Tímaritið Fuglar kemur út í apríl

Tímaritið Fuglar kom fyrst út á 40 ára afmæli Fuglaverndarfélags Íslands (Fuglaverndar) árið 2003. Það hefur fest sig í sessi sem ársrit félagsins og er eitt af metnaðarfyllstu tímaritum sem gefin eru út á Íslandi um náttúru og umhverfi.
Tímaritinu Fuglar er dreift til um 1300 félaga í Fuglavernd, auk þess sem það liggur frammi á biðstofum lækna og stofnana og er afhent nýjum félögum við inngöngu.
Áskrift að Fuglum er aðeins möguleg með aðild að Fuglavernd.

Í Fuglum er fjallað um fugla, fuglavernd, fuglaskoðun og búsvæði fugla á léttan og aðgengilegan hátt. Efnistök eru fjölbreytt og lifandi. Greinahöfundar eru fuglafræðingar, náttúrufræðingar og fuglaskoðarar og blaðið prýðir einstakar ljósmyndir eftir landsþekkta náttúruljósmyndara.

Meðal efnis í þessu blaði er annáll sjaldgæfra varpfugla 2015 og annáll flækinga 2015. Fylgst með kríum og fjallað um liti krossnefja. Stór grein um Günter Timmermann fuglafræðing. Fjallað um garðfugla og fóðrun. Umfjöllun um lagalega stöða fugla á Íslandi og grein um ferð til Antarktíku og fleira.

Áskorun til stjórnvalda að endurskoða villidýralögin

Skýrslan Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra sem inniheldur umfjöllun og tillögur nefndar um stöðu villtra fugla og villtra spendýra hefur nú verið gerð aðgengileg á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Fuglavernd telur mikilvægt að stjórnvöld endurskoði villidýralögin sem fyrst, lögin frá 1994 eru löngu orðin úrelt.

Nefndin telur mikilvægt að endurskoðuð löggjöf og stjórnsýsla á þessu sviði taki mið af þremur lykilstoðum, þ.e. vernd, velferð og veiðum villtra dýra. Hver þessara þátta myndi rammgerða undirstöðu laganna sem frekari útfærslur byggi á. Nefndin segir ennfremur að í núverandi löggjöf sé lögð áhersla á veiðar, og hafi almenn vernd og velferðarmál villtra dýra því að nokkru leyti orðið út undan, þó komið sé inn á þessa þætti í villidýralögum, lögum um dýravernd, náttúruvernd eða öðrum lögum.

Á myndinni eru sandlóuegg. Sigurður Ægisson tók myndina.

[btn color=”green” text=”Villidýraskýrslan” url=”http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Vernd-velferd-og-veidar-LOKA-8-mai-2013.pdf”]