Áskorun til fjárlaganefndar Alþingis um náttúrustofur

Stjórn Fuglaverndar harmar niðurskurð á fé til náttúrustofa. Stjórnin skorar á fjárlaganefnd, að auka framlag til stofanna.

Á stofunum eru unnar þýðingarmiklar grunnrannsóknir á lífríki Íslands. Í því sambandi vill stjórn Fuglaverndar benda á mikilvægt hlutverk stofanna við vöktun stofna bjargfugla og lunda. Stofnar nær allra sjófugla sem verpa á Íslandi hafa átt undir högg að sækja og þeir hafa minnkað á undanförnum árum. Rannsóknir og vöktun eru forsenda þess að skilja hvað ráði þessari fækkun og hvernig tryggja megi vernd þessara fugla. Náttúrustofurnar hafa verið leiðandi við rannsóknir á sjófuglum og mikilvægt að geta þeirra á því sviði verði ekki skert!

Það er óforsvaranlegt, nú þegar Íslendingar eru í fararbroddi í alþjóðlegu loftslagssamstarfi eins og Arctic Circle, að skerða rekstur náttúrustofanna.

Fréttatilkynning var send til fjölmiðla og samrit sent nefndarmönnum fjárlaganefndar Alþingis.

Skilafrestur athugasemda til Skipulagsstofnunar vegna virkjunar í Hverfisfljóti

Hjá Skipulagsstofnun er nú til kynningar frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum Allt að 9,3 MW virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu, Skaftárhreppi.

Allir hafa rétt til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir.  Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 2. nóvember 2017 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti áskipulag@skipulag.is.

Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaptárhreppi eru með síðu á Facebook sem gjarnan má líka við. Þá hefur félagið skrifað bréf til félagsmanna  og tekið saman texta sem gjarnan má styðjast við þegar athugasemdir eru skrifaðar og sendar Skipulagsstofnun.

 

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Athugasemdir við Svartárvirkjun í Bárðardal

Fuglavernd hefur sent Skipulagsstofnun athugasemdir vegna Svartárvirkjunar í Bárðardal. Skilafrestur athugasemda við frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum er mánudaginn 23. október. Athugasemdum má skila á skipulag@skipulag.is eða með bréfi á:

 

Skipulagsstofnun
b.t. Sigurðar Ásbjörnssonar
Borgartúni 7b
105 Reykjavík

 

Athugasemdir Fuglaverndar við frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar í Bárðardal má lesa hér.

Öllum er frjálst að nýta þetta efni til þess að skila inn athugasemdum, hvort sem er í eigin nafni eða annara náttúruverndarsamtaka.

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Verndum Svartá – Skilafrestur 23. október

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Verndarfélag Svartár og Suðurár heldur úti síðu á Facebook, Verndum Svartá, en uppi eru áform um Svartárvírkjun, allt að 9,8 Mw virkjun. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar er nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun.

Skilafrestur athugasemda er 23. október 2017. 

Hægt er að gera athugasemdir og koma ábendingum á framfæri við Skipulagsstofnun með því að senda tölvupóst á netfangið: skipulag@skipulag.is eða senda bréf stílað á:

Skipulagsstofnun
b.t. Sigurðar Ásbjörnssonar
Borgartúni 7b
105 Reykjavík

Athugasemdir

Mikilvægt er að sem flestir skili inn athugasemdum, í eigin nafni og ekki aðeins náttúruverndarsamtök.

Hér neðanmáls er hugmynd að athugasemdum sem öllum er heimilt að styðjast við. Aftan við þær er skeytt greinargerð Árna Einarssonar “Svartá og Suðurá í Bárðardal-Greinargerð”, grein Viðars Hreinssonar “Verndun Svartár/Suðurár” og grein Börre Skodvins “Value of Nature”. Vísað er til þessara greina í athugasemdum.

Í þessum hugmyndum eru teknir fyrir nokkrir þættir af mörgum í matsferlinu. Þeir sem vilja geta tekið ákveðna þætti fyrir eða stuðst við skjalið eins og þeim hentar best yfirhöfuð. En auðvitað með sínum eigin tilbrigðum!

Umhverfisáhrif á virkjað svæði Svartár – Hugmyndir að athugasemdum

Búsvæðavernd og tegundavernd

Tvær meginstoðir í stefnu Fuglaverndar eru búsvæðavernd og tegundavernd. Vernd Svartár í Bárðardal fellur í báða flokkana, sjá Verkefnin> Svartá í Bárðardal.

Húsönd, straumönd, gulönd og fálki eru allt fuglategundir á válista. Húsönd og straumönd njóta sérstakrar verndar Viðauka II skv. Bernarsamningnum og eru ábyrgðartegundir okkar Íslendinga.

Ramsarsamningurinn snýr að verndun votlendis, en votlendi sem og eldhraun sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu njóta sérstakrar verndar laga um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn beri til. Reglugerð 252/1996 kveður á um dvöl manna við hreiður t.d. fálka og röskun þeirra.

Fyrirhugað virkjanasvæði Svartár er innan svæðis sem er í verndarflokki 3. áfanga rammaáætlunar (Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða) en nær út fyrir það svæði ef fyrir valinu verður að plæja niður jarðstreng um 47 km leið yfir heiðar og koma rafmagninu niður í Laxárvirkjun til dreifingar.

 

Fyrirhuguð stækkun friðlands í Þjórsárverum

Fyrirhuguð stækkun Þjórsárvera – skilafrestur umsagna er 3. október 2017

Fuglavernd styður heilshugar og fagnar tillögu að stækkun friðlands í Þjórsárverum. Nú verður loks stigið skrefið til fulls, sem stóð til að stíga sumarið 2013, öll verin eru friðlýst og tenging verður við friðland í Guðlaugstungum norðvestan Hofsjökuls og fyrirhugað friðland í Kerlingarfjöllum suðvestan Hofsjökuls.

Nú verður Eyvafen friðlýst og þá er vonandi búið að slá endanlega út af borðinu allar hugmyndir um frekari lón í verunum (Norðlingaölduveitu), en Kvíslaveitur hafa nú þegar breytt vatnsbúskap veranna umtalsvert. Það hefði vissulega verið gaman, hefði friðlandið teygt sig niður með Þjórsá og Dynkur verið friðlýstur í leiðinni, en hann er einn stærsti, tignarlegasti og fallegasti foss landsins.  En hans tími mun koma.

Sjá frétt á vef UAR: Tillaga að stækkun friðlands Þjórsárvera til kynningar

Frestur til að skila umsögnum og athugasemdum vegna tillögunnar er til 3. október næstkomandi og má senda þær á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

 

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Teista friðuð fyrir skotveiðum

Teista. Ljósmynd: ©Sindri Skúlason

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með reglugerð friðað teistu fyrir skotveiðum. Ákvörðun um friðun er tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnunar.

Teista er grunnsævisfugl sem telst til svartfugla og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu í allmörg síðustu ár.

Í júní sl. barst ráðherra áskorun frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Skotvís og Vistfræðifélags Íslands um að friða teistu fyrir skotveiðum vegna lítillar stofnstærðar hennar hérlendis sem fer minnkandi. Bent er á að tegundin hafi í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og því hafi ekki verið sérstaklega sóst eftir henni.

Friðunin tekur gildi 1. september2017. Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 456/1994, um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, með síðari breytingum.

Fuglavernd fagnar þessari reglugerðarbreytingu en betur má ef duga skal. Í dag, 1. september hefst veiðitími annara svartfuglategunda: Álku, langvíu, stuttnefju, lunda, en veiðar úr þessum stofnum eru áfram löglegar skv. fyrrgreindri reglugerð.

Í býgerð eru fleiri áskoranir á ráðherra, byggðar á skýrslu Starfshóps umhverfisráðherra um verndun og endurreisn svartfuglastofna, Greinargerð og tillögur starfshópsins, en skýrslunni var skilað árið 2011. Starfshópinn skipuðu: Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Menja von Schmalensee, Sigurður Á. Þráinsson, Steinar R. B. Baldursson, Sæunn Marinósdóttir.

Þar segir m.a.:

„hnignun þessara fimm stofna hefði verið veruleg undanfarin 10-15 ár og dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir þannig að þeir þoli veiðar án þess að það gangi frekar á þá. Forsendur fyrir nýtingu þeirra, hvort sem er með skotveiðum eða hlunnindanýtingu, eru þar af leiðandi ekki lengur fyrir hendi. Starfshópurinn telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða þegar í stað til þess að auka verndun þessara tegunda meðan stofnarnir eru á niðurleið og þar til þeir hafa jafnað sig og varp og nýliðun komin í horf sem talist getur eðlilegt. Meirihluti starfshópsins telur nauðsynlegt að stöðva tímabundið veiðar og nýtingu þessara fimm tegunda sem hann fjallaði um. Minnihluti hópsins (fulltrúar Skotvís og Umhverfisstofnunar eftir atvikum) tekur undir nauðsyn þess að friða teistu og lunda tímabundið fyrir veiðum og nýtingu en telur hins vegar að það nægi að draga tímabundið úr veiðum á svartfugli.“

Við fögnum því í dag þeim áfangasigri sem náðst hefur, en höldum áfram ótrauð vegferð fuglaverndar.

Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson

Leyfum náttúrunni að njóta vafans

Fuglavernd fagnar þeim áfangasigri sem fólgin er í úrskurðum Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi sjókvíeldi. Það að vanda skuli til verka og fylgja þeim stjórnsýslureglum og lögum sem í gildi eru, svo ekki sé minnst á alþjóðlegar skuldbindingar er kemur að náttúruvernd er vissulega áfangasigur.

Leyfum náttúrunni að njóta vafans, ágengar framandi tegundir teljast vera önnur alvarlegasta ógnunin við líffræðilegan fjölbreytileika á hverjum stað, á eftir tapi og uppskiptingu búsvæða. Reynsla Norðmanna af opnu sjókvíeldi hefur leitt til þess að hætt er að gefa út leyfi þar í landi, vegna þeirra fjölmörgu vandamála sem ekki hefur fundist lausn á. Þar er e.t.v. komin ástæða þess að nú flykkjast fyrirtækin til Íslands.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendi frá sér úrskurð 6/2017 Háafell Sjókvíeldi þann 20. júní 2017 þar sem því kærumáli var vísað frá. Sama dag úrskurðaði nefndin 5/2017 Háafell Sjókvíeldi og þar var um að ræða sama kærumál en aðrir málsaðilar. Í þeim úrskurði segir:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis fyrir Háafell ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2017, er barst nefndinni 7. s.m., kærir NASF, verndarsjóður villtra laxastofna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Æðarræktarfélag Íslands og Fuglavernd, ásamt nánar tilgreindum aðilum er telja sig eiga hagsmuna að gæta vegna umhverfisverndarsjónarmiða og veiðiréttinda, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að gefa út starfsleyfi fyrir Háafell ehf. til sjókvíaeldis. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Nánar um þetta má lesa á Verkefnin > Umsagnir

Æðarfugl
Æðarfugl. Ljósmynd: Sindri Skúlason
Frá vinstri: Sigurður Þráinsson sérfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar, Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndar, Björt Ólafsdóttir Umhverfis- og auðlindaráðherra, Indriði R. Grétarsson formaður Skotvís og Ingibjörg Svala Jónsdóttir formaður Vistfræðifélags Íslands.

Áskorun til umhverfisráðherra um friðun teistu (Cepphus grylle)

Föstudaginn 16. júní áttu fulltrúar Fuglaverndar, Vistfræðifélags Íslands og Skotvís fund með Björt Ólafsdóttur Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Á fundinum var henni afhent sameiginleg Áskorun til Umhverfis- og auðlindaráðherra um friðun teistu (Ceppus grylle).pdf sem lesa má í heild sinni hér. Fundarmenn fengu jákvæð viðbrögð frá ráðherra á fundinum.

Skv. lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar villtra fugla og spendýra hefur ráðherra yfirumsjón með aðgerðum er varða friðun á villtum dýrum. Nú má skv. reglugerð 34/2012 veiða teistuna frá 1. september til 25. apríl ár hvert. Sama reglugerð heimilar einnig veiðar á öðrum tegundum svartfugla: Álku, stuttnefju, langvíu og lunda.

Teista (Cepphus grylle)

Teista er svartfugl. Teistustofninn er lítill og hefur verið áætlaður 10.000-15.000 varppör, sem samsvarar 51.000-77.000 einstaklingum. Teistum hefur fækkað verulega víða um land og er talið líklegt að þessi stofnstærðartala sé í raun mun lægri. T.d. hefur teistu fækkað um 80% í Strandasýslu frá 1959 en einnig í Flateyjum á Breiðafirði og á Skjálfanda.

Teista verpir tveimur eggjum, liggur á í 29-30 daga og ungatími eru 40 dagar. Teistan heldur sig við strendur og á grunnsævi og leitar sjaldan út á rúmsjó.
Verpur stök eða í litlum byggðum í eyjum, höfðum og urðum undir fuglabjörgum. Hreiður eru í klettaskorum, sprungum, undir steinum eða á syllum í hellum.

Fuglavernd hóf rannsókn á meðafla í grásleppunetum 2015 og sýna frumniðurstöður að teistur ánetjast mest fuglategunda eða allt að 6.700 fuglar árlega. Snemma vors 2016 var gerð úttekt á sjálfbærni bæði skotveiða á teistu og meðafla í grásleppunetum (sem og annarra veiðitegunda fugla) og var miðað við lægri tölu meðafla. Niðurstaðan er að núverandi veiðar eru að meðaltali 7,4 sinnum hærri en sjálfbærnimörk stofnsins leyfa samkvæmt PBR aðferðinni.

Hafrannsóknastofnun mat að árlegur meðafli teista í grásleppunet (um 2.000 fuglar) væri ósjálfbær veiði samkvæmt PBR aðferðinni.

Teista hentar illa sem veiðitegund vegna hægrar viðkomu,en fyrst og fremst vegna lítillar stofnstærðar hérlendis. Þessi tegund hefur í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og hefur ekki veriðsérstaklega sóst eftir henni.

geirfuglinn er útdauður

Ályktun um uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands

Í umboði neðangreindra samtaka skorum við á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðherra að taka hið fyrsta af skarið varðandi málefni Náttúruminjasafns Íslands og búa þannig um hnúta að starfsemi þess rísi undir nafni við miðlun á fróðleik og þekkingu á náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda, eins og lög kveða á um.

Ályktun Alþingis nr. 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis fullveldis Íslands, sem formenn allra þingflokka á Alþingi fluttu undir lok síðasta kjörtímabils og samþykkt var með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust er mikið fagnaðarefni. Þar kemur m.a. fram að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni ... „að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“

Það veldur því vonbrigðum að Náttúruminjasafns Íslands skuli hvergi vera getið í tillögu ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálaáætlun 2018–2022.

Á 100 ára afmæli HÍN árið 1989 kynnti menntamálaráðherra áætlanir um að reist yrði hús yfir Náttúrugripasafn Íslands. Í kjölfarið var mæld út lóð í Vatnsmýri fyrir byggingu Náttúruhúss sem var hugsað sem safnbygging og aðsetur Náttúrugripasafns. Í deiliskipulagi Háskólasvæðisins er enn gert ráð fyrir Náttúruhúsi á þessum stað, á svonefndum G-reit.

Staða Náttúruminjasafnsins, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, hefur frá upphafi verið óviðunandi og safnið búið við þröngan kost þau tíu ár sem liðin eru frá stofnun þess. Fjárheimildir hafa verið afar naumt skornar, starfsmenn aðeins tveir hið mesta, skrifstofuaðstaða ótrygg og engin aðstaða til sýningahalds, kennslu eða miðlunar fróðleiks á eigin vegum.

Öflugt náttúrufræðisafn styrkir menntakerfið og menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Menntun landsmanna í náttúrufræðum er forsenda sjálfbærni í atvinnugreinum þjóðarinnar, sem nær allar hvíla á nýtingu náttúrunnar. Aukinn skilningur á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta verkefni samtímans og skólaæska landsins á sannarlega skilið metnaðarfullt og nýstárlegt náttúrufræðisafn þar sem undrum og ferlum náttúrunnar eru gerð skil.
Það er mikils um vert að ekki verði hvikað frá þeim góðu fyrirheitum sem gefin eru í fyrrnefndri ályktun Alþingis.

Ljósmynd: Geirfuglinn. Myndin er fengin af vef Náttúruminjasafns Íslands, www.nmsi.is

Ályktun vegna vegagerðar í Gufudalssveit (Teigsskógur)

Fuglavernd leggst eindregið gegn þeirri veglínu, sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit. Ákvörðun Vegagerðarinnar brýtur í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem þeir voru gerðir afturreka með.

Fuglavernd hvetur Vegagerðina að stíga inní nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir. Stofnunin á að láta umhverfið njóta vafans.

Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.

Stjórn Fuglaverndar

 

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.