geirfuglinn er útdauður

Áskorun: Neyðarástand í loftslagsmálum

Þann 26. ágúst 2019 sendu forsvarsmenn nokkura náttúruverndarsamtaka bréf til forsætisráðherra, þar sem skorað var á hana að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Bréfið er svohljóðandi:

Kæra Katrín!
Bretland lýsti nýlega yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og því vekur það furðu að ekkert Norðurlandanna hefur gert slíkt hið sama. Gögnin eru skýr, það ríkir neyðarástand og unga kynslóðin okkar grátbiður okkur um að taka ábyrgð. Losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi eykst hratt og er, miðað við höfðatölu, mun meiri en í nágrannalöndum okkar. Þar sem allir norrænu ráðherrarnir koma saman á Íslandi í næstu viku, viljum við hvetja þig til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skuldbinda okkur sem þjóð til að sýna alvöru ábyrgð.

Jafnframt að þú hvetjir hina forsætisráðherrana til að gera slíkt hið sama.

Framtíð okkar allra og komandi kynslóða er í húfi. Þú getur sannarlega haft mikil áhrif.

Með vinsemd og virðingu,

Rakel Garðarsdóttir,
Vakandi

Hólmfriður Arnardóttir,
Fuglavernd

Auður Önnu Magnúsdóttir,
Landvernd

Brynhildur Pétursdóttur,
Neytendasamtökin

Jón Kaldal
IWF

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir,
Samband íslenskra framhaldsskólanema

Eyþór Eðvarðsson,
Votlendissjóður

Jóna Þórey Pétursdóttir
Stúdentaráð Háskóla Íslands

Harpa Júlíusdóttir,
Félag Sameinuðu þjóðanna á Ísland

Heiður Magný Herbertsdóttir,
Plastlaus september

Tómas Guðbjartsson,
Félag íslenskra fjallalækna

Stengrímur Þór Ágústsson,
JCI Reykjavík

Pétur Halldórsson,
Ungir umhverfissinnar

Árni Finnsson,
Náttúruverndarsamtök Íslands

Þorbjörg Sandra Bakke,
Foreldrar fyrir framtíðina

Bára Hólmgeirsdóttir,
Aftur

 

Bréfið er einnig að finna undir Ályktanir & Umsagnir

Lokað skilti

Skrifstofa lokuð 1. júlí – 15. ágúst

Skrifstofa Fuglaverndar að Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík verður lokuð vegna sumarleyfa frá og með 1. júlí til og með 15. ágúst.
Á þeim tíma verður tölvupóstur eitthvað lesinn, en stopult svarað. Ef erindið er brýnt má reyna að ná sambandi gegnum samfélagsmiðla.

Lokun á einnig við um vefverslun, þ.e. á þessum tíma verða ekki afgreiddar/afhentar pantir sem berast í gegnum vefverslunina.

Ferðasaga: Fuglaskoðun í Portúgal

Fuglakoðun í Portúgal, samvinnuverkefni Fuglaverndar og Portúgalska fuglaverndarfélagsins, SPEA.

Þann 18. apríl 2019 héldu 12 kampakátir Íslendingar af stað í fuglaskoðun til Miðjarðarhafslandsins Portúgal. Ferðin var samvinnuverkefni Fuglaverndar og Portúgalska fuglaverndarfélagsins, SPEA. Portúgalarnir skipulögðu ferðina heimafyrir, meðan Fuglavernd sá um að koma hópnum út.

Tveir leiðsögumenn skiptu með sér leiðsögninni fyrir okkur og voru þeir hinir liprustu og þægilegir í umgengni og vildu allt fyrir hópinn gera. Rui Machado leiðsagði fyrri hlutann og Hugo Sampaio þann síðari. Undirritaður var síðan fararstjóri af hálfu Fuglaverndar.

Framan af var ferðast um suður og suðausturhluta landsins, en síðan mjökuðum við okkur inntil landsins og héldum okkur nærri landamærum Portúgal og Spánar. Að endingu var strikið tekið þvert yfir landið og síðustu dagana skoðuðum við okkur um við austanverða ósa Tejo (Tagus) árinnar, gegnt höfuðborginni Lissabon.

Veður var mjög fjölbreytt, frá slagveðursrigningu og yfir í brakandi blíðu og hita. Um tíma náðu skil norðan úr Dumbshafi suður til Pýreneaskagans og dældu þangað köldu lofti, meðan sömu skil hituðu upp loftið hér heima og var þá hlýrra hér en suður þar. Þær aðstæður vörðu stutt, sem betur fer fyrir okkur.

Menningunni var að einhverju leyti sinnt meðfram fuglaskoðun. Við heimsóttum til dæmis miðaldaþorpið Mértola á bökkum Guadiana árinnar, þar sem áður voru landamæri við Spán og hinn sögufræga bæ Évora, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir að ferðinni lauk formlega, 28. apríl, hélt meirihluti hópsins til þeirrar merku borgar Lissabon og dvaldi þar í tvo daga.

Alls sáust 170 tegundir fugla í ferðinni, að meðtöldum innfluttum fuglum. Að sjálfsögðu sáu ekki allir þátttakendur allar fuglategundirnar. Hér að neðan eru taldar upp þær tegundir sem a.m.k. einn leiðangursmanna sá og skv. reglunum eru ekki taldir með fuglar sem leiðsögumaðurinn sér einn.

 

Einn fallegasti og sérstakasti sérstæðasti fugl fararinnar var bláhrani. Hann verpur aðeins á afmörkuðu svæði í Castro Verde í Portúgal. Ljósm. JÓH.

 

Tígulegur flatnefur í votlendi. Ljósm. Jón Hákonarson.
Við sáum fjöldann allan af hvítstorkum og hreiðrin voru víða, bæði á húsþökum, í trjám og á rafmagnsstaurum eða –möstrum. Ljósm. Jón Hákonarson.

Þess má geta að hvítstorkurinn er ein aðalsöguhetjan í árvekniátakið BirdLife sem ber yfirskriftina #FlightForSurvival. Sjá nánar á: https://flightforsurvival.org/

Korkeik skoðuð í Barranco do Velho Miklir áhugamenn og sérfræðingar um gróður, sérstaklega trjágróður, voru með í ferðinni. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Steinrósarunnar Brown Eyed Rockrose. (Cistus Ladanifer) uxu víða og þöktu sums staðar stór svæði. Það er einkennisjurt Castro Verde.
Svipast um eftir ránfuglum af hæð. Ljósm.: Kristinn Vilhelmsson.
Fuglaskoðun við ána Vascão (Ribeira do Vascão) – Næturgali. Næturgalinn söng víða hástöfum, þar sem við komum. Hann sýndi sig þó venjulega ekki en þessi fugl var sannarlega undantekning. Ljósm.: Kristinn Vilhelmsson.
Við gamla brennisteinsnámu í Parque Natural do Vale do Guadiana. Þar mátti meðal annars sjá Picus sharpei (Iberian Green Woodpecker), sem enn hefur ekki hlotið íslenskt heiti, enda nýbúið að splitta henni úr grænspætu. Laufglói lét í sér heyra og við sáum jörfadepil, auk fleiri fugla. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Litskrúðugt „landslag“ í koparnámunum. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Fuglaskoðun í árgljúfri Guadiana árinnar við Pulo do Loba. Þarna mátti m.a. sjá svartstorka og haukerni. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Tígulegur gjóður á eyju í Tejo. Tejo (frbr. Tesou) er portúgalska heitið yfir ána, sem enskumælandi nefna Tagus. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Sigling á Tejo. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Plöntuskoðun í Caldeirão hæðunum. Ljósm. JÓH.
Tyrkjadúfan er algeng í Portúgal. Ljósm. Jón Hákonarson.
Brandönd Rindilþvari Svölugleða
Skeiðönd Nátthegri Völsungur
Gargönd Kúhegri Gæsagammur
Stokkönd Mjallhegri Kuflgammur
Kólfönd Bjarthegri Snákerna
Skutulönd Gráhegri Brúnheiðir
Skúfönd Bognefur Gráheiðir
Sandhæna Flatnefur Músvákur
Kornhæna Svartstorkur Skassörn
Dverggoði Hvítstorkur Gullörn
Toppgoði Flæmingi Skálmaörn
Dílaskarfur Vatnagleða Haukörn
Gjóður Skeggþerna Hálmsöngvari
Kliðfálki Sandspjátra Sefsöngvari
Turnfálki Auðnaspjátra Reyrsöngvari
Förufálki Bjargdúfa Skopsöngvari
Smyrill Holudúfa Busksöngvari
Keldusvín Hringdúfa Hjálmsöngvari
Dílarella Tyrkjadúfa Hettusöngvari
Sefhæna Dílagaukur Limsöngvari
Bláhæna Gaukur Gullkollur
Bleshæna Kattugla Flekkugrípur
Grátrana Múrsvölungur Skottmeisa
Dvergdoðra Fölsvölungur Toppmeisa
Trölldoðra Bláþyrill Blámeisa
Háleggur Býsvelgur Flotmeisa
Bjúgnefja Bláhrani Hnotigða
Tríll Herfugl Garðfeti
Þernutrítill Grænspæta1 Laufglói
Vatnalóa Grænpáfi Steppusvarri
Sandlóa Sunnulævirki Trjásvarri
Strandlóa Sandlævirki Skrækskaði
Heiðlóa Stúflævirki Bláskjór
Grálóa Topplævirki Skjór
Rauðbrystingur Kamblævirki Bjargkorpungur
Veimiltíta Trjálævirki Dvergkráka
Lóuþræll Bakkasvala Svartkráka
Sanderla Bjargsvala Hrafn
Hrossagaukur Landsvala Gljástari
Jaðrakan Brandsvala Skúfmænir
Lappajaðrakan Bæjasvala Hettuvefari
Spói Sandtittlingur Fagurstrildi
Fjöruspói Gulerla Tígurstrildi
Lindastelkur Maríuerla
Lonchura punctulata 2
Flóastelkur Fossbúi Gráspör
Sótstelkur Músarrindill Spánarspör
Stelkur Glóbrystingur Trjáspör
Lyngstelkur Næturgali Steinspör
Tildra Húsaskotta Bókfinka
Hettumáfur Hagaskvetta Gulfinka
Lónamáfur Steindepill Grænfinka
Sílamáfur Jörfadepill Þistilfinka
Klapparmáfur Urðardepill Hampfinka
Kóralmáfur Bláþröstungur Álmtittlingur
Sandþerna Svartþröstur Steintittlingur
Þaraþerna Mistilþröstur Korntittlingur
Dvergþerna Blæsöngvari

1 Grænspætu hefur nú verið skipt upp og ný tegund, Picus sharpei (Iberian Green Woodpecker) orðið til.

2 Þessi innflutta tegund hefur ekki enn hlotið íslenskt heiti, heitir á ensku Scaly-breasted Munia.

 

Fyrir hönd Fuglaverndar: Jóhann Óli Hilmarsson

Mannlegur lundi

Til okkar á skrifstofu Fuglaverndar kom í gærmorgun amerískur ferðamaður. Hann hafði hug á því að eyða deginum í borginni og langaði til að láta gott af sér leiða. Hugmynd hans var að veita fólki tækifæri til að taka mynd af sér með mannlegum lunda og láta fé af hendi rakna til Fuglaverndar.

Síðar um  daginn  kom  hann  aftur  og  færði  Fuglavernd  afraksturinn  og  þessa  skemmtilegu  mynd.  Við  þökkum  að  sjálfsögðu  kærlega  fyrir  stuðninginn.

Dýradagurinn 22. maí

Dýradagurinn 22. maí 2019

Þann 22. maí 2019, á alþjóðlegum degi lífbreytileika, verður litrík skrúðganga barna og ungmenna sem hefur það að markmiði að vekja athygli á umhverfismálum og sérstaklega málefnum hafsins. Gangan hefst kl. 14:30 og gengið verður frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn.  

Skrúðganga og dagskrá

14:00-14:30 Nemendur klæða sig í búninga og safnast saman á skólalóð Laugarnesskóla

14:30-15:00 Gengið í skrúðgöngu inn í Grasagarðinn (götum verður lokað tímabundið)

15:00-15:30 Dagskrá í Grasagarðinum, stutt ávörp, hugvekja frá nemendum og skemmtun.

Dýradagurinn verður haldinn í fyrsta skipti á Íslandi 22. maí 2019 en þessi dagur er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Dýradagurinn er valdeflandi viðburður sem gefur nemendum tækifæri til að læra um og vekja athygli á m.a. loftslagsbreytingum, plastmengun og fjölbreytni lífríkisins. Gengið verður í litríkri skrúðgöngu frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn þar sem skipulögð dagskrá verður. Viðburðurinn er opinn öllum og er liður í 50 ára afmælisdagskrá Landverndar.

Þema göngunnar er málefni hafsins og er viðburðurinn settur upp sem blanda af umhverfisfræðslu og skapandi vinnu með börnum og ungmennum sem m.a. felst í búninga- og grímugerð úr efnivið sem annars væri fleygt.

Úr hugmyndasmiðju Dr. Jane Goodall

Dýradagurinn er byggður á hugmynd frá Roots & Shoots samtökum Jane Goodall í Taiwan og Argentínu sem kallast „Animal Parade“. Jane Goodall sjálf sýnir þessum viðburðum alltaf mikla athygli og stefnir á að vera viðstödd á Dýradeginum á Íslandi vorið 2020.

Samstarfsaðilar í verkefninu eru Landvernd, Reykjavíkurborg, Grasagarður Reykjavíkur, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Fuglavernd, Norræna húsið, Barnamenningarhátíð, Myndlistaskóli Reykjavíkur og Ragnheiður Maísól Sturludóttir, listakona.

Viðburðurinn: Dýradagurinn

Viðburðurinn á Facebook: Dýradagurinn

Fuglaskoðun á Reykjanesi

Laugardaginn 11. maí bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun við Garðskagavita. Tilefnið var Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori, en hans er minns bæði vor og haust. Trausti Gunnarsson, leiðsögumaður og ritari stjórnar Fuglaverndar hélt utan um viðburðinn. Um 15 manns komu til að skoða sjófugla í sól en heldur nöpru veðri að öðru leyti.

Kíkir er gott hjálpartæki við fuglaskoðun. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson.
Fuglaskoðun við Garðskagavita. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson

Kort: Fuglaskoðun á Reykjanesskaga

Fuglaskoðun á Reykjanesi, kort á íslensku eða ensku.

Fuglaskoðun á Reykjanesi er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands, Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness. Kortið er fáanlegt á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Nálgast má eintök af því á skrifstofu Fuglaverndar.

 

Rándýrin í garðinum

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

Kettir veiða helst algenga garðfugla: (smellið á tegundina til að sjá varptíma)

 – skógarþröstur

 – svartþröstur

 – stari

– snjótittlingur

– auðnutittlingur

þúfutittlingur

Rannsóknir

Í Bandaríkjunum árið 2013 hjá The Smithsonian Conservation Biology Institute and the U.S. Fish and Wildlife Service var gerð rannsókn. Þar var talið að útikettir drepi um 2, 4 milljarða fugla á hverju ári og séu þar stærsta dánarorsök af mannavöldum í landinu. Síðan þá hafa svipaðar niðurstöður komið fram í Kanada og í Ástralíu.

Meira um rannsóknirnar:
The impact of free-ranging domestic cats on wildlife of the United States

Estimated Number of Birds Killed by House Cats (Felis catus) in Canada

How many birds are killed by cats in Australia?

Kattarkragar

Þá hafa kattakragar verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kattarkragar eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel.

Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.

Meira má lesa um kattarkraga:
Birds be safe: Can a novel cat collar reduce avian mortality by domestic cats (Felis catus)?

Assessing the effectiveness of the Birdsbesafe® anti-predation collar cover in reducing predation on wildlife by pet cats in Western Australia

Kattarkraga má víða finna í vefverslunum t.d. birdsbesafe.com

Söngur svartþrastarins

Svartþröstur (Turdus merula)er venjulega fremur felugjarn, nema syngjandi karlfuglar á vorin, sem hreykja sér í trjátoppum, á ljósastaurum og húsmænum. Fuglar í makaleit syngja meira en þeir sem eiga maka og eru eingöngu að auglýsa óðal sitt. Frá svartþresti má heyra hvellan, hljómfagran og þunglyndislegan söng, sem og hart og hvellt kallhljóð.

Fuglarnir fara að syngja í lok febrúar, oft löngu fyrir birtingu og sérstaklega í dumbungsveðri og hlýindum. Þeir fyrstu verpa í lok mars, þeir verpa oft yfir sumarið og ófleygir ungar hafa fundist alveg fram í september. Íslenskt veðurfar með umhleypingum á útmánuðum, á eftir að síast inní gen fuglanna, þeir telja sig enn vera á suðlægari slóðum eða í mildara loftslagi. Utan varpstöðva sést hann í görðum, við bæi og í fjörum.

Fjöldi eggja: 3–5
Liggur á: 13–15 daga
Ungatími:13–14 dagar
Stofnstærð:yfir 2000 varppör

Svartþröstur verpur í trjám í görðum og trjálundum, stundum á húsum. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, svipaða eða efnismeiri en skógarþrösturinn. Ungarnir eru ósjálfbjarga, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir eða að verða fleygir. Urptin er 3-5 egg, álegan tekur um tvær vikur og uppvöxtur unga svipaðan tíma. Varptími svartþrasta er langur og verpa þeir nokkrum sinnum yfir sumarið.

Svartþröstur er þjóðarfugl Svía og þar er hann veðurviti.

Svartþrastarkarl. © Jóhann Óli Hilmarsson.
Svartþrastarkvenfugl. © Jóhann Óli Hilmarsson

Heimildir:

Fuglavefurinn – Svartþröstur
Náttúruminjaafn Íslands – fugl mánaðarins – svartþröstur

Akurey friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri Reykjavíkur undirrituðu formlega friðlýsingu Akureyjar á Kollafirði við Eiðsgranda í dag, 3. maí 2019.

Þetta er fyrsta friðlýsing sem Guðmundur Ingi undirritar en nú stendur yfir átak friðlýsinga hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Búsvæðavernd

Akurey er að finna á nýjum vef, www.fuglavernd.is/sjofuglabyggðir en þar hefur Fuglavernd tekið saman upplýsingar um 37 sjófuglabyggðir við Ísland sem eru öll alþjóðlega mikilvæg, oftast vegna fjölda þeirra sjófugla sem reiða sig á þau.

Akurey er lítil, um 6,6 hektarar að stærð, láglend og flöt eins og aðrar eyjar á Kollafirði, hæsti punktur er 10 m.y.s. Eyjan er mjög gróskuleg og stórþýfð og einkennist af lundavarpinu sem þar er. Fjaran er stórgrýtt. Aðal varpfuglinn er lundi, um 20.000 pör í góðum árum, jafnframt verpur eitthvað af æðarfugli, fýl, hettumáfi, sílamáfi, svartabaki, teistu og kríu.

Í Akurey er alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð, því þar verpa yfir 15.000 pör af lunda, um 0.7% af íslenska stofninum. Einnig verpa þar ýmsir sjófuglar í minna mæli, eins og sílamáfuræður og teista.

Á válista fugla Náttúrufræðistofnunar Íslands eru tegundir sem verpa í Akurey flokkaðar; tegund í bráðri hættu (CR): lundi, tegundir í hættu (EN): fýllsvartbakurteista og tegundir í nokkurri hættu (VU): kríaæðarfugl.

Næstu skref

Fuglavernd fagnar þessar friðlýsingu Akureyjar, en fyrst skoraði Fuglavernd á Reykjavíkurborg að friðlýsa Akurey og Lundey með bréfi þann 10. febrúar 2014, eins og sjá má undir /umsagnir.

Vernd mikilvægs búsvæðis tegundar í bráðri útrýmingarhættu er mjög mikilvægt skref, en á borði Umhverfis- og auðlindaráðherra liggur áskorun frá 12. nóvember 2018 um aðgerðir til varnar svartfuglum.

Lóan er komin og fleiri farfuglar

Fyrsta lóan 2019 sást í Stokkseyrarfjöru 28. mars. © Hjördís Davíðsdóttir

Í Stokkseyrarfjöru þann 28. mars náðist mynd af fyrstu lóu vorsins og var það Hjördís Davíðsdóttir sem náði henni. Þetta mun vera sami dagur og lóan kom í fyrra.

Á póstlista fuglaáhugamanna um allt land eru nú daglegar fregnir af farfuglum:

  • 27/3 Sá þó fyrstu grágæsirnar (2) og sílamáfana (2) í dag og yfir 20 fugla hóp af tjaldi sem var greinilega nýkominn. Fyrstu tjaldarnir voru komnir fyrir nokkru síðan. – Jónína Óskars, Fáskrúðsfirði
  • 28/3 11 skógarþrestir taldir í húsagarði hér í dag. Hafa ekki verið í vetur. – Jónína Óskarsdóttir, Fáskrúðsfirði.
  • 29/3 Það sást lóa hér á Stokkseyri í gær og náðist mynd af fuglinum. Tveir jaðrakanar í sumarbúningi á Eyrarbakka með tjöldum. – Jóhann Óli Hilmarsson, Stokkseyri.
  • 30/3 Í Þöll í Hafnarfirði í morgun: Skógarþröstur tyllti sér í grenitopp og söng óburðugt lag. Fyrsti söngur skógarþrastar sem ég heyri í vor. – Erling Ólafsson.
  • 30/3 Ég sá fyrstu urtendurnar í gær hér á Fáskrúðsfirði og síðan fyrstu rauðhöfðaendurnar í dag. – Jónína Óskarsdóttir.
  • 30/3 Ég myndaði í dag blesgæsir og heiðagæsir í Flóanum, nokkrar blesæsirnar voru merktar. Er þetta ekki óvenju snemma fyrir þessar tegundir? – Svanhildur Egilsdóttir.

Það er því næsta víst að vorið er á næsta leiti.