þann 20.5.2018 sást ljós kjói í mýrinni neðst á Urðardal.

Kría (Sterna paradisaea) er árviss varpfugl í Njarðvík og dvelur þar yfir vor og sumar. Þann 19.5.2018 sáust um 50 kríur á eyri rétt ofan við brúna yfir Njarðvíkurá hjá bæjunum, hluti fuglanna hélt til inná afgirtu svæði þar sem geymdar voru heyrúllur. Kríuvarp er á afgirta svæðinu þar sem heyrúllurnar eru geymdar og eins inn í fjárrétt skammt frá (JS).

Lundi (Fratercula arctica) er líklega varpfugl í urðum rétt sunnan við Brimnes en þar sáust 10-20 fuglar á flugi þann 5.8.2018. Komu einn og einn fljúgandi utan af sjó og flugu að landi. Þetta var nokkru norðar en ég komst. Ég sá fuglana hverfa fyrir klettahorn en sá þá ekki lenda. Færið var það langt að ekki var hægt að greina hvort fuglarnir væru að bera síli eða ekki. Geri ráð fyrir að þeir hafi lent þar sem þeir birtust ekki aftur eða þá aðeins eftir drykklanga stund. Enga fugla var að sjá á sjónum undir.

Teista (Cepphus grylle) er árviss varpfugl í Njarðvík og dvelur þar á sjónum líklega árið um kring. Teistuvarp er í Njarðvíkurskriðum neðan vegar og þann 19.5.2018 sáum við tvo fugla á sjónum og þann þriðja fljúga inn í klettaglufu. Teista verpur dreift með sjónum en mest á Afrétt (AH).

 

Hrafn Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hrafn (Corvus corax) er árviss varpfugl í Njarðvík og dvelur þar allt árið. Hrafnar hafa orpið í Innra Hvanngili (JS). Einn sást í ætisleit við Mógil 21.5.2018. Hrafnar hafa einnig orpið í Stekkjargili ofan við Njarðvík 1 og í klettum ofan við Skálanes. Hrafnapar með fleyga unga var í klettunum ofan við
Skálanes þann 5.8.2018.

Þúfutittlingur (Anthus pratensis) er árviss og algengur varpfugl í Njarðvík og dvelur þar frá vori og fram á haust. Varpþéttleiki þúfutittlinga á  talningasvæðinu í Njarðvík var 4,6 pör á ferkílómetra og stofnstærð á talningasvæðinu á dalnum var 35 pör (1. tafla).

Maríuerla (Motacilla alba) er árviss varpfugl í Njarðvík og dvelur þar frá vori fram á haust. Þrjár maríuerlur sáust í klettum neðan vegar í Njarðvíkurskriðum þann 19.5.2018 og voru með óðalsatferli og slógust. Maríuerlur verpa við bæina (AH).

Steindepill (Oenanthe oenanthe) er árviss en strjáll varpfugl í Njarðvík og dvelur þar frá vori og fram á haust. Einir 5 steindeplar sáust á Urðardal 20.5.2018, þessir fuglar voru með óðalsatferli. Í sniðtalningum daginn eftir, 21.5.2018, sáust þrír steindeplar en enginn þeirra var með óðalsatferli og
því ekki tekinn með í útreikningum á varpþéttleika mófugla.

Skógarþröstur (Turdus iliacus) er árviss varpfugl í Njarðvík og dvelur frá vori og fram á haust, hann verpur oft við bæina (AH). Skógarþröstur var næstalgengasti mófuglinn í Njarðvík og þéttleiki varpfugla var 12,4 pör á ferkílómetra og áætluð stofnstærð á dalnum uppaf víkinni var 93 pör (1.
tafla).

Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) er árviss en strjáll varpfugl í Njarðvík og dvelur þar allt árið. Þann 20.5.2018 sáust tveir karlfuglar á Urðardal og annar söng, engir snjótittlingar sáust í mófuglatalningu þann 21.5.

Umræða

Einkenni fuglafánunnar í Njarðvík

Í Njarðvík voru skráðar 35 tegundir fugla, 26 (74%) þessara tegund eru varpfuglar eða líklegir varpfuglar, 4 (11%) tegundir teljast vera gestir, fjórir (11%) umferðafuglar, og ein (3%) tegund telst vera flækingur á svæðinu. Það sem einkennir fánuna við sjóinn er tiltölulega stórt fýlsvarp sem er meira og minna samhangandi frá Stapavík við Unaós og inn undir botn Njarðvíkur norðan megin.

Síðan er líka strjált fýlsvarp sunnan Njarðvíkur í Njarðvíkurskriðum. Stærðin á fýlvarpinu er ekki þekkt en skiptir örugglega hundruðum para og mögulega þúsundum. Af öðrum sjófuglum er æðarfuglinn tíðastur. Mjög lítið æðarvarp er við víkina sjálfa en um og yfir 1500 æðarfuglar fella flugfjaðrir á víkinni síðsumars, flestir þeirra halda til út við Skálanes. Mófuglafánan í Njarðvíkurlandi er frekar rýr og á þeim svæðum sem væntanlega eru best, dalurinn upp af víkurbotninum, mældist samanlagður þéttleiki allra mófugla aðeins 40,7 pör á ferkílómetra og þetta er mjög lágt gildi miðað við hvað þekkist annars staðar. Njarðvík nær því ekki að teljast alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði en það er helst fýllinn sem skorar hátt á þeim kvarða. Þannig telst svæði vera alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði ef 10.000 pör sjófugla eða fleiri verpa þar.3 Fýlsvarpið frá Unaósi að Skálanesi telur um 6900 varppör.4

Af varpfuglum í Njarðvíkurlandi eru 12 tegundir á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands (sjá: https://www.ni.is/midlun/utgafa/valistar/fuglar/valisti-fugla ); lundi sem er tegund í bráðri hættu, fýll, kjói, svartbakur og teista sem eru tegundir í hættu, og hrafn, kría, rita, tjaldur og æðarfugl sem eru tegundir í nokkurri hættu, og rjúpa og stelkur sem eru tegundir í yfirvofandi hættu.

Framhald rannsókna árið 2019

Magnús Þorsteinsson lét eftir sig dagbækur sem spanna áratugi og þar í er ýmis fróðleikur um fugla Hafnarhólma s.s. komu- og brottfarartími lunda á vorin og síðsumars, gangur og stærð æðarvarpsins. Magnús safnaði einnig frá fyrri tíð gögnum um hólmann m.a. um stærð æðarvarpsins. Ætlunin er að
gaumgæfa þessi gögn nú í vetur (2018-2019) og taka saman þá þætti sem hægt er að tengja við vistfræði fuglanna í hólmanum. Vettvangur til að kynna niðurstöður þeirra vinnu verður tímarit Fuglaverndar (Fuglar) og heimasíða félagsins.

Aðeins tókst að fara um láglendi Njarðvíkurlands í maí 2018 og réð þar óhagstætt veður. Eftir er að kanna fjöllin beggja megin dals og eins ströndina frá Skjaldarfjalli norður og vestur að Krosshöfða. Ætlunin er að ganga þessa leið í júlí. Ekki verður reynt að meta þéttleika mófugla heldur að fá gróft
mat á samsetningu fuglafánunnar og útbreiðslu.

 

Heimilidir

1 Buckland, S. T. o.fl. (2001). Introduction to distance sampling: estimating abundance of biological populations, Oxford University Press, USA https://global.oup.com/academic/product/introduction-to-distance-sampling-9780198509271?cc=is&lang=en&#

2 Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun. Fýlsvarp kannað á Íslandi. Bliki 33. https://www.ni.is/midlun/utgafa/bliki

3 Kristinn H. Skarphéðinsson o.fl. 2017. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf

4 Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun. Fýlsvarp kannað á Íslandi. Bliki 33. https://www.ni.is/midlun/utgafa/bliki

 

Áfangaskýrsla

Í desember 2018 var skilað áfangaskýrslu til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis um fuglalíf í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði Eystra. Hér má hlaða skýrslunni niður í heild.

Fuglalíf í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði Eystra – skýrsla til UAR.pdf (1,35 MB)

síðast breytt 12/03/2019