Fuglaskoðun á Reykjanesi

Laugardaginn 11. maí bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun við Garðskagavita. Tilefnið var Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori, en hans er minns bæði vor og haust. Trausti Gunnarsson, leiðsögumaður og ritari stjórnar Fuglaverndar hélt utan um viðburðinn. Um 15 manns komu til að skoða sjófugla í sól en heldur nöpru veðri að öðru leyti.

Kíkir er gott hjálpartæki við fuglaskoðun. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson.
Fuglaskoðun við Garðskagavita. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson

Kort: Fuglaskoðun á Reykjanesskaga

Fuglaskoðun á Reykjanesi, kort á íslensku eða ensku.

Fuglaskoðun á Reykjanesi er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands, Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness. Kortið er fáanlegt á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Nálgast má eintök af því á skrifstofu Fuglaverndar.

 

Rándýrin í garðinum

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

Kettir veiða helst algenga garðfugla: (smellið á tegundina til að sjá varptíma)

 – skógarþröstur

 – svartþröstur

 – stari

– snjótittlingur

– auðnutittlingur

þúfutittlingur

Rannsóknir

Í Bandaríkjunum árið 2013 hjá The Smithsonian Conservation Biology Institute and the U.S. Fish and Wildlife Service var gerð rannsókn. Þar var talið að útikettir drepi um 2, 4 milljarða fugla á hverju ári og séu þar stærsta dánarorsök af mannavöldum í landinu. Síðan þá hafa svipaðar niðurstöður komið fram í Kanada og í Ástralíu.

Meira um rannsóknirnar:
The impact of free-ranging domestic cats on wildlife of the United States

Estimated Number of Birds Killed by House Cats (Felis catus) in Canada

How many birds are killed by cats in Australia?

Kattarkragar

Þá hafa kattakragar verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kattarkragar eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel.

Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.

Meira má lesa um kattarkraga:
Birds be safe: Can a novel cat collar reduce avian mortality by domestic cats (Felis catus)?

Assessing the effectiveness of the Birdsbesafe® anti-predation collar cover in reducing predation on wildlife by pet cats in Western Australia

Kattarkraga má víða finna í vefverslunum t.d. birdsbesafe.com

Söngur svartþrastarins

Svartþröstur (Turdus merula)er venjulega fremur felugjarn, nema syngjandi karlfuglar á vorin, sem hreykja sér í trjátoppum, á ljósastaurum og húsmænum. Fuglar í makaleit syngja meira en þeir sem eiga maka og eru eingöngu að auglýsa óðal sitt. Frá svartþresti má heyra hvellan, hljómfagran og þunglyndislegan söng, sem og hart og hvellt kallhljóð.

Fuglarnir fara að syngja í lok febrúar, oft löngu fyrir birtingu og sérstaklega í dumbungsveðri og hlýindum. Þeir fyrstu verpa í lok mars, þeir verpa oft yfir sumarið og ófleygir ungar hafa fundist alveg fram í september. Íslenskt veðurfar með umhleypingum á útmánuðum, á eftir að síast inní gen fuglanna, þeir telja sig enn vera á suðlægari slóðum eða í mildara loftslagi. Utan varpstöðva sést hann í görðum, við bæi og í fjörum.

Fjöldi eggja: 3–5
Liggur á: 13–15 daga
Ungatími:13–14 dagar
Stofnstærð:yfir 2000 varppör

Svartþröstur verpur í trjám í görðum og trjálundum, stundum á húsum. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, svipaða eða efnismeiri en skógarþrösturinn. Ungarnir eru ósjálfbjarga, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir eða að verða fleygir. Urptin er 3-5 egg, álegan tekur um tvær vikur og uppvöxtur unga svipaðan tíma. Varptími svartþrasta er langur og verpa þeir nokkrum sinnum yfir sumarið.

Svartþröstur er þjóðarfugl Svía og þar er hann veðurviti.

Svartþrastarkarl. © Jóhann Óli Hilmarsson.
Svartþrastarkvenfugl. © Jóhann Óli Hilmarsson

Heimildir:

Fuglavefurinn – Svartþröstur
Náttúruminjaafn Íslands – fugl mánaðarins – svartþröstur

Akurey friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri Reykjavíkur undirrituðu formlega friðlýsingu Akureyjar á Kollafirði við Eiðsgranda í dag, 3. maí 2019.

Þetta er fyrsta friðlýsing sem Guðmundur Ingi undirritar en nú stendur yfir átak friðlýsinga hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Búsvæðavernd

Akurey er að finna á nýjum vef, www.fuglavernd.is/sjofuglabyggðir en þar hefur Fuglavernd tekið saman upplýsingar um 37 sjófuglabyggðir við Ísland sem eru öll alþjóðlega mikilvæg, oftast vegna fjölda þeirra sjófugla sem reiða sig á þau.

Akurey er lítil, um 6,6 hektarar að stærð, láglend og flöt eins og aðrar eyjar á Kollafirði, hæsti punktur er 10 m.y.s. Eyjan er mjög gróskuleg og stórþýfð og einkennist af lundavarpinu sem þar er. Fjaran er stórgrýtt. Aðal varpfuglinn er lundi, um 20.000 pör í góðum árum, jafnframt verpur eitthvað af æðarfugli, fýl, hettumáfi, sílamáfi, svartabaki, teistu og kríu.

Í Akurey er alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð, því þar verpa yfir 15.000 pör af lunda, um 0.7% af íslenska stofninum. Einnig verpa þar ýmsir sjófuglar í minna mæli, eins og sílamáfuræður og teista.

Á válista fugla Náttúrufræðistofnunar Íslands eru tegundir sem verpa í Akurey flokkaðar; tegund í bráðri hættu (CR): lundi, tegundir í hættu (EN): fýllsvartbakurteista og tegundir í nokkurri hættu (VU): kríaæðarfugl.

Næstu skref

Fuglavernd fagnar þessar friðlýsingu Akureyjar, en fyrst skoraði Fuglavernd á Reykjavíkurborg að friðlýsa Akurey og Lundey með bréfi þann 10. febrúar 2014, eins og sjá má undir /umsagnir.

Vernd mikilvægs búsvæðis tegundar í bráðri útrýmingarhættu er mjög mikilvægt skref, en á borði Umhverfis- og auðlindaráðherra liggur áskorun frá 12. nóvember 2018 um aðgerðir til varnar svartfuglum.

Lóan er komin og fleiri farfuglar

Fyrsta lóan 2019 sást í Stokkseyrarfjöru 28. mars. © Hjördís Davíðsdóttir

Í Stokkseyrarfjöru þann 28. mars náðist mynd af fyrstu lóu vorsins og var það Hjördís Davíðsdóttir sem náði henni. Þetta mun vera sami dagur og lóan kom í fyrra.

Á póstlista fuglaáhugamanna um allt land eru nú daglegar fregnir af farfuglum:

  • 27/3 Sá þó fyrstu grágæsirnar (2) og sílamáfana (2) í dag og yfir 20 fugla hóp af tjaldi sem var greinilega nýkominn. Fyrstu tjaldarnir voru komnir fyrir nokkru síðan. – Jónína Óskars, Fáskrúðsfirði
  • 28/3 11 skógarþrestir taldir í húsagarði hér í dag. Hafa ekki verið í vetur. – Jónína Óskarsdóttir, Fáskrúðsfirði.
  • 29/3 Það sást lóa hér á Stokkseyri í gær og náðist mynd af fuglinum. Tveir jaðrakanar í sumarbúningi á Eyrarbakka með tjöldum. – Jóhann Óli Hilmarsson, Stokkseyri.
  • 30/3 Í Þöll í Hafnarfirði í morgun: Skógarþröstur tyllti sér í grenitopp og söng óburðugt lag. Fyrsti söngur skógarþrastar sem ég heyri í vor. – Erling Ólafsson.
  • 30/3 Ég sá fyrstu urtendurnar í gær hér á Fáskrúðsfirði og síðan fyrstu rauðhöfðaendurnar í dag. – Jónína Óskarsdóttir.
  • 30/3 Ég myndaði í dag blesgæsir og heiðagæsir í Flóanum, nokkrar blesæsirnar voru merktar. Er þetta ekki óvenju snemma fyrir þessar tegundir? – Svanhildur Egilsdóttir.

Það er því næsta víst að vorið er á næsta leiti.

Ný stjórn kjörin á aðalfundi

Frá vinstri: Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmallensee, Snæþór Aðalsteinsson, Trausti Gunnarsson og Ólafur Karl Nielsen formaður stjórnar. Á myndina vantar Daníel Bergmann og Erp Snæ Hansen. Ljósmynd: ©Dögg Matthíasdóttir.

Mánudaginn 11. mars 2019 var kjörin ný stjórn á aðalfundi Fuglaverndar.

Jóhann Óli Hilmarsson lét af formennsku en hann hefur verið formaður Fuglaverndar allt frá árinu 1999. Jóhann Óli sat fyrst í stjórn á árunum 1974-1977, þá gerði hann tíu ára hlé en kom aftur inn í stjórnina árið 1987 og tók við formennsku 1999. Í hans stað gaf kost á sér Ólafur Karl Nielsen en hann hefur verið varaformaður félagsins. Þá gaf Sindri Skúlason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Voru þeim í lok fundarins færðir þakklætisvottur fyrir störf sín í þágu félagsins.

Jóhann Óli flutti ársskýrslu, en hana er að finna á: Um Fuglavernd>Ársskýrslur

Ný stjórn var kjörin með einróma lófataki, en hana skipa:

Ólafur Karl Nielsen – formaður, Daníel Bergmann, Erpur Snær Hansen, Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmalensee, Snæþór Aðalsteinsson og Trausti Gunnarsson. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skiptir hún með sér verkum, aðeins formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi félagsins.

Áður en tekið var til hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Jóhann Óli erindi um fuglaskoðun á Borgarfirði eystra og Ólafur Karl Nielsen gerði grein fyrir athugunum á fuglalífi í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.  Um fuglalíf Njarðvíkur má lesa meira á: Verkefnin>Njarðvík.

Fundurinn var fjölsóttur og meðal félagsmanna sem tóku þátt í umræðum á fundum er greinilegur áhugi á að Fuglavernd takist vel til í hlutverki landeiganda á fjölsóttum ferðamannastað. Að leiðarljósi verði náttúruvernd sem er grunnstarfsemi félagsins sem og sjálfbærni og fræðsla en það eru aðrar meginstoðir í stefnu Fuglaverndar.

Fjölsóttur aðalfundur Fuglaverndar.

Álftin og áldósin

Ljósmmynd © Britta Steger

Náttúrufræðistofnun Íslands vann gott starf í gær, sem aðra daga. Eftir ábendingar til Fuglaverndar – BirdLife Iceland á fésbókinni, heyrðum við í þeim og þeir létu ekki á sér standa. “Maðurinn með háfinn” er einn stjórnarmanna Fuglaverndar og leiðandi í fjölbreyttu sjálfboðaliðastarfi á vegum félagsins.

Í færslu frá Náttúrufræðistofnun Íslands segir:

Björgun dýra í neyð!
Það er löng hefð fyrir því á Náttúrufræðistofnun að hjálpa fuglum og öðrum dýrum sem hafa lent í hremmingu. Þær eru ófáar ferðirnar sem farnar hafa verið á umliðnum áratugum til að fanga erni, fálka, smyrla, uglur og aðra fulltrúa hinnar fiðruðu dróttar himinsins! Í morgun kom eitt slíkt kall: álft með áldollu krækta upp á neðra skolt við Urriðavatn! Hér voru hæg heimtök og ekki nema steinsnar frá NÍ í Urriðaholti á vettvang.

Fuglinn fannst eftir stutta leit; hann var lagstur fyrir í mýrinni austan við vatnið og augljóslega mjög af honum dregið. Fyrsta tilraun til að fanga fuglinn endaði háðulega. „Maðurinn með háfinn“ flaug á höfuðið og lá flatur í mýrinni en álftin náði á hlaupum út á vatn. Nú voru góð ráð dýr, báts var þörf!

Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst! Bjargvætturinn, Magni Þór Konráðsson hjá Firringu ehf., mætti á vettvang með fley og fagrar árar. Eftirleikurinn var auðveldur, fuglinn var sigldur uppi, háfaður, settur í spennitreyju og við landtöku var dollan klippt laus. Sárið var ljótt og fuglinn augljóslega búinn að bera dolluna í nokkurn tíma. Þetta var álbaukur undan orkudrykk. Álftin hafði rekið neðra skolt inn um drykkjargatið og þannig fest þennan aðskotahlut á viðkvæmum stað.

Náttúrufræðistofnun hefur átt góða samvinnu við Húsdýragarðinn um endurhæfingu fugla í neyð. Þangað lá leiðin með álftina og hún er nú í góðum höndum. Í Húsdýragarðinum fær hún næði til að gróa sára sinna og endurheimta fyrri styrk og í framhaldinu verður henni sleppt aftur út í náttúruna. Þetta litla dæmi sýnir að kæruleysi, líkt og að fleygja frá sér tómri áldollu, getur dregið dilk á eftir sér. Sýnum ábyrgð og skiljum ekki hluti eftir úti í náttúrunni sem geta orðið vinum okkar að grandi!


ÓKN

Og eins og Reykjavík iðandi af lífi sagði í færslu um atvikið: Áhrifarík dæmisaga um hvað umgengni okkar í náttúrunni getur haft mikil áhrif.

Mik­il fækk­un mó­fugla við vegi

Um­ferð um vegi lands­ins virðist hafa um­tals­verð áhrif á fugla­líf og benda nýj­ar niður­stöður rann­sókn­ar til þess að sum­um teg­und­um mó­fugla fækki um meira en helm­ing við vegi þar sem um­ferðin er frá því að vera lít­il og upp í um 4.000 bíla á sum­ar­dög­um.

Þetta má lesa út úr niður­stöðum rann­sókn­ar eða for­könn­un­ar þriggja höf­unda á áhrif­um um­ferðar á fugla­líf, sem birt er á vef Vega­gerðar­inn­ar og um fjallað í Morg­un­blaðinu í dag. Kannaður var þétt­leiki al­gengra mó­fugla við vegi með mis­mikla um­ferð og vökt­un­ar­gögn­um safnað við vegi á Suður­landi 2011-2018.

„Niður­stöður benda til að veg­ir minnki þétt­leika sumra mó­fugla langt út fyr­ir veg­inn. Flest­ir vaðfugl­arn­ir eru sjald­gæfari nær veg­um og sum­um þeirra fækk­ar meira nær um­ferðarþyngri veg­um,“ seg­ir þar.

Skýrslan: Áhrif umferðar á fuglalíf.pdf

Haxi kom í heimsókn

Haxi hagsmunafélag líffræðinema við Háskóla Íslands heimsótti Fuglavernd nú í byrjun árs 2019.

Rúmlega tuttugu manna föngulegur hópur heimsótti okkur föstudagskvöldið 11. janúar. Fengu þau kynningu á starfsemi félagsins og virtist koma flestum skemmtilega á óvart hversu umfangsmikil hún er. Lögð var áhersla á gott samstarf Fuglaverndar og vísindasamfélagsins s.s. hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofunum hringinn í kringum landið og önnur umhverfisverndarsamtök en þess má geta að Fuglavernd er tengiliður milli Umhverfis- og Auðlindaráðuneytis og samstarfsvettvangs umhverfisverndarsamtaka sem eru býsna stór hópur.

Einnig var lögð áhersla á allt það sjálfboðastarf sem félagar Fuglaverndar inna af hendi, bæði við hagsmunagæslu af ýmsum toga, rannsóknir, útgáfu, fræðslu og miðlun en ekki hvað síst þegar taka þarf til hendinni.

Kvöldið flaug hjá í skemmtilegum umræðum við fróðleiksfúsa líffræðinemana. Við hjá Fuglavernd viljum þakka þeim kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til við að takast á við skemmtileg verkefni í framtíðinni, hvar svo sem þessir núverandi líffræðinemar koma til með að velja sér starfsvettvang í framtíðinni.

Líffræðinemar við Háskóla Íslands
Líffræðinemar við Háskóla Íslands II

Dagur sjálfboðaliða

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Fuglavernd er rík af sjálfboðaliðum sem á hverju ári leggja starfseminni til tíma sinn og vinna ólaunuð störf í þágu fuglaverndar, búsvæðaverndar og leggja til starfskrafta sína í fræðslustarfsemi á vegum félagsins.

Á hverju ári koma sjálfboðaliðar saman til vorhreinsunar í Friðlandinu í Vatnsmýrinni fyrstu helgina í apríl, sá hópur hefur kallað sig Hollvini Tjarnarinnar. Í Friðlandinu í Flóa hafa sjálfboðaliðar tekið að sér að veita leiðsögn um friðlandið, vanalega annað hvort á laugardögum eða sunnudögum í júní.

Í vetrarstarfinu eru fræðslu- og myndakvöld veigamikill þáttur og allir þeir sem taka að sér að flytja erindi á vegum Fuglaverndar gera það í sjálfboðavinnu. Þegar félagið stendur fyrir kynningu á starfsemi sinni höfum við líka geta kallað til sjálfboðaliða til að standa vaktina. Þá er utanumhald á garðfuglatalningu sem stendur allan veturinn í 26 vikur og garðfuglahelgin síðustu helgina í janúar í höndum sjálfboðaliða. Fjölmargir ljósmyndarar leggja okkur lið á hverju ári með því að láta okkur í té myndir og myndefni til þess að vekja athygli á brýnum málefnum, allt í sjálfboðastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna setu í stjórn félagsins sem er í sjálfboðastarfi þeirra sem gefa kost á sér. Stjórn félagsins vinnur ályktanir og sendir á opinbera hagsmunaaðila í stjórnsýslunni bæði hvað varðar löggjöf og skipulagsmál.  Stjórnarmenn vinna ötullega að fræðslu á vegum félagsins, með rannsóknum, skrifum og myndum en þess má geta að tímarit félagsins, Fuglar er allt unnið í sjálfboðavinnu þ.m.t. umbrot blaðsins.

Öllum sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið, færum við okkar bestu þakkir.

Til hamingju með daginn.