Tímaritið Fuglar kemur út í apríl

Tímaritið Fuglar kom fyrst út á 40 ára afmæli Fuglaverndarfélags Íslands (Fuglaverndar) árið 2003. Það hefur fest sig í sessi sem ársrit félagsins og er eitt af metnaðarfyllstu tímaritum sem gefin eru út á Íslandi um náttúru og umhverfi.
Tímaritinu Fuglar er dreift til um 1300 félaga í Fuglavernd, auk þess sem það liggur frammi á biðstofum lækna og stofnana og er afhent nýjum félögum við inngöngu.
Áskrift að Fuglum er aðeins möguleg með aðild að Fuglavernd.

Í Fuglum er fjallað um fugla, fuglavernd, fuglaskoðun og búsvæði fugla á léttan og aðgengilegan hátt. Efnistök eru fjölbreytt og lifandi. Greinahöfundar eru fuglafræðingar, náttúrufræðingar og fuglaskoðarar og blaðið prýðir einstakar ljósmyndir eftir landsþekkta náttúruljósmyndara.

Meðal efnis í þessu blaði er annáll sjaldgæfra varpfugla 2015 og annáll flækinga 2015. Fylgst með kríum og fjallað um liti krossnefja. Stór grein um Günter Timmermann fuglafræðing. Fjallað um garðfugla og fóðrun. Umfjöllun um lagalega stöða fugla á Íslandi og grein um ferð til Antarktíku og fleira.