Auðnutittlingur. @Eyþór Ingi Jónsson

Garðfuglahelgin 2021 – Streymisfundur á Zoom

Streymisfundur um framkvæmd Garðfuglatalningar

Fimmtudaginn 28. janúar kl. 17 verður boðið upp á streymisfund þar sem farið verður stuttlega yfir framkvæmd garðfuglatalningar á Garðfuglahelginni 2021. Nánari upplýsingar um Garðfuglahelgina 2021 má finna hér.

Smelltu á hlekkinn til að tengjast:

https://us02web.zoom.us/j/88943208660?pwd=VnROYmJmblRkT2YwWjZTbnF1OGM1QT09

Hægt verður að koma með skriflegar spurningar.

Allir velkomnir meðan Zoomrúm leyfir!

Dyrhólaós

Fyrirhuguð færsla hringvegar (1) um Mýrdal

Vegagerðin hefur auglýst drög að matsáætlun fyrir færslu hringvegar (1) um Mýrdal 

Nýja vegstæðið liggur við norðanverðan Dyrhólaós sem er á náttúruminjaskrá. Þar eru einu sjávarleirurnar á Suðurlandi og eru þær mikilvægar fyrir fuglalíf, sérstaklega á fartíma. 

Jóhann Óli Hilmarsson fyrrv. formaður Fuglaverndar ritaði skýrslu árið 2013 um fuglalíf við Dyrhólaós en hennar er því miður er ekki getið í drögum VSÓ að matsáætlun fyrir Vegagerðina. Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að vegstæði á bökkum Dyrhólaóss geti haft varanleg og skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn.

Vakin er athygli á því að hægt er að senda inn athugasemdir við drögin til Vegagerðarinnar til 1. febrúar 2021. 

Álftir, með unga á bakinu

Fuglavernd mótmælir þingsályktunartillögu um leyfi til veiða á álftum og gæsum

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar, 312/151 þáltill.: leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma

Fuglavernd mótmælir harðlega tillögu til þingsályktunar um að leyfa veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Álft er alfriðuð tegund og veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir. 

Mikilvægasta gagnrýnin snýr þó að því að farið sé fram á að veiða þessar tegundir þegar þær eru að snúa til baka frá vetrarstöðvum og á varptíma. Fuglavernd telur slíkt algjörlega óverjandi á siðferðilegum forsendum auk þess sem það stríðir gegn fjölþjóðlegum lögum sem gilda víðast hvar á vetrarstöðvum þessara fuglategunda.  

Í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni er bent á að líklega sé álftin skotin ólöglega en rannsóknir í Bretlandi þar sem álftir voru gegnumlýstar sýndu að um 13% íslenskra álfta væru með blýhögl í líkamanum. Sjá: https://fuglavernd.is/2019/10/11/alftir-eru-skotnar-a-islandi-og-thad-er-ologlegt/ 

Þó að þetta ólöglega athæfi eigi sér stað þá rennir það ekki stoðum undir að leyfa það.

Miklu nær væri að finna leiðir til að fæla fugla frá svæðum. Samhliða því að fæla fugla frá þeim svæðum sem þeir mega ekki vera á, mætti koma upp túnum og ökrum sem þeim væri leyft að

bíta, en það mundi eflaust auka árangurinn af fælingaraðgerðum ef fuglarnir gætu farið á önnur tún í staðinn. Það mætti e.t.v. hugsa sér að ríkisstyrkur kæmi til fyrir slík „fuglatún”.

Veiðar á þessum tegundum á varptíma stríða gegn öllum viðurkenndum, alþjóðlegum siðareglum og meginreglum um fuglaveiði og gegn alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt.

Sjá bréf sent nefndasviði Alþingis í heild sinni undir Ályktanir og umsagnir

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Jólarjúpan 2020 – Hvað getum við gert?

Rjúpa. Ljósmynd © Daníel Bergmann

Veiðistofn rjúpu metinn sá minnsti frá því mælingar hófust

Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2020 sýndu í sjálfu sér ekkert óvænt, sums staðar er stofninn í eða nærri hámarki, annars staðar í lágmarki og enn annars staðar einhverstaðar þar á milli. Það sem er óvænt í stöðunni 2020 er viðkomubrestur sem spannar að öllum líkindum allt land frá Strandasýslu í vestri til Norður-Þingeyjarsýslu í austri, þetta eru meginuppeldisstöðvar rjúpu á Íslandi. Í samræmi við það er veiðistofn rjúpu metinn einn sá minnsti síðan mælingar hófust 1995.

Sjá nánar: Vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands: frétt Veiðiþol rjúpnastofnsins 2020 og greinargerð: Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2020.

Ábyrgð neytenda

Hvað getum við gert? Við neytendur berum mikla ábyrgð á því að lágmarka eftirspurn þegar staðan er þessi. Vert að minna á sölubann í fullu gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Því er: “ Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.”

Ábyrgir neytendur hugsa sig líka tvisvar um áður en þeir þiggja rjúpu eða rjúpnaafurðir að gjöf eða taka þátt í neyslu rjúpnaafurða þar sem þær verða í boði.

Það eru fjölmargar aðrar vörur í boði, ekki hvað síst með auknum vinsældum jurtaafurða. Er því ekki tilvalið að gefa jólarjúpunni í ár jólafrí?

Ábyrgð veiðimanna

Hvað geta veiðimenn gert? Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SV landi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands. 

Þessu til viðbótar árið 2020 eru veiðimenn einnig hvattir til að fylgja sóttvarnarreglum og tilmælum sem í gildi eru á hverjum tíma sem og tilmælum lögregluyfirvalda eða aðgerðastjórna almannavarnanefnda einstakra landshluta.

Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglavernd mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum við vesturjaðar friðlandsins við Ástjörn í Hafnarfirði

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda við vesturjaðar friðlandisins við Ástjörn í Hafnarfirði, hefur Fuglavernd sent Hafnarfjarðarbæ mótmæli. Sjá undir Um Fuglavernd > Ályktanir og umsagnir.

Ástjörn í Hafnarfirði er friðlýst svæði síðan 1978 og var það stækkað 1996.

Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Alþjóðlegi farfugladagurinn 10. október

Alþjóðlegi farfugladagurinn er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Vegna hertra samkomutakmarkana á Höfuðborgarsvæðinu þurftum við að aflýsa fyrirhugaðri fuglaskoðun við Bakkatjörn.

Þess í stað verður hér fjallað um farfugla.

Farfuglar

Fuglar búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta flogið. Því geta þeir hæglega valið sér góðan stað til að vera á og einnig flutt sig um set þegar aðstæður breytast. Aðalatriði er að nóg sé af fæðu, en einnig skiptir veður og öryggi miklu máli.

Það kostar mikla orku að fljúga á milli landa. Ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri hjá þeim tegundum sem teljast til farfugla.

Á vetrarstöðvunum er mildara veður og meiri fæða en á norðlægari slóðum yfir veturinn. 

Við sjáum farfugla hópa sig á haustin. Þá eru þeir að byggja sig upp fyrir langflugið og einnig bíða þeir saman eftir ákjósanlegu veðri. Fuglar virðast næmir á veðrið og geta spáð fram í tímann. Það skiptir þá miklu að hafa meðbyr. Hraðskreiðar lægðir hafa þó oft komið farfuglum í bobba, tafið för þeirra þannig að orku þrýtur eða leitt þá af leið.

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum. 

Fargestir

Nokkrar fuglategundir fara hér um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva á Bretlandseyjum eða annars staðar í Vestur-Evrópu. Kunnastar eru þrjár tegundir gæsa: blesgæs (dvelst einkum á Suðurlandsundirlendi og við innanverðan Faxaflóa), helsingi (aðallega norðanlands á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin) og margæs (Faxaflói og Breiðafjörður). 

Gæsir

Lesa meira um Tegundavernd>Gæsir

Skrifstofan lokuð

Skrifstofan lokuð

Skrifstofa Fuglaverndar að Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík verður lokuð á meðan hertar aðgerðir vegna Covid 19 standa yfir á Höfuðborgarsvæðinu.

Hægt er að hafa samband við félagið með tölvupósti á fuglavernd@fuglavernd.is.

Vefurinn og vefverslunin er alltaf opin, við póstsendum um land allt.

Þá má nýta sér samfélagsmiðla félagsins:

Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Tegundavernd: Gæsir

Við höfum tekið saman efni um gæsir undir flokknum tegundavernd.

Gæsir eru meðalstórir fuglar, talsvert stærri en endur, hálslengri og háfættari. Þorri gæsa sem hefur viðkomu hér á landi er mjög norðlægur, það er að segja fljúga langt norður á auðnir heimskautssvæðanna til varps. Áður náðu varpsvæði þessara norðlægu gæsa mun sunnar en vegna ágangs manna, aukins veiðiálags og röskunar búsvæða hafa þau færst norðar.

Á haustin safnast gæsir saman í stóra hópa og hefja farflug suður á hlýrri svæði. Með oddafluginu draga gæsirnar úr loftmótstöðu á löngu flugi sínu yfir höf og lönd.

Hér á landi má finna 5 gæsategundir, blesgæs, grágæs, heiðagæs, helsingja og margæs. Blesgæs og margæs eru alfriðaðar en veiðitímabil er í gildi fyrir grágæs, heiðagæs og helsingja.

Lesa meira: Tegundavernd>Gæsir

Álftir á Rauðasandi. Ljósmynd: © Eygló Aradóttir.

Skrifstofan lokuð í júlí vegna sumarleyfa

Skrifstofa Fuglaverndar að Hverfisgötu 105 verður lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks í júlímánuði.

Frá og með 1. júlí verður skrifstofan lokuð og opnar aftur að loknu sumarleyfi þriðjudaginn 4. ágúst.

Á sama tíma verða pantanir í vefverslunina ekki afgreiddar, afgreiðsla og afhending fer fram þegar skrifstofan opnar á ný.

Hægt er að hafa samband gegnum vefinn, með því að senda tölvupóst á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is eða í gegnum samfélagsmiðla t.d. Facebook Fuglaverndar.

Komdu með: í Hafnarhólma

Hafnarhólmi á Borgarfirði eystra er frábær staður heim að sækja og við hvetjum alla þá sem ætla að leggja land undir fót í sumar að heimsækja Hafnarhólma. Þar er að finna fjölskrúðugt fuglalíf og aðstaða til fuglaskoðunar er með því besta sem gerist á landinu.

Fuglavernd hlaut að erfðagjöf meirihluta í hólmanum árið 2017, en hér má lesa allt um Hafnarhólmann, Búsvæðavernd>Hafnarhólmi.