Ályktun mófuglaráðstefnunnar

Ráðstefna Fuglaverndar sem haldin var 27.desember 2014 ályktaði svohljóðandi: Til mófugla teljast ýmsir algengir fuglar sem verpa dreift í opnu landi. Þetta eru einkum vaðfuglar en einnig teljast rjúpa og nokkrar tegundir spörfugla til mófugla. Á Íslandi eru afar stórir stofnar nokkurra mófuglategunda, t.d. er talið að allt að helmingur allra heiðlóa og spóa í heiminum verpi á Íslandi. Fleiri stofnar eru mjög stórir. Íslendingar bera ábyrgð á að vernda þessa fugla samkvæmt alþjóðasamningum, t.d. samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó) og AEWA samningnum sem tekur til verndar farfugla og votlendisfugla. Þrátt fyrir mikilvægi Íslands og alþjóðlega ábyrgð á mörgum mófuglastofnum er vöktun á þeim og búsvæðum þeirra afar takmörkuð. Brýnt er að þær stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við að vakta fuglastofna fái til þess nauðsynlegt fjármagn.

Mófuglar verpa um allt land í fjölbreyttum búsvæðum á opnu landi. Sérstök áskorun er að vernda fuglastofna sem verpa svo dreift því verndarsvæði geta aðeins náð yfir lítinn hluta stofnanna. Brýnt er að efla og koma á fót verndarsvæðum á lykilstöðum. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til mófugla við skipulag landnotkunar svo þeir geti þrifist samhliða nýtingu.

Örlög mófuglastofna á 21. öld munu endurspegla árangur Íslendinga við að samræma nýtingu og vernd landsins.

Ályktunin er send ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis og landbúnaðarráðuneyti sem og fjölmiðlum. Hér má sjá ráðstefnudagskrána.

Vetrarfuglaganga í Laugardal

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 23. nóvember kl. 10. Gangan er skipulögð í samstarfi Fuglaverndar og Grasagarðs Reykjavíkur. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.

Mæting við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema víða í trjálundum. Í vetur hafa músarrindlar verið tíðir gestir í Grasagarðinum og vitað er um nokkur krossnefspör sem halda til á svæðinu og sjást öðru hvoru. Nýlega sást glóbrystingur á ferli í Laugardal og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Gunnar Þór Hallgrímsson tók þessa mynd af glóbrystingi í fyrravetur.

Ráðstefna um mófugla 29.11

Laugardaginn 29. nóvember hélt Fuglavernd ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggðu á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.

Ráðstefnan bar yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og var haldin í salarkynnum Háskóla Íslands í Odda. Hún hófst á því að lagt var fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo var m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.
Landnotkun var rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo var sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta var svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga. Fundurinn ályktaði og hefur ályktunin verið send til umhverfis- og auðlindaráðherra sem einnig gegnir embætti landbúnaðarráðherra.  Hér má sjá ályktunina. 

Dagskrá
10:10 Fundarstjóri Jón S. Ólafsson opnar ráðstefnuna.
10:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ávarpar ráðstefnuna í forföllum umhverfis- og auðlindaráðherra
10:25 Íslenskir mófuglastofnar, far og vetrarstöðvar
Sett var fram yfirlit yfir íslenskar tegundir og útbreiðslu.
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
10:50 Búsvæðaval og vernd mófugla
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:15 Áhrif landnotkunar á mófuglastofna
Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:40 Léttur standandi hádegisverður
12:10 Stofnmat og vöktun
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
12:35 Verndun og alþjóðlegar skuldbindingar
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
13:00 Fundarstjóri ber upp ályktun fundarins
13:15 Fundi slitið

Ráðstefnan var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis.

Spói: JÓH

 

Námskeið í stafrænni fuglaljósmyndun

Fuglavernd heldur námskeið í fuglaljósmyndun núna í nóvember. Markmið námskeiðsins er að kynna grunnatriði í fuglaljósmyndun, tæki, tækni og nálgun við fugla. Farið verður yfir hvaða myndavélar henta best, hvernig linsur, þrífætur, forrit og fl. tæknileg atriði. Rætt verður um myndbyggingu, felutjöld, ljósmyndun úr bíl og annan útbúnað. Hvað er öðruvísi við að mynda fugla, hvað ber að varast og hvað gerir það eftirsóknarvert. Námskeiðið getur nýst jafnt byrjendum sem lengra komnum sem hafa áhuga á fuglaljósmyndun. Námskeiðið er þrískipt og er haldið dagana 12.,15. og 18. nóv.2014.

Miðvikudagur 12. nóvember frá 18:30-22
Í fyrsta hluta er farið yfir grunnatriðin. Farið verður yfir hvað skiptir máli við val á myndavélum, linsum og aukabúnaði. Stillingar og tæknileg atriði verða rædd. Farið verður í hluti eins og myndbyggingu og hvað þarf að hafa í huga þegar verið er að mynda. Bent verður á góða staði til fuglaljósmyndunar, skoðað hvernig best er að nálgast fugla og farið verður í ýmis hagnýt atriði er snúa að fuglaljósmyndun. Leiðbeinandi í fyrsta hluta er Sindri Skúlason https://www.flickr.com/photos/sindri_skulason/

Laugardagur 15. nóvember frá 12:00-16:00
Í öðrum hluta er farið í vettvangsferð þar sem þátttakendur spreyta sig í fuglaljósmyndun. Farið verður á nokkra góða fuglaljósmyndastaði sem eru eftirsóttir á höfðuborgarsvæðinu. Sýnt hvernig þekking á íslensku fánunni nýtist í að nálgast viðfangsefnið.
Leiðbeinandi í öðrum hluta er Jóhann Óli Hilmarsson, fuglaljósmyndari http://www.johannoli.com/

Þriðjudagur 18. nóvember frá 18:30-22:00
Þriðji hluti er svo helgaður úrvinnslunni og frekari leiðum til að öðlast færni í bæði fuglaljósmyndun og eftirvinnslu. Farið verður yfir helstu atriði við lagfæringu mynda og hvaða forrit er best að nota.
Leiðbeinandi í þriðja hluta er Christopher Lund ljósmyndari http://www.chris.is/

Vinsamlegast skráið þátttöku á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is fyrir miðja næstu viku. Verð er 35.000 fyrir félagsmenn en 39.000 fyrir aðra.

Jóhann Óli Hilmarsson tók þessa mynd af súlum.

Garðfuglakönnun 2014-2015

Nú er komið að því að hefja árvissa garðfuglakönnun Fuglaverndar en Fuglavernd hefur um árabil staðið fyrir rannsókn á garðfuglum og fengið félagsmenn og aðra áhugasama í lið með sér. Markmiðið er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar á samsetningu tegunda yfir vetrarmánuðina. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri. Fylgst er með fuglalífinu frá því í lok október fram í lok apríl – og niðurstöðurnar skráðar á þar til gert eyðublað.

Veturinn 2014-2015 er garðfuglakönnun Fuglaverndar frá 26. október til 25. apríl. Á Garðfuglavefnum má lesa nánar um könnina en hér má nálgast eyðublaðið til að prenta og fylla út – en hér er skjal sem má fylla út rafrænt og senda svo sem viðhengi á fuglavernd@fuglavernd.is.

Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt – engin binding – lítið umstang en mjög skemmtilegt. Ekki er skilyrði að maður gefi fuglunum þó það auki bara á ánægjuna og betra er að byrja seint en aldrei.

Á meðfylgjandi mynd má sjá silkitoppur gæða sér á eplum. Ljósmyndina tók Örn Óskarsson.

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Áskorun til rjúpnaveiðimanna

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár og hvetur Fuglavernd veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar.  Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi. . Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög.

Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og prýðir hún einnig vinsælt jólakort Fuglaverndar.

Til styrktar hinum dæmdu í Gálgahraunsmálinu

Vekjum athygli á tónleikum til styrktar níumenningunum sem á dögunum fengu dóm í Gálgahraunsmálinu. Tónleikarnir verða haldnir núna á miðvikudagskvöld, 29. október kl. 20:30 í Háskólabíói. Hverjum hinna dæmdu var gert að greiða 100.000 kr í sekt auk 150.000 kr í málskostnað. Tilgangur tónleikanna er að safna fé sem afhent verður níumenningunum og jafnframt að sýna baráttu þeirra samstöðu með tónlist og gleði. Miða má nálgast á www.miði.is.

Þessir listamenn koma fram og gefa allir vinnu sína: Hljómsveitin Spaðar- Uni Stefson- AmabAdamA-Snorri Helgasson-Ojbarasta-KK-Dikta-Jónas Sig-Pétur Ben-Prins Póló-Hallveig Rúnarsdóttir óperusöngkona-Bubbi Morthens

Við hvetjum ykkur til að sýna samstöðu með þessu góða fólki sem staðið hefur vaktina í náttúruverndarbaráttunni. Sýnum samhug og mætum í Háskólabíó á miðvikudag.

Ályktun frá Fuglavernd vegna vegagerðar í Gufudalssveit

Stjórn Fuglaverndar hvetur stjórnvöld til að fara að öllu með gát og skoða fleiri möguleika varðandi vegagerð í Gufudalssveit. Félagið lýsir yfir stuðningi við vegagerð í Gufudalssveit með göngum undir Hjallaháls. Með þeirri leið verður til láglendisvegur á þessu svæði og er því ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í hana strax og bæta þannig úr brýnum þörfum Vestfirðinga á betri samgöngum.

Fuglavernd telur, að með þessu megi koma í veg fyrir þau miklu náttúrspjöll, sem myndi hljótast af vegagerð við vestanverðan Þorskafjörð, en hún fer um óspilta náttúru, m.a. eftir Teigsskógi endilöngum, út í sjó og yfir tanga yst á Hallsteinsnesi og yfir eyjar og sker í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar, í nágrenni tveggja arnarsetra. Mikilvægum fæðusvæðum vaðfugla, æðarfugla og varpsvæði arna er því stefnt í hættu. Stíflun Gilsfjarðar ætti að vera mönnum víti til varnaðar á þessu svæði.

Sindri Skúlason tók myndina.

Fuglavernd telur að í náttúruverndarmálum verði menn að horfa til framtíðar og ekki sé réttlætanlegt að fórna náttúruverðmætum, sem auk þess eru á náttúrminjaskrá, skrá um Alþjóðalega mikilvæg fuglasvæði og falla undir lög um verndun Breiðafjarðar og Ramsar-sáttmálann, þegar aðrar leiðir eru fyrir hendi eins og í þessu máli. Göng undir Hjallháls er ein af þeim.

Stjórn Fuglaverndar 8.10.2014

Takið þátt í heiðlóutalningu

Um helgina verður evrópsk heiðlóutalning og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Nú er bara að hafa augun hjá sér og nótera hvar og hvort lóur sjást og þá hve margar. Ekki væri verra ef fólk hefði tök á að kíkja í fjörur eða telja lóur í bíltúrum. Talningarnar þurfa ekki að vera merkilegar. Lóur sem menn sáu á rauðu ljósi á umferðareyjum komu t.d. sterkar inn í síðustu talningu 2008.
Þegar talið er á landi (þ.e. ekki í fjörum), gjarnan í bíltúrum, er gott að skrá hversu margir kílómetrar voru eknir og hversu langt frá vegi séðar lóur voru. Með slíkum upplýsingum má slá á lágmarksþéttleika.

Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is) heldur utanum talninguna svo vinsamlegast sendið honum upplýsingarnar. Við munum svo birta niðurstöðurnar hér á síðunni okkar og samanburð við síðustu talningu sem var í október 2008.

Bjarni Sæmundsson tók meðfylgjandi mynd.

Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru

Þriðjudaginn næstkomandi, 16.sept., verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru.  Við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.
Má einnig sjá á fésbók.

Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli.