Fýlsungar í vanda

Fuglavernd hvetur fuglavini  sem eiga leið um Suðurland undir Eyjafjöllum og í  Mýrdal að bjarga fýlsungum.

Nú er runninn upp ágústmánuður, þegar nýfleygir fýlsungar þenja vængi sína og reyna að ná til sjávar. Tímabilið stendur fram yfir miðjan september. Það getur reynst ungun á Suðurlandi, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, þrautinni þyngri að ná á haf út. Björgin þar sem þeir alast upp eru norðan þjóðvegar. Ef lygnt er þegar ungarnir taka fyrsta flugið þá ná þeir stundum ekki til sjávar og lenda á vegum, bílastæðum og í skurðum þar sem þeirra bíður óþarfur, bráður bani.

Fuglavernd hvetur fólk sem á leið um þetta svæði að leggja hönd á plóg við að bjarga ungunum. Gott er að vera vel sýnileg og klæðast jafnvel gulu vesti og hafa með handklæði, létt teppi eða gamalt lak og kassa. Þegar ungi hefur verið fangaður skal sleppa honum af bryggju eða  setja hann í árós eða í lygna á sem að mun endanlega bera hann til sjávar.

 

Starfsmaður RSPB

Hanna Philips, starfsmaður RSPB (breska fuglaverndarfélagsins), verður í Vík við björgun og  við merkingar á fýlsungum til 3. september. Þeir sem vilja slást í för með henni geta haft samband við hana beint, sími +447793036536 eða fengið upplýsingar í  Kötlusetri upplýsingamiðstöðinni í Vík í Brydebúð við Víkurveg. 

 

Hvernig bjargar maður fýlsunga?

Nánari útskýringar á björgun fýlsunga  og hvernig kassa sé best að nota er hægt að lesa um á heimasíðu Fuglaverndar. 

Þeir sem nota Facebook og vilja taka þátt í fýlsungabjörgun geta verið með í lokuðum fýlsungabjörgunarhópi á FB. Vinsamlega meldið ykkur með pósti til:  fuglavernd@fuglavernd.is og þið fáið senda slóð til að skrá ykkur í hópinn.

 

Fuglalíf Tjarnarinnar í Reykjavík 2022

“Fuglalífi Tjarnarinnar hefur hnignað á liðnum árum og áratugum og það er óumdeilt.
Við teljum að þrjár meginskýringar séu á þessari þróun og höfum rökstutt það í fyrri
skýrslum. Skýringar okkar eru:
• fæðuskortur
• afrán
• hnignun búsvæða.

Við höfum áður rætt ítarlega mögulegar mótvægisaðgerðir og viljum í því sambandi
benda á Tjarnarskýrslur frá 2011 og 2112 (Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson
2011 og 2012, sjá líka Ólaf K. Nielsen 2013). Boðskapur okkar er sá sami og fyrr og í
hnotskurn felast tillögur okkar í því að viðhalda umgjörðinni, stunda ræktunarstarf og
hafa eftirlitsmann með Tjarnarfuglunum.”

Árlega kemur út skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar og er hún frlóðleg lesning fyrir vini Tjarnarinnar en ekki alltaf að sama skapi ánægjuleg.

Hér er hægt að lesa skýrsluna um fuglalíf Tjarnarinnar árið 2022

Fugla- og votlendisskoðun Fuglaverndar 18. júní 2023

Sunnudaginn 18. júní héldu 13 félagar í fugla- og votlendisskoðun á Vesturland. Leiðsögumenn voru Polina Moroz og Jóhann Óli Hilmarsson, sem jafnframt ók. Fyrst var numið staðar við Eiðisvatn og Laxá í Leirársveit og skoðað svæði sem Endangered Landscape Programme (Endurheimt landslagsheilda) styrkti Fuglavernd til að skoða, sérstaklega möguleg áhrif endurheimtar votlendis á fuglalíf og gæði vatnasviðs Laxár. Verkefnið er á höndum Polinu. Í leiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður skoðað.

Þarnæst var Ramsar-svæðið Andakíll heimsótt og farið um Hvanneyrarhlöð. Eftir nestisstund við Borgarvog var farið á Mýrarnar og fyrst numið staðar við Kálfalæk. Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Brezka Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu. Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme, sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Verkefnið er framhald verkefnis, þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum og þess vegna þótti við hæfi að stoppa þar.

Eknir voru „hringirnir tveir“ um Mýrarnar og stoppað á fuglaríkum stöðum eins og Ökrum og við Straumfjörð. Við bæinn Krossnes á Mýrum rákumst við á gríðarmikla nýlega framræslu, svo hún er alls ekki úr sögunni, þrátt fyrir allt.

Veður var hið skaplegasta, hægviðri og fór ekki að rigna fyrr en á heimleiðinni.

 

Alls sást 41 fuglategund í ferðinni:

Álft
Grágæs
Brandönd
Rauðhöfðaönd
Urtönd
Stokkönd
Skúfönd
Duggönd
Æðarfugl
Toppönd
Rjúpa
Lómur
Fýll
Dílaskarfur
Haförn
Tjaldur
Sandlóa
Heiðlóa
Lóuþræll
Hrossagaukur
Jaðrakan
Spói
Stelkur
Tildra
Óðinshani
Kjói
Hettumáfur
Stormmáfur
Sílamáfur
Hvítmáfur
Svartbakur
Rita
Dvergmáfur
Kría
Teista
Þúfutittlingur
Maríurela
Svartþröstur
Skógarþröstur
Hrafn
Stari

 

Mói – vefur um líffræði og vernd mófugla á Íslandi – glæsileg heimasíða og fróðleg

Glæsileg og fróðleg heimasíða Rannsóknarseturs HÍ á Suðurlandi. 

Öll landnotkun hefur í för með sér breytingar á lífsskilyrðum þeirra lífvera sem reiða sig á landið sem á að nýta.  Áhrif landnotkunar á lífverur ráðast af umfangi notkuninnar, lífsháttum tegunda og á hversu stóran hluta stofns breytingar verka. Til að lágmarka neikvæð áhrif landnotkunar á lífbreytileika er mikilvægt að huga að þessum þáttum.
Áhrif landnotkunar á lífverur eru breytileg eftir eðli og umfangi. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem Íslendingar eru aðilar að, er sérstök áhersla á að þjóðir viðhafi varúð við uppbyggingu atvinnuvega og innviða sem eru þekktir að því að hafa mikil áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þær gerðir landnotkunar sem þar eru sértaklega tilgreindar eru ræktað land, skógrækt, orkuöflun, flutningskerfi og skipulag þéttbýlis.

Hérlendis er ræktað land umsvifamesta landnotkunin en einnig eru stór svæði nýtt undir byggð og önnur mannvirki, svo sem vegi, sumarhús og raforkumannvirki. Einnig er land í auknum mæli nýtt til skógræktar og undir íþrótta- og útivistarsvæði.

Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi er með fyrirtaks heimasíður þar sem  hugað er að áhrifum nokkurra algengra gerða landnotkunar á íslenska mófugla.

 

Grásleppuveiðar og fuglameðafli – leitin að lausnum

Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.

Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.

Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.

Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.

Hávelllu kerling glöð í bragði. Ljsm Sveinn Jónsson

Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.

Augnbauja vegna fuglameðafla tilraun
The looming-eyes buoy
Augnbauja – tilraun til varnar fuglameðafla

Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.

Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.

Veljið hófsemi við rjúpnaveiðar!

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest að veiðitímabil rjúpu verður frá 1. nóvember – 4. desember í ár.

Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudegi til og með þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu.

Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2022 

Tillögur Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á rjúpu 2022

Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar, en stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár.

Fuglavernd hvetur veiðimenn að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum.

Veiðimenn eru hvattir  til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.

Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.

 

Skógarþröstur

Garðfuglakönnun 2022-23 hefst 30. október

Ljsm. Sindri Skúlason, skógarþröstur.

Garðfuglakönnun er árlegur viðburður Fuglaverndar sem snýst um að telja fugla í garðinum sínum. Fuglar heimsækja mest þá garða þar sem fóður stendur til boða. Könnunin er ætluð öllum sem hafa áhuga á fuglum og er ekki ýkja flókin þó hún virðist vera það við fyrstu sýn.

Það er hægt að telja fugla daglega, vikulega t.d. bara um helgar.

Eyðublöð eru tilbúin á heimasíðu Fuglaverndar sem hægt er að hlaða niður og prenta út ef vill.

Fyrir daglega notkun er oft handhægara að nota rissblað eða stílabók. Dæmi um skráningarblað sem maður notar daglega hér fyrir neðan. Þar sést t.d. að fyrst sáust 5 starar og það var skráð. En þegar næst var skoðað, skömmu seinna, voru þeir orðnir 12. Þá leggur maður ekki saman fimm og tólf heldur notar hærri töluna tólf sem fjölda stara þennan dag. Á þessu blaði eru skráðir þeir fuglar sem eru venjulega í görðum en það geta verið aðrar tegundir sem heimsækja garða reglubundið.  Þegar vikan er liðin tekur maður saman tölurnar, hæstu tölur hverrar tegundar, og færir inn í eyðublaðið sem finna má hér.

Það er ágætt að undirbúa garðfuglakönnunina með því að byrja að æfa sig í talningu og skráningu og þeir sem  fóðra fugla geta hafið fóðrun nokkrum dögum fyrir. Það má nefna að fólk sem bæði fóðrar fugla og tekur þátt í garðfuglakönnuninni lærir ótrúlega mikið um hegðun ýmissa fuglategunda bara með því að fylgjast með þeim.

Hvað gefur maður garðfuglum að éta? Hér eru upplýsingar

Fuglavernd selur einnig prentaða bæklinginn Garðfuglar í vefversluninni

Hefurðu áhuga á fuglum? Taktu þátt í Fuglavernd

Hefurðu áhuga á fuglum? Taktu þátt í Fuglavernd

Langar þig að kynnast fólki sem hefur gaman að  því að fara út með sjónauka og horfa á fugla?

Þá er Fuglavernd rétti vettvangurinn fyrir þig. Fyrir utan að kynnast fólki með sama áhugamál þá muntu styrkja félag  sem:

Starfar að  vernd fuglategunda sem eru í útrýmingarhættu á Íslandi, bæði stað- og farfugla.

Rekur friðlönd fyrir fugla: Sjálfboðaliðar koma að viðhaldi þeirra.

-Vinnur að fræðslu um fugla og búsvæði þeirra: Sjálboðaliðar leiða fuglaskoðanir t.d. í Friðlandi í Flóa.

Heldur myndasýningar um fugla: Sjálfboðaliðar Fuglaverndar sýna myndir og segja frá. Frítt inn fyrir félaga en myndasýningarnar eru einnig opnar almenningi sem greiðir aðgangseyri.

Fuglavernd er vettvangur fyrir fólk sem hefur áhuga á fuglum og náttúruvernd.

Hér geturðu skráð þig í félagið.

ljsm. Guðrún Lára Pálmarsd. Fuglaskpun Friðlandi Flóa

Taktu þátt í Fuglavernd

Taktu þátt í Fuglavernd!

Hvað er Fuglavernd?
Í stuttu máli: Fuglavernd eru frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar. Félagið var stofnað 1963 af áhugamönnum um verndun hafarnarins. Fuglavernd vinnur að því að fuglar og búsvæði þeirra skaðist sem minnst vegna framkvæmda.
Fuglavernd er aðili að Birdlife International sem eru samtök fuglaverndarfélaga um allan heim.
Félagar eru um 1300. Félagið heldur myndasýningar og fyrirlestra um fugla og fer í fuglaskoðun með félögum. Það gefur út tímaritið FUGLAR sem fjallar um fugla og málefni tengd fuglum.
Með aðild tekur þú þátt í fugla- og náttúruvernd.
Hér geturðu sótt um félagsaðild
Hér geturðu lesið um HAFÖRNINN á heimasíðu Fuglaverndar