Fram til jóla er jólatilboð á jólakortum í vefverslun Fuglaverndar. Frí heimsending er á öllum jólakortum.
Lækkað verð. Stök jólakort og kortapakki með 10 kortum.
Fram til jóla er jólatilboð á jólakortum í vefverslun Fuglaverndar. Frí heimsending er á öllum jólakortum.
Lækkað verð. Stök jólakort og kortapakki með 10 kortum.
Rjúpa© Jakob Sigurðsson
Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.
Þá vill Fuglavernd minna á að í gildi er sölubann þannig að óheimilt er að bjóða til sölu, flytja út eða selja rjúpur eða rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því banni eftir.
Árin 2019 – 2021 er heimilt að veiða rjúpu frá og með 1. nóvember til og með 30. nóvember, frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins haustið 2019 og hafa niðurstöðurnar verið kynntar umhverfis- og auðlindaráðherra með bréfi. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er 72 þúsund fuglar. Forsendur matsins byggja á þeirri stefnu stjórnvalda að rjúpna- veiðar skuli vera sjálfbærar.
Náttúrufræðistofnun Íslands leggur þó mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og í ljósi rýmkaðs veiðitíma er ábyrgð veiðimanna mikil.
Meira um: veiðiþol rjúpnastofnsins á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.
Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.
Umhverfisstofnun fer með eftirlit með rjúpnaveiðum.
Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.
Hófsemi veiðimanna er lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum.
Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.
Um svæðið segir í reglugerð 800/2005:
“Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”
Allir fuglar eru friðaðir skv. lögum nr. 64/1994 með undantekningum, sjá veiðitímabil. Álftir hafa verið alfriðaðar frá árinu 1913.
Ólöglegar veiðar eru engu að síður staðreynd á Íslandi eins og meðfylgjandi mynd af álftum skotnum á Íslandi sýnir.
Rannsóknir á álftum (Cygnus cygnus) hafa verið framkvæmdar með röntgenmyndatöku á lifandi fuglum sem hafa vetrarsetu á Bretlandseyjum. Þær rannsóknir sýna högl í 13,2% – 14,9% allra álfta. Líkurnar á því að álft fái í sig högl, aukast með hækkandi aldri fuglsins.
Í rannsókninni kom einnig fram dánarorsök 361 álfta af 962 hringmerktum sem hafa fundist dauðar síðan 1980. Af þeim sem höfðu verið skotnar voru 20 skotnar á Íslandi, fimm á Bretlandi, tvær á Írlandi og ein í Frakklandi.
Rannsóknina í heild má lesa hér:
Draga má þá ályktun að umfang ólöglegra veiða hér á landi sé töluvert miðað við þessa rannsókn.
Fuglavernd fordæmir allar ólöglegar veiðar sama um hvaða fuglategund þar á í hlut.
Myndir úr rannsókninni:
Þann 26. ágúst 2019 sendu forsvarsmenn nokkura náttúruverndarsamtaka bréf til forsætisráðherra, þar sem skorað var á hana að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Bréfið er svohljóðandi:
Kæra Katrín!
Bretland lýsti nýlega yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og því vekur það furðu að ekkert Norðurlandanna hefur gert slíkt hið sama. Gögnin eru skýr, það ríkir neyðarástand og unga kynslóðin okkar grátbiður okkur um að taka ábyrgð. Losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi eykst hratt og er, miðað við höfðatölu, mun meiri en í nágrannalöndum okkar. Þar sem allir norrænu ráðherrarnir koma saman á Íslandi í næstu viku, viljum við hvetja þig til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skuldbinda okkur sem þjóð til að sýna alvöru ábyrgð.Jafnframt að þú hvetjir hina forsætisráðherrana til að gera slíkt hið sama.
Framtíð okkar allra og komandi kynslóða er í húfi. Þú getur sannarlega haft mikil áhrif.
Með vinsemd og virðingu,
Rakel Garðarsdóttir,
Vakandi
Hólmfriður Arnardóttir,
Fuglavernd
Auður Önnu Magnúsdóttir,
Landvernd
Brynhildur Pétursdóttur,
Neytendasamtökin
Jón Kaldal
IWF
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir,
Samband íslenskra framhaldsskólanema
Eyþór Eðvarðsson,
Votlendissjóður
Jóna Þórey Pétursdóttir
Stúdentaráð Háskóla Íslands
Harpa Júlíusdóttir,
Félag Sameinuðu þjóðanna á Ísland
Heiður Magný Herbertsdóttir,
Plastlaus september
Tómas Guðbjartsson,
Félag íslenskra fjallalækna
Stengrímur Þór Ágústsson,
JCI Reykjavík
Pétur Halldórsson,
Ungir umhverfissinnar
Árni Finnsson,
Náttúruverndarsamtök Íslands
Þorbjörg Sandra Bakke,
Foreldrar fyrir framtíðina
Bára Hólmgeirsdóttir,
Aftur
Bréfið er einnig að finna undir Ályktanir & Umsagnir
Skrifstofa Fuglaverndar að Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík verður lokuð vegna sumarleyfa frá og með 1. júlí til og með 15. ágúst.
Á þeim tíma verður tölvupóstur eitthvað lesinn, en stopult svarað. Ef erindið er brýnt má reyna að ná sambandi gegnum samfélagsmiðla.
Lokun á einnig við um vefverslun, þ.e. á þessum tíma verða ekki afgreiddar/afhentar pantir sem berast í gegnum vefverslunina.
Fuglakoðun í Portúgal, samvinnuverkefni Fuglaverndar og Portúgalska fuglaverndarfélagsins, SPEA.
Þann 18. apríl 2019 héldu 12 kampakátir Íslendingar af stað í fuglaskoðun til Miðjarðarhafslandsins Portúgal. Ferðin var samvinnuverkefni Fuglaverndar og Portúgalska fuglaverndarfélagsins, SPEA. Portúgalarnir skipulögðu ferðina heimafyrir, meðan Fuglavernd sá um að koma hópnum út.
Tveir leiðsögumenn skiptu með sér leiðsögninni fyrir okkur og voru þeir hinir liprustu og þægilegir í umgengni og vildu allt fyrir hópinn gera. Rui Machado leiðsagði fyrri hlutann og Hugo Sampaio þann síðari. Undirritaður var síðan fararstjóri af hálfu Fuglaverndar.
Framan af var ferðast um suður og suðausturhluta landsins, en síðan mjökuðum við okkur inntil landsins og héldum okkur nærri landamærum Portúgal og Spánar. Að endingu var strikið tekið þvert yfir landið og síðustu dagana skoðuðum við okkur um við austanverða ósa Tejo (Tagus) árinnar, gegnt höfuðborginni Lissabon.
Veður var mjög fjölbreytt, frá slagveðursrigningu og yfir í brakandi blíðu og hita. Um tíma náðu skil norðan úr Dumbshafi suður til Pýreneaskagans og dældu þangað köldu lofti, meðan sömu skil hituðu upp loftið hér heima og var þá hlýrra hér en suður þar. Þær aðstæður vörðu stutt, sem betur fer fyrir okkur.
Menningunni var að einhverju leyti sinnt meðfram fuglaskoðun. Við heimsóttum til dæmis miðaldaþorpið Mértola á bökkum Guadiana árinnar, þar sem áður voru landamæri við Spán og hinn sögufræga bæ Évora, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir að ferðinni lauk formlega, 28. apríl, hélt meirihluti hópsins til þeirrar merku borgar Lissabon og dvaldi þar í tvo daga.
Alls sáust 170 tegundir fugla í ferðinni, að meðtöldum innfluttum fuglum. Að sjálfsögðu sáu ekki allir þátttakendur allar fuglategundirnar. Hér að neðan eru taldar upp þær tegundir sem a.m.k. einn leiðangursmanna sá og skv. reglunum eru ekki taldir með fuglar sem leiðsögumaðurinn sér einn.
Þess má geta að hvítstorkurinn er ein aðalsöguhetjan í árvekniátakið BirdLife sem ber yfirskriftina #FlightForSurvival. Sjá nánar á: https://flightforsurvival.org/
Brandönd | Rindilþvari | Svölugleða |
Skeiðönd | Nátthegri | Völsungur |
Gargönd | Kúhegri | Gæsagammur |
Stokkönd | Mjallhegri | Kuflgammur |
Kólfönd | Bjarthegri | Snákerna |
Skutulönd | Gráhegri | Brúnheiðir |
Skúfönd | Bognefur | Gráheiðir |
Sandhæna | Flatnefur | Músvákur |
Kornhæna | Svartstorkur | Skassörn |
Dverggoði | Hvítstorkur | Gullörn |
Toppgoði | Flæmingi | Skálmaörn |
Dílaskarfur | Vatnagleða | Haukörn |
Gjóður | Skeggþerna | Hálmsöngvari |
Kliðfálki | Sandspjátra | Sefsöngvari |
Turnfálki | Auðnaspjátra | Reyrsöngvari |
Förufálki | Bjargdúfa | Skopsöngvari |
Smyrill | Holudúfa | Busksöngvari |
Keldusvín | Hringdúfa | Hjálmsöngvari |
Dílarella | Tyrkjadúfa | Hettusöngvari |
Sefhæna | Dílagaukur | Limsöngvari |
Bláhæna | Gaukur | Gullkollur |
Bleshæna | Kattugla | Flekkugrípur |
Grátrana | Múrsvölungur | Skottmeisa |
Dvergdoðra | Fölsvölungur | Toppmeisa |
Trölldoðra | Bláþyrill | Blámeisa |
Háleggur | Býsvelgur | Flotmeisa |
Bjúgnefja | Bláhrani | Hnotigða |
Tríll | Herfugl | Garðfeti |
Þernutrítill | Grænspæta1 | Laufglói |
Vatnalóa | Grænpáfi | Steppusvarri |
Sandlóa | Sunnulævirki | Trjásvarri |
Strandlóa | Sandlævirki | Skrækskaði |
Heiðlóa | Stúflævirki | Bláskjór |
Grálóa | Topplævirki | Skjór |
Rauðbrystingur | Kamblævirki | Bjargkorpungur |
Veimiltíta | Trjálævirki | Dvergkráka |
Lóuþræll | Bakkasvala | Svartkráka |
Sanderla | Bjargsvala | Hrafn |
Hrossagaukur | Landsvala | Gljástari |
Jaðrakan | Brandsvala | Skúfmænir |
Lappajaðrakan | Bæjasvala | Hettuvefari |
Spói | Sandtittlingur | Fagurstrildi |
Fjöruspói | Gulerla | Tígurstrildi |
Lindastelkur | Maríuerla |
Lonchura punctulata 2
|
Flóastelkur | Fossbúi | Gráspör |
Sótstelkur | Músarrindill | Spánarspör |
Stelkur | Glóbrystingur | Trjáspör |
Lyngstelkur | Næturgali | Steinspör |
Tildra | Húsaskotta | Bókfinka |
Hettumáfur | Hagaskvetta | Gulfinka |
Lónamáfur | Steindepill | Grænfinka |
Sílamáfur | Jörfadepill | Þistilfinka |
Klapparmáfur | Urðardepill | Hampfinka |
Kóralmáfur | Bláþröstungur | Álmtittlingur |
Sandþerna | Svartþröstur | Steintittlingur |
Þaraþerna | Mistilþröstur | Korntittlingur |
Dvergþerna | Blæsöngvari |
1 Grænspætu hefur nú verið skipt upp og ný tegund, Picus sharpei (Iberian Green Woodpecker) orðið til.
2 Þessi innflutta tegund hefur ekki enn hlotið íslenskt heiti, heitir á ensku Scaly-breasted Munia.
Fyrir hönd Fuglaverndar: Jóhann Óli Hilmarsson
Til okkar á skrifstofu Fuglaverndar kom í gærmorgun amerískur ferðamaður. Hann hafði hug á því að eyða deginum í borginni og langaði til að láta gott af sér leiða. Hugmynd hans var að veita fólki tækifæri til að taka mynd af sér með mannlegum lunda og láta fé af hendi rakna til Fuglaverndar.
Síðar um daginn kom hann aftur og færði Fuglavernd afraksturinn og þessa skemmtilegu mynd. Við þökkum að sjálfsögðu kærlega fyrir stuðninginn.
Dýradagurinn 22. maí 2019
Þann 22. maí 2019, á alþjóðlegum degi lífbreytileika, verður litrík skrúðganga barna og ungmenna sem hefur það að markmiði að vekja athygli á umhverfismálum og sérstaklega málefnum hafsins. Gangan hefst kl. 14:30 og gengið verður frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn.
Skrúðganga og dagskrá
14:00-14:30 Nemendur klæða sig í búninga og safnast saman á skólalóð Laugarnesskóla
14:30-15:00 Gengið í skrúðgöngu inn í Grasagarðinn (götum verður lokað tímabundið)
15:00-15:30 Dagskrá í Grasagarðinum, stutt ávörp, hugvekja frá nemendum og skemmtun.
Dýradagurinn verður haldinn í fyrsta skipti á Íslandi 22. maí 2019 en þessi dagur er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Dýradagurinn er valdeflandi viðburður sem gefur nemendum tækifæri til að læra um og vekja athygli á m.a. loftslagsbreytingum, plastmengun og fjölbreytni lífríkisins. Gengið verður í litríkri skrúðgöngu frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn þar sem skipulögð dagskrá verður. Viðburðurinn er opinn öllum og er liður í 50 ára afmælisdagskrá Landverndar.
Þema göngunnar er málefni hafsins og er viðburðurinn settur upp sem blanda af umhverfisfræðslu og skapandi vinnu með börnum og ungmennum sem m.a. felst í búninga- og grímugerð úr efnivið sem annars væri fleygt.
Úr hugmyndasmiðju Dr. Jane Goodall
Dýradagurinn er byggður á hugmynd frá Roots & Shoots samtökum Jane Goodall í Taiwan og Argentínu sem kallast „Animal Parade“. Jane Goodall sjálf sýnir þessum viðburðum alltaf mikla athygli og stefnir á að vera viðstödd á Dýradeginum á Íslandi vorið 2020.
Samstarfsaðilar í verkefninu eru Landvernd, Reykjavíkurborg, Grasagarður Reykjavíkur, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Fuglavernd, Norræna húsið, Barnamenningarhátíð, Myndlistaskóli Reykjavíkur og Ragnheiður Maísól Sturludóttir, listakona.
Viðburðurinn: Dýradagurinn
Viðburðurinn á Facebook: Dýradagurinn
Laugardaginn 11. maí bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun við Garðskagavita. Tilefnið var Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori, en hans er minns bæði vor og haust. Trausti Gunnarsson, leiðsögumaður og ritari stjórnar Fuglaverndar hélt utan um viðburðinn. Um 15 manns komu til að skoða sjófugla í sól en heldur nöpru veðri að öðru leyti.
Fuglaskoðun á Reykjanesi er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands, Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness. Kortið er fáanlegt á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Nálgast má eintök af því á skrifstofu Fuglaverndar.
Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.
Kettir veiða helst algenga garðfugla: (smellið á tegundina til að sjá varptíma)
Í Bandaríkjunum árið 2013 hjá The Smithsonian Conservation Biology Institute and the U.S. Fish and Wildlife Service var gerð rannsókn. Þar var talið að útikettir drepi um 2, 4 milljarða fugla á hverju ári og séu þar stærsta dánarorsök af mannavöldum í landinu. Síðan þá hafa svipaðar niðurstöður komið fram í Kanada og í Ástralíu.
Meira um rannsóknirnar:
The impact of free-ranging domestic cats on wildlife of the United States
Estimated Number of Birds Killed by House Cats (Felis catus) in Canada
How many birds are killed by cats in Australia?
Þá hafa kattakragar verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kattarkragar eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel.
Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.
Meira má lesa um kattarkraga:
Birds be safe: Can a novel cat collar reduce avian mortality by domestic cats (Felis catus)?
Kattarkraga má víða finna í vefverslunum t.d. birdsbesafe.com