Áskorun til grænlenskra stjórnvalda

Fuglavernd skorar á Grænlensk stjórnvöld að hlífa stuttnefjunni. Það hefur vakið athygli umheimsins að grænlenska landsstjórnin hefur heikst á að friða stuttnefjuna, þrátt fyrir að fjöldi aðvörunarbjalla hafi hringt undanfarin ár um að hún stæði á barmi útrýmingar. Fuglavernd ásamt fuglaverndarsamtökum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum og Alþjóðasamtökum BirdLife hafa skorað á grænlensku landsstjórnina að stöðva alla veiði á stuttnefju. Það stefnir í að veiðar útrými tegundinni sem varpfugli í Grænlandi á fáum árum en gríðarlegt veiðiálag er á fugla við Vesturströnd Grænlands. Stuttnefjum sem verpa hér við land hefur fækkað mikið á síðustu árum og er talsvert af þeim drepið á vetrarstöðvum vestur af Suður-Grænlandi. Þar eru bæði mikilvægar varpstöðvar grænlenskra stuttnefja og vetrarstöðvar íslenskra. Fuglaverndarsamtökin skora á landsstjórnina að nýta náttúruauðlindir þess á sjálfbæran hátt.

Ljósmynd: Lars Maltha Rasmussen/DOF

Ályktun mófuglaráðstefnunnar

Ráðstefna Fuglaverndar sem haldin var 27.desember 2014 ályktaði svohljóðandi: Til mófugla teljast ýmsir algengir fuglar sem verpa dreift í opnu landi. Þetta eru einkum vaðfuglar en einnig teljast rjúpa og nokkrar tegundir spörfugla til mófugla. Á Íslandi eru afar stórir stofnar nokkurra mófuglategunda, t.d. er talið að allt að helmingur allra heiðlóa og spóa í heiminum verpi á Íslandi. Fleiri stofnar eru mjög stórir. Íslendingar bera ábyrgð á að vernda þessa fugla samkvæmt alþjóðasamningum, t.d. samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó) og AEWA samningnum sem tekur til verndar farfugla og votlendisfugla. Þrátt fyrir mikilvægi Íslands og alþjóðlega ábyrgð á mörgum mófuglastofnum er vöktun á þeim og búsvæðum þeirra afar takmörkuð. Brýnt er að þær stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við að vakta fuglastofna fái til þess nauðsynlegt fjármagn.

Mófuglar verpa um allt land í fjölbreyttum búsvæðum á opnu landi. Sérstök áskorun er að vernda fuglastofna sem verpa svo dreift því verndarsvæði geta aðeins náð yfir lítinn hluta stofnanna. Brýnt er að efla og koma á fót verndarsvæðum á lykilstöðum. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til mófugla við skipulag landnotkunar svo þeir geti þrifist samhliða nýtingu.

Örlög mófuglastofna á 21. öld munu endurspegla árangur Íslendinga við að samræma nýtingu og vernd landsins.

Ályktunin er send ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis og landbúnaðarráðuneyti sem og fjölmiðlum. Hér má sjá ráðstefnudagskrána.

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Áskorun til rjúpnaveiðimanna

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár og hvetur Fuglavernd veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar.  Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi. . Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög.

Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og prýðir hún einnig vinsælt jólakort Fuglaverndar.

Ályktun frá Fuglavernd vegna vegagerðar í Gufudalssveit

Stjórn Fuglaverndar hvetur stjórnvöld til að fara að öllu með gát og skoða fleiri möguleika varðandi vegagerð í Gufudalssveit. Félagið lýsir yfir stuðningi við vegagerð í Gufudalssveit með göngum undir Hjallaháls. Með þeirri leið verður til láglendisvegur á þessu svæði og er því ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í hana strax og bæta þannig úr brýnum þörfum Vestfirðinga á betri samgöngum.

Fuglavernd telur, að með þessu megi koma í veg fyrir þau miklu náttúrspjöll, sem myndi hljótast af vegagerð við vestanverðan Þorskafjörð, en hún fer um óspilta náttúru, m.a. eftir Teigsskógi endilöngum, út í sjó og yfir tanga yst á Hallsteinsnesi og yfir eyjar og sker í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar, í nágrenni tveggja arnarsetra. Mikilvægum fæðusvæðum vaðfugla, æðarfugla og varpsvæði arna er því stefnt í hættu. Stíflun Gilsfjarðar ætti að vera mönnum víti til varnaðar á þessu svæði.

Sindri Skúlason tók myndina.

Fuglavernd telur að í náttúruverndarmálum verði menn að horfa til framtíðar og ekki sé réttlætanlegt að fórna náttúruverðmætum, sem auk þess eru á náttúrminjaskrá, skrá um Alþjóðalega mikilvæg fuglasvæði og falla undir lög um verndun Breiðafjarðar og Ramsar-sáttmálann, þegar aðrar leiðir eru fyrir hendi eins og í þessu máli. Göng undir Hjallháls er ein af þeim.

Stjórn Fuglaverndar 8.10.2014

Kettir á varptíma

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert.  Lang best væri að kettir væru inni yfir varptímann en einhvern vegin þarf að tækla ketti sem eru vanir útigöngu.

Á þessum tíma er mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Sagt er að kettir stundi mest veiðar í ljósaskiptunum en  norðarlega á hnettinum lengist dagurinn að vori og senn renna dagur og nótt saman í eitt.  Veiðar katta einskorðast því ekki við ljósaskiptin.

Hægt er að venja kött á að vera inni á nóttunni. Þegar kallað er á hann um kvöldmatarleiti og hann kemur inn þá ber að verðlauna með kattagóðgæti. Svo á ekki að hleypa honum út fyrr en daginn eftir og reyna að takamarka útiveruna við fáeinar klukkustundir.

Kattakragar hafa reynst gott meðal til að minnka veiðar katta og þeir virka betur heldur en bjöllurnar.  Fuglavernd selur kattakraga í vefverslun sinni.

Framleiðendur kraganna Birdsbesafe eru með mikið af fróðleik og upplýsingum um rannóknir á virkni kraganna. Hér má lesa um það á ensku.

Bjöllur og kragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

 

• halda köttum inni, sérstaklega frá kvöldi og fram á morgun (helst frá kl. 17 seinnipart dags og til kl. 9 að morgni),
• gefa köttum sérlega ljúffenga máltíð (kjöt) seinni partinn (þá venjast þeir á að koma heim og eru líklegri til að vilja vera inni, saddir og sælir)
• setja litríka kattakraga utan um ólar kattanna
• setja aukabjöllur á ólarnar

 

Græn ganga 1. maí

Fuglavernd er eitt af þeim félögum sem standa að grænu göngunni 1. maí í samstarfi við stéttarfélög. Efnt er til göngunnar til að krefjast þess að almenningur hafi áfram, eins og hingað til frjálsan aðgang að náttúru Íslands og að almannarétturinn verði virtur.

Þátttakendur safnast saman um kl. 13:00 við hestinn á Hlemmi. Gengið verður á eftir 1. maí göngu stéttarfélaganna sem hefst kl. 13:30. Að dagskrá lokinni á Ingólfstorgi kl. 15 verður gengið að Alþingishúsinu þar sem þúsund grænum fánum verður stungið niður. Göngumenn eru hvattir til að klæðast grænu.

Náttúran er ein dýrmætasta sameign þjóðarinnar. Náttúran, með víðernum og fegurð landsins er einnig orðin okkar helsta tekjulind með örum vexti í ferðaþjónustu. Samhliða því hafa forráðamenn landsvæða takmarkað för fólks um náttúruperlur með gjaldtöku við Geysi og Kerið í Grímsnesi. Einnig er unnið að tillögum um svonefndan náttúrupassa, sem er útfærsla á gjaldi fyrir að skoða náttúru Íslands. Komið hefur fram í skoðanakönnunum að meirihluti landsmanna er mótfallinn slíku gjaldi. Þá hefur þess orðið vart í auknum mæli að landeigendur reyni að takmarka för fólks með því að loka vegum og fornum leiðum með keðjum og hliðum. Almannarétturinn og ferðafrelsið eru því í greinilegri hættu. Krafa grænu göngunnar í ár er að þau beri að vernda og virða.

Eftirfarandi félög standa að grænu göngunni 2014: Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Eldvötn, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Ferðaklúbburinn 4×4, Framtíðarlandið, Fuglavernd, Græna netið, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruvaktin, Samtök útivistarfélaga (SAMÚT), Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS), Umhverfisvaktin við Hvalfjörð og Ungir umhverfissinnar.

 

Fésbókarsíða atburðarins

 

Áskorun til stjórnvalda að endurskoða villidýralögin

Skýrslan Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra sem inniheldur umfjöllun og tillögur nefndar um stöðu villtra fugla og villtra spendýra hefur nú verið gerð aðgengileg á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Fuglavernd telur mikilvægt að stjórnvöld endurskoði villidýralögin sem fyrst, lögin frá 1994 eru löngu orðin úrelt.

Nefndin telur mikilvægt að endurskoðuð löggjöf og stjórnsýsla á þessu sviði taki mið af þremur lykilstoðum, þ.e. vernd, velferð og veiðum villtra dýra. Hver þessara þátta myndi rammgerða undirstöðu laganna sem frekari útfærslur byggi á. Nefndin segir ennfremur að í núverandi löggjöf sé lögð áhersla á veiðar, og hafi almenn vernd og velferðarmál villtra dýra því að nokkru leyti orðið út undan, þó komið sé inn á þessa þætti í villidýralögum, lögum um dýravernd, náttúruvernd eða öðrum lögum.

Á myndinni eru sandlóuegg. Sigurður Ægisson tók myndina.

[btn color=”green” text=”Villidýraskýrslan” url=”http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Vernd-velferd-og-veidar-LOKA-8-mai-2013.pdf”]

 

Ályktanir aðalfundar Fuglaverndar 20.04.13

Fundurinn setti fram tvær ályktanir:
1. Ályktun gegn virkjun við Mývatn. 
Aðalfundur Fuglaverndar hvetur til þess að nú þegar verði hætt við öll frekari áform um jarðvarmavirkjanir við Mývatn.  Það steðja margar ógnir að einstöku lífríki vatnsins. Fleiri borholur í Bjarnarflagi munu hafa afar neikvæðar afleiðingar. Fuglvernd hvetur Landsvirkjun til að hætt nú þegar við áform um virkjun við Mývatn.

Greinargerð: Vatnasvæði Mývatns og Laxár hafa verndargildi á heimsmælivarða og eru einn allra mikilvægasti fuglastaður á Íslandi og þar verpa m.a.15 tegundir anda.

  • Við Mývatn er mesti varpstaður flórgoða í Evrópu, og 50 % allra flórgoða á Íslandi verpa við vatnið.
  • Nánast allar hrafnsendur á Íslandi halda til á Mývatni yfir 90% stofnsins.
  • Mývatn og Laxá stærsta og mesta varp straumanda í heiminum en straumendur finnast hvergi annars staðar í Evrópu.
  • Mývatn er geysi mikilvægur varpstaður  óðinshana á íslandi og í Evrópu
  • Mývatn og Laxá eru einu varpstaðir húsandar  í Evrópu utan fáeinna para sem verpa við aðrar ár í nágrenni vatnsins.

Forsenda hins einstaka lífríkis við Mývatn er sú að volgt, steinefnaríkt grunnvatn sérstaklega að kísli, hripar hægt en stöðugt í grunnt stöðuvatnið og skapar einstök skilyrði fyrir kísilþörunga og fleiri lífverur sem mynda grunninn að fuglalífinu. Rétta magnið örfar lífríkið en of mikið er ógnun við það. Frá því að nýting jarðvarma hófst við Mývatn hefur hallað undan lífríkinu. Jarðhitamengun, borholuvökvi frá Bjarnarflagi sem verður til við þéttingu gufu og inniheldur mikið af þungmálum rennur stöðugt frá eldri borholum til Mývatns sem getur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. Silung fækkaði mikið í vatninu og hefur ekki náð sér á strik. Þá hefur álag á lífríki vatnsins aukist þar sem frárennsli eða skólp frá mannvirkjum hefur aukist vegna mikils fjölda ferðamanna við vatnið, að ógleymdri mengun vegna vaxandi bílaumferðar.

2. Ályktun Fuglaverndar um endurheimt votlendis Fuglavernd hvetur stjórnvöld og landeigendur til að hætta framræslu og endurheimta votlendi.

Greinargerð: Árið 1996 var hafist handa við endurheimt tjarna og mýra í smáum stíl. Þrátt fyrir að vaxandi þekkingu á mikilvægi votlendis fyrir lífríki Íslands og loftslag hefur framræsla votlendis á Íslandi verið að færast í aukana á ný umfram það sem er endurheimt. Þessu verður að snúa við. Mýrarnar eru búsvæði fuglategunda sem við berum ábyrgð á á heimsvísu, t.d. óðinshana, jaðrakans og stelks.

Mýrarnar með flóum, flæðiengjum og smátjörnum eru fallegt náttúrulegt umhverfi sem mikilvægt er að vernda og endurheimta það sem spillt hefur verið en um 30.000 kílómetrar af skurðum voru grafnir á 20. öld á Íslandi. Mýrajarðvegurinn geymir milljarða tonna af kolefni sem safnast hefur þar upp sem mór á síðustu 10.000 árum eða frá lokum Ísaldar. Endurheimt mýra og vernd heillegra mýra er mikilvægasta lóðið á vogarskálar baráttunnar gegn loftslagsbreytingunum í heiminum sem Íslendingar geta lagt af mörkum.

Ljósmynd af hrafnsönd á Mývatni. Ljósmyndari. Jakob Sigurðsson.

Fuglavernd hvetur til hófsamra veiða

Fuglavernd hvetur veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar Rjúpan er hænsnfugl og sá eini sem lifir villtur á Íslandi. Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi.Rjúpnastofninn sveiflast reglulega og stofnstærð virðist ná hámarki á um 10 ára fresti og getur verið allt að tífaldur munur á rjúpnamergð í lágmarki og hámarki. Líklega eru það nokkrir samverkandi þættir sem hafa áhrif á sveiflurnar svo sem fæðan, sníkjudýr og afrán. Uppi eru kenningar um að umferð veiðimanna um búsvæði rjúpunnar auki viðbótarafföll umfram það sem veitt er. Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög. Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og hefur hún einnig prýtt jólakort Fuglaverndar.

Áskorun frá Fuglavernd

Fuglavernd skorar á veiðimenn að virða friðun blesgæsar, nú þegar gæsirnar eru að streyma til landsins frá varpstöðvum sínum á Grænlandi.
Fuglavernd skorar einnig á lögreglumenn og sýslumannsembætti í Borgarfirði og á Suðurlandi að auka eftirlit með gæsaveiðum og skoða afla veiðimanna.
Fullorðnar blesgæsir eru auðþekkjanlegar á svörtum rákum á kviði og hvítri blesu.Ungar blesgæsir þekkjast frá öllum öðrum gæsum á gulum fótum, heiðagæs og grágæs eru með bleika fætur, svo og á röddinni.
Sérstaklega vill Fuglavernd vekja athygli veiðimanna sem hyggjast stunda gæsaveiðar á Vesturlandi og Suðurlandi, að hafa varann á sér, en þar eru aðalviðkomustaðir þessarar fágætu gæsar. Sérstaklega er mikil hætta á að blesgæsir komi inn á skotvölinn þar sem gæsir eru lokkaðar að í kornökrum og stillt er upp gervigæsum. Grágæsir og heiðagæsir á Íslandi standa hinsvegar betur og er óhætt að veiða nokkuð af þeim stofnum á sjálfbærann hátt. Fuglavernd vill einnig hvetja veitingahúsaeigendur, að vera á varðbergi gagnvart gæsum sem þeim eru boðnar til kaups, að þeir séu vel meðvitaðir um hvaða gæsir eru friðaðar.
Grænlandsblesgæsin er enn í hættu og stofninn lítill. Því er áframhaldandi friðun nauðsynleg og að hún sé virt af veiðimönnum.
Fuglavernd skorar á veiðimenn að virða friðun blesgæsar, nú þegar gæsirnar eru að streyma til landsins frá varpstöðvum sínum á Grænlandi.
Fuglavernd skorar einnig á lögreglumenn og sýslumannsembætti í Borgarfirði og á Suðurlandi að auka eftirlit með gæsaveiðum og skoða afla veiðimanna.

Fullorðnar blesgæsir eru auðþekkjanlegar á svörtum rákum á kviði og hvítri blesu. Ungar blesgæsir þekkjast frá öllum öðrum gæsum á gulum fótum, heiðagæs og grágæs eru með bleika fætur.
Sérstaklega vill Fuglavernd vekja athygli veiðimanna sem hyggjast stunda gæsaveiðar á Vesturlandi og Suðurlandi, að hafa varann á sér en þar eru aðalviðkomustaðir þessarar fágætu gæsar. Sérstaklega er mikil hætta á að blesgæsir komi inn á skotvölinn þar sem gæsir eru lokkaðar að í kornökrum og stillt er upp gervigæsum. Grágæsir og heiðagæsir á Íslandi standa hinsvegar betur og er óhætt að veiða nokkuð af þeim stofnum á sjálfbærann hátt. Fuglavernd vill einnig hvetja veitingahúsaeigendur, að vera á varðbergi gagnvart gæsum sem þeim eru boðnar til kaups, að þeir séu vel meðvitaðir um hvaða gæsir eru friðaðar.
Grænlandsblesgæsin er enn í hættu og stofninn lítill. Því er áframhaldandi friðun nauðsynleg og að hún sé virt af veiðimönnum.