Lóþræll. ©Alex Máni Guðríðarson

Fuglar og votlendi – Viðtal við Aron Alexander Þorvarðarson um niðurstöður meistararitgerðar hans

Ljósmynd: Alex Máni Guðríðarson.

Á Íslandi er að finna fjölmörg ólík votlendi sem eru mismunandi að stærð og sem m.a. standa undir eða styðja við stofna yfir fimmtíu fuglategunda. Þar af ber Ísland stóran hluta af heimsstofni tíu þeirra. Núverandi löggjöf gerir einungis ráð fyrir að þau votlendi sem ná tveimur hekturum að flatarmáli njóti verndar. Þessi löggjöf endurspeglar það viðhorf sem var algengt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að stærri verndarsvæði skili meiri árangri við náttúruvernd en smærri. Þetta viðhorf hefur verið mjög umdeilt og talsvert rannsakað síðustu hálfa öldina. Umræður um það hafa á ensku gengið undir heitinu „the SLOSS debate”, sem stendur fyrir “single large or several small” (eitt stórt eða mörg lítil). Þetta verkefni kannar réttmæti stærðarmarka í núverandi náttúruverndarlögum á Íslandi með því að skoða tengsl þéttleika og fjölbreytni fugla við flatarmál votlendisbletta á suður-, suðvestur- og vesturhluta landsins. Niðurstöðurnar sýna að þéttleiki fugla var hæstur á minnstu votlendisblettunum og minnkaði með aukinni stærð votlendis. Aftur á móti jókst heildarfjöldi fugla og fjölbreytni fuglalífs með aukinni stærð votlendisbletta. Þetta sýnir að minni votlendisblettir, þar á meðal blettir vel undir tveimur hekturum, geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fuglalíf landsins og að horfa verður til samhengis en ekki eingöngu flatarmáls þegar teknar eru ákvarðanir um vernd votlendis. Skilningur á mikilvægi þess að aðgerðir í þágu náttúruverndar hafi bæði jákvæð áhrif líffræðilega fjölbreytni og loftslag eru að aukast og þær niðurstöður sem hér eru kynntar nýtast í þeim tilgangi.

Viðtal við Aron Alexander er að finna á hér á spilara Rásar 1 á 01:27:00 

Lundi. Ljsm. Sindri Skúlason

NACES hafsvæðið verður verndað að öllu leyti, einnig sjávarbotninn.

Fuglavernd hvatti félagasmenn og alla fuglaunnendur að skrifa undir áskorun til OSPAR nefndarinnar um vernda sjávarbotn NACES svæðisins, ekki bara yfirborðið.

OSPAR nefndin hefur ákveðið að svæðið allt þ.m.t. hafsbotninn verði verndað.

Hvers vegna er mikilvægt að vernda sjávarbotninn?

Vistkerfi sjávarbotns eru lykillinn að því að viðhalda fæðukeðjunni sem tegundir á svæðinu reiða sig á. Flæði vatns þýðir að vistkerfi sjávar – frá yfirborði til sjávarbotns – eru í eðli sínu tengd. Hverskyns breytingar á öðrum þessara tveggja þátta (t.d. af völdum mannlegra athafna) hljóta að hafa áhrif á og trufla hinn. Meðal gesta NACES svæðisins eru þekktar fuglategundir eins og lundinn, krían og haftyrðilinn. Íslenskir óðinshanar koma þar við í langferðum sínum milli heimsálfa.
En svæðið er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjófugla. Undir yfirborðinu eru heimkynni mikils líffræðilegs fjölbreytileika sjávarlífvera. Svæðið er mikilvægt fyrir nokkrar tegundir í hættu eins og steypireyði, leðurskjaldböku, klumbudrögu (skjaldbökutegund), túnfiska, beinhákarl, kóralla og djúpsjávarsvampa. Án verndaðs sjávarbotns er þetta athvarf náttúrunnar berskjaldað fyrir hættu af mannavöldum.

Smelltu hér til að sjá hvar í veröldinni  NACES er statt.

 

 

Lundi er ein margra fuglategunda sem að dvelst þar veturlangt.

 

Nánari frétt um verndun  NACES frá botni til yfirborðs á heimasíðu BirdLife International

Fuglaskoðun í Friðlandi í Flóa

Fuglaskoðun

Fimmtudaginn 15. júní  verður boðið upp á fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa og leiðsögumaður að þessu sinni er Anna-María Lind Geirsd, starfsmaður skrifstofu  Fuglaverndar.

Brottför er frá fuglaskoðunarhúsinu við bílastæðið í Friðlandinu

Fuglaskoðunin hefst kl. 18:30

Tímalengd: 1-1,5 klt.

Nauðsynlegur fatnaður: Gúmmístígvél. Hlýr fatnaður.

Mikilvægur útbúnaður: Sjónauki.

Hámarksfjöldi er 20 manns.

Vinsamlega skráið ykkur með tölvupósti til fuglavernd@fuglavernd.is fyrir kl. 12 fimmtudag 15. júní.

Gera má ráð fyrir rúma klukkustund í göngu og stöður til að sjá, heyra og upplifa fuglalífið í Friðlandinu.

Hlýr fatnaður er t.d. tvær peysur undir vindheldum stakki jafnvel lopapeysa eða dúnúlpa. Húfa, vettlngar og ullarsokkar. Það er júní og sumar en getur orðið svalt á kvöldin.

 

Votlendisfuglar

Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalíf Friðlandsins í Flóa er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma, en nærri 25 fuglategundir verpa þar að staðaldri. Einkennisfugl svæðisins er lómurinn.

Friðlandið í Flóa er votlendi sem hafist var handa við að endurheimta árið 1997 í samstarfi Fuglaverndar og sveitarfélagsins Árborgar.

Lesa meira um Friðlandið í Flóa, staðsetningu, gróður, dýralíf og starf Fuglaverndar á svæðinu.

Hér er á ferðinni frábært tækifæri fyrir alla jafnt einstaklinga og  fjölskyldur að upplifa lifandi náttúru.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Vinsamlega skráið ykkur með tölvupósti til fuglavernd@fuglavernd.is fyrir kl. 12 fimmtudag 15. júní.

Alþjóðlegur dagur náttúrunnar 3. mars

Alþjóðlegur dagur náttúrunnar 3. mars

Lógó eða merki Fuglavernar prýðir spói. Ef enginn væri spói á merki félagsins væri það heldur ljótt eins og konan sagði. Þannig er lógó Fuglaverndar í þessari færslu.

Aljóðlegur dagur náttúrunnar er í dag og þá skulum við leiða hugann að því hvernig heimur það væri sem að innihéldi ekki neitt gras, tré, mosa, fugla, spendýr og þar fram eftir götunum.  Hvernig það verður að vera lifa í malbikuðum og steyptum plastheimi þar sem lítið líf annað en mannkyn og veirur þrífast eða bara veirur.  Er það framtíðin?

Örstutt myndband frá BirdLife International í tilefni dagsins. 

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Að beisla vindinn og nýta til rafmagnsframleiðslu getur hljómað vel í eyrum margra, sérstaklega þegar litið er til þeirrar loftslagsváar sem við stöndum frammi fyrir og nauðsyn þess að beina orkuframleiðsla inn á umhverfisvænni brautir. Litið er til grænna lausna í auknum mæli, en er nýting vindorka eins græn og haldið hefur verið á lofti?
Á málþinginu verður sjónum beint sérstaklega að mögulegum áhrifum vindorkuvera á fuglalíf á Íslandi. Farið verður yfir stórtækar hugmyndir um vindmyllugarða og hvernig staðsetning þeirra skarast við mikilvæg fuglasvæði á landi og sjó og gætu haft neikvæð áhrif á sumar fuglategundir. Erum við tilbúin að taka slíka áhættu? Gæti opinber stefnumótun og löggjöf komið í veg fyrir umhverfisslys í þessum málum og þá hvernig?

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Fundarstjóri er Guðrún Pétursdóttir.

16:00-16:05 Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar setur málþingið.

16:05-16:10 Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson.

16:10-16:35 Vindmylluáform og mikilvæg fuglasvæði.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Hér verður farið yfir þau áform um vindmyllugarða sem komið hafa til tals síðustu ár. Rætt verður um skörun við mikilvæg fuglasvæði og mikilvægar farfuglaleiðir og afleiðingar af því að setja upp þessa garða. Fjallað verður um nauðsyn þess að mikilvæg fuglasvæði og jaðarsvæði þeirra verði friðuð fyrir vindorkuvinnslu.

16:35-16:55 Vindorkuver og íslenskir fuglar.
Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands
Gerð verður grein fyrir þeim áhrifum sem vindorkuver geta haft á fuglalíf almennt og hvaða aðferðum er beitt við mat á þeim hér á landi. Fjallað verður um þá þætti, bæði í umhverfi og líkamsgerð fugla, sem hefur áhrif á viðkvæmni þeirra fyrir vindorkuverum og gerð tilraun til að flokka íslenskar fuglategundir með tilliti til þessarar viðkvæmni.

16:55-17:15 White tailed sea eagles and wind turbines
Dr. Oliver Krone, Leibniz Institute for Zoo and Wildlife Research (IZW), Berlin, Germany.
White-tailed sea eagles (WTSE) are among the birds which are frequently killed by wind power plants (WPP). In relation to population size the WTSE is the species mostly affected. In order to reduce the frequency of collisions and to protect the eagles include a minimum distance of a new installed wind turbines to known nests. Research to better understand the reasons for collisions and develop mitigation measures are becoming increasingly important since WPP, as renewable energy sources are planned to increase significantly to match the goals of the government. New legislation will facilitate and accelerate the construction of new WPP in Germany with negative consequences for the eagles.

17:15-17:35 Vindorkuver á sjó við Ísland. Hvað þarf að varast? Ib Krag Petersen, Senior Advisor at Aarhus University.
Greint verður mjög stuttlega frá reynslu annarra þjóða af áhrifum vindmyllugarða á sjó á fuglalíf. Farið verður yfir stöðu þekkingar hérlendis á mikilvægum fuglasvæðum á sjó og skoðað hvaða sjófuglategundir gætu helst orðið fyrir áhrifum af slíkum görðu hér við Ísland og af hverju. Settar verða fram vangaveltur um hvaða þekkingargöt þyrfti helst að bæta og hvort vindmyllugarðar á sjó séu eitthvað sem Íslendingar ættu að skoða yfir höfuð – væru aðrar útfærslur betri? Erindið verður á ensku.

17:35-17:55 Umhverfisáhrif vindorkuvera.
Egill Þórarinsson, sviðsstjóri á sviði umhverfismats.
Í erindinu verður fjallað um möguleg umhverfisáhrif af byggingu og rekstri vindorkuvera. Auk mögulegra áhrifa á fugla getur uppsetning og rekstur vindorkuvera haft áhrif á aðra þætti eins og landslag, fólk, umferð og vatnafar svo eitthvað sé nefnt. Þá geta framkvæmdum við uppbyggingu vindorkuvera fylgt aðrar framkvæmdir sem einnig geta haft áhrif á umhverfið. Greint verður frá því hvað framkvæmdir við vindorkuver fela í sér og hvernig vindorkuver geta haft áhrif á hina ýmsu umhverfisþætti.

17:55-18:10 Áætlanir og stefna um vindorkuver á Íslandi.
Skúli Skúlason, prófessor Háskólanum á Hólum og Náttúruminjasafni Íslands
Rætt verður um lagaramma, áætlanir og stefnu stjórnvalda um vindmyllur og umhverfisáhrif þeirra. Sérstök áhersla verður á hlutverk, vinnu og stöðu Áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun) og hvernig haga megi vinnubrögðum á opinberum vettvangi til að vernda fugla og aðra náttúru fyrir neikvæðum áhrifum framkvæmda af þessu tagi.

18:10 -18:40 Pallborðsumræður í ráðstefnulok sem Guðrún Pétursdóttir stjórnar.

18:40 Fundarstjóri slítur ráðstefnunni

Léttar veitingar í ráðstefnulok

Allir velkomnir á meðan að húsrúm leyfir og enginn er aðgangseyrir.

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Grásleppuveiðar og fuglameðafli – leitin að lausnum

Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.

Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.

Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.

Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.

Hávelllu kerling glöð í bragði. Ljsm Sveinn Jónsson

Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.

Augnbauja vegna fuglameðafla tilraun
The looming-eyes buoy
Augnbauja – tilraun til varnar fuglameðafla

Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.

Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.

Dýradagurinn 2019

Vilt þú vekja athygli á umverfismálum á skemmtilegan og skapandi hátt? Þá er dýradagurinn fyrir þig!

Dýradagurinn er viðburður þar sem ungu fólki gefst tækifæri á að vekja athygli á umhverfismálum með kröftugri og litríkri skrúðgöngu.  Viðburðurinn er settur upp sem blanda af umhverfisfræðslu og skapandi vinnu með börnum og ungu fólki. Þátttakendur skapa búninga úr endurnýttum efnivið og ganga svo í skrúðgöngu. Þema göngunnar er málefni hafsins, sem endurspeglast í grímu-og búningum. Málefni hafsins eiga m.a. við um vanda eins og plastmengun í hafi, hnignun lífbreytileika, súrnun sjávar og dýr á válista. Skrúðgangan sameinar þannig umhverfismál og myndlist á einstakan hátt sem skapar jákvæð, uppbyggileg og sjónræn áhrif.

Dýradagurinn er byggður á hugmynd frá Roots & Shoots samtökum Jane Goodall í Taiwan og Argentínu sem kallast „Animal Parade“.

Dýradagurinn verður haldinn í fyrsta skipti á Íslandi 22. maí sem er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni.  Gengið verður í skrúðgöngu frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn þar sem skipulögð dagskrá tekur við.

Opnir viðburðir í aðdraganda Dýradagsins:
Þessir viðburðir eru opnir öllum almenningi og er ætlað að vekja athygli á Dýradeginum, Jane Goodall, málefnum hafsins og stuðla að skapandi vinnu fyrir þátttakendur

  •  14. apríl 2019. Skapandi búninga- og grímusmiðja sem undirbúningur fyrir Dýradaginn í Gerðubergi á Barnamenningarhátíð.
  • 11.-12. maí 2019. Skapandi búninga- og grímusmiðja sem undirbúningur fyrir Dýradaginn á Umhverfishátíð Norræna hússins.

 

Dagskrá Dýradagsins 22. maí

14:00-14:30 Nemendur klæða sig í búninga og safnast saman á skólalóð Laugarnesskóla

14:30-15:00 Gengið í skrúðgöngu inn í Grasagarðinn (Reykjavegi verður lokað tímabundið)
15:00-15:30 Dagskrá í Grasagarðinum, stutt ávörp, hugvekja frá nemendum og skemmtun.

Samstarfsaðilar í verkefninu eru Landvernd, Fuglavernd, Myndlistaskóli Reykjavíkur, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Norræna húsið og Reykjavíkurborg (þar á meðal Grasagarðurinn, Fjölskyldu og húsdýragarðurinn og Gerðuberg ásamt Barnamenningarhátíð).

Teista ©Daníel Bergmann

Hagsmunagæsla

Fuglavernd gætir hagsmuna náttúruverndar á opinberum vettvangi, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við önnur félagasamtök á sviði umhverfis- og náttúruverndar.  Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar hefur verið tengiliður félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndar við Umhverfisráðuneyti.

Undir Verkefnin>Hagsmunagæsla má lesa um alla þá snertifleti sem eru við opinbera aðila, í starfshópum, nefndum, ráðum og um athugasemdir sem Fuglavernd sendir frá sér m.a. vegna skipulagsmála.

18. 01.2018 var skipaður fulltrúi frálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverndar í starfshóp um lagabreytingar 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Árni Finnsson var skipaður.

21. 11.2017 var skipaður fulltrúi frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverdar í starfshóp um bætt umhverfi endurvinnslu, á vegum umhverfisráðherra. Starfhópurinn skal skila tillögum fyrir 1. júní 2018. Hildur Hreinsdóttir var skipuð.

 

Stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum – opinn fundur

Fulltrúar Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Starfandi umhverfisráðherra og tveir fyrrverandi umhverfisráðherrar voru í hópnum.

Mánudagskvöldið 16. október héldu Fuglavernd, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands opinn fund í Norræna húsinu um stefnu stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum.

Fundinum var streypt á vef Norræna hússins og á samfélagsmiðlum náttúruverndarsamtakanna. Í umræðu voru notuð #umhverfismál og #kosningar2017.

Öllum framboðum bauðst að taka þátt í fundinum, en ekki komu fulltrúar frá Alþýðufylkingunni,  Dögun, Flokki fólksins eða Miðflokknum.

Á fundinum í Norræna húsinu var stóriðjustefnan endanlega slegin af. Viðreisn, Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og VG, allir sammála um að stóriðjan hefði sungið sitt síðasta. Flestir flokkar voru lýstu sig hlynnta stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Allir voru jákvæðir fyrir stofnun þjóðgarðs.

Hér má horfa á upptöku af fundinum frá því á mánudagskvöld.

 

Umhverfisstefna stjórnmálaflokkanna

Opinn fundur um umhverfisstefnu stjórnmálaflokkanna.
Hvar: Norræna húsinu við Sæmundargötu, 101 Reykjavík
Hvenær: Mánudag 16. október kl. 20:00

Fuglavernd, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands efna til opins fundar mánudaginn 16. október um stefnu stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum.
Fundurinn verður haldinn í Norræna húsinu og hefst kl. 20.

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna verða spurðir um stefnu þeirra varðandi tvö meginmál:

  1. Stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands, hver er stefna framboðsins?
  2. Hvernig skal vernda lífríki hafsins – hér heima og á alþjóðavettvangi – gegn mengun, súrnun, og öðrum skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga?

Að kynningum loknum munu fundargestir fá tækifæri til að spyrja fulltrúa stjórnmálaflokkanna spurninga úr sal um stefnu þeirra í umhverfis- og náttúruverndarmálum.