Ný stjórn kjörin á aðalfundi

Frá vinstri: Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmallensee, Snæþór Aðalsteinsson, Trausti Gunnarsson og Ólafur Karl Nielsen formaður stjórnar. Á myndina vantar Daníel Bergmann og Erp Snæ Hansen. Ljósmynd: ©Dögg Matthíasdóttir.

Mánudaginn 11. mars 2019 var kjörin ný stjórn á aðalfundi Fuglaverndar.

Jóhann Óli Hilmarsson lét af formennsku en hann hefur verið formaður Fuglaverndar allt frá árinu 1999. Jóhann Óli sat fyrst í stjórn á árunum 1974-1977, þá gerði hann tíu ára hlé en kom aftur inn í stjórnina árið 1987 og tók við formennsku 1999. Í hans stað gaf kost á sér Ólafur Karl Nielsen en hann hefur verið varaformaður félagsins. Þá gaf Sindri Skúlason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Voru þeim í lok fundarins færðir þakklætisvottur fyrir störf sín í þágu félagsins.

Jóhann Óli flutti ársskýrslu, en hana er að finna á: Um Fuglavernd>Ársskýrslur

Ný stjórn var kjörin með einróma lófataki, en hana skipa:

Ólafur Karl Nielsen – formaður, Daníel Bergmann, Erpur Snær Hansen, Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmalensee, Snæþór Aðalsteinsson og Trausti Gunnarsson. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skiptir hún með sér verkum, aðeins formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi félagsins.

Áður en tekið var til hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Jóhann Óli erindi um fuglaskoðun á Borgarfirði eystra og Ólafur Karl Nielsen gerði grein fyrir athugunum á fuglalífi í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.  Um fuglalíf Njarðvíkur má lesa meira á: Verkefnin>Njarðvík.

Fundurinn var fjölsóttur og meðal félagsmanna sem tóku þátt í umræðum á fundum er greinilegur áhugi á að Fuglavernd takist vel til í hlutverki landeiganda á fjölsóttum ferðamannastað. Að leiðarljósi verði náttúruvernd sem er grunnstarfsemi félagsins sem og sjálfbærni og fræðsla en það eru aðrar meginstoðir í stefnu Fuglaverndar.

Fjölsóttur aðalfundur Fuglaverndar.

Dagur sjálfboðaliða

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Fuglavernd er rík af sjálfboðaliðum sem á hverju ári leggja starfseminni til tíma sinn og vinna ólaunuð störf í þágu fuglaverndar, búsvæðaverndar og leggja til starfskrafta sína í fræðslustarfsemi á vegum félagsins.

Á hverju ári koma sjálfboðaliðar saman til vorhreinsunar í Friðlandinu í Vatnsmýrinni fyrstu helgina í apríl, sá hópur hefur kallað sig Hollvini Tjarnarinnar. Í Friðlandinu í Flóa hafa sjálfboðaliðar tekið að sér að veita leiðsögn um friðlandið, vanalega annað hvort á laugardögum eða sunnudögum í júní.

Í vetrarstarfinu eru fræðslu- og myndakvöld veigamikill þáttur og allir þeir sem taka að sér að flytja erindi á vegum Fuglaverndar gera það í sjálfboðavinnu. Þegar félagið stendur fyrir kynningu á starfsemi sinni höfum við líka geta kallað til sjálfboðaliða til að standa vaktina. Þá er utanumhald á garðfuglatalningu sem stendur allan veturinn í 26 vikur og garðfuglahelgin síðustu helgina í janúar í höndum sjálfboðaliða. Fjölmargir ljósmyndarar leggja okkur lið á hverju ári með því að láta okkur í té myndir og myndefni til þess að vekja athygli á brýnum málefnum, allt í sjálfboðastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna setu í stjórn félagsins sem er í sjálfboðastarfi þeirra sem gefa kost á sér. Stjórn félagsins vinnur ályktanir og sendir á opinbera hagsmunaaðila í stjórnsýslunni bæði hvað varðar löggjöf og skipulagsmál.  Stjórnarmenn vinna ötullega að fræðslu á vegum félagsins, með rannsóknum, skrifum og myndum en þess má geta að tímarit félagsins, Fuglar er allt unnið í sjálfboðavinnu þ.m.t. umbrot blaðsins.

Öllum sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið, færum við okkar bestu þakkir.

Til hamingju með daginn.

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Til rjúpnaveiðimanna: Um hófsemi við veiðar og sölubann

©Ljósmynd: Daníel Bergmann

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

Þá vill Fuglavernd minna á að í gildi er sölubann þannig að óheimilt er að bjóða til sölu, flytja út eða selja rjúpur eða rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því banni eftir.

Veiðidagar rjúpu 2018

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2018. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 67 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 57 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Veiðidagar árið 2018 eru 15 og skiptast á fimm helgar, frá föstudegi til sunnudags og hefst veiði síðustu helgina í október sem hér segir:

  • Föstudaginn 26. október til sunnudags 28. október, þrír dagar.
  • Föstudaginn 2. nóvember til sunnudags 4. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 9. nóvember til sunnudags 11. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 16. nóvember til sunnudags 18. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 23. nóvember til sunnudags 25. nóvember, þrír dagar.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005:

“Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort. 

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Hófsemi veiðimanna er lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum.

Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Gæsaveiðitímabil hafið

Ljósmynd: Heiðagæsir á flugi. ©Jóhann Óli Hilmarsson

„Það er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi“

Þessi orð eru höfð eftir Stefáni Jónssyni, alþingismanni, rithöfundi, útvarpsmanni og veiðimanni (1923 – 1990) og eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru skrifuð.

Allir veiðimenn þurfa að hafa gild skotvopnaleyfi og veiðikort þegar gengið er til veiða. Leyfilegt er að skjóta grágæs og heiðargæs. Stofn heiðargæsa er í sögulegu hámarki, um fimmfalt stærri að talið er en grágæsastofninn. Út frá sjálfbærni auðlinda mega skotveiðimenn hafa það í huga ef valið stendur milli þess að skjóta heiðargæs eða grágæs.

Nánar um skynsamlega skotveiði á vef Skotvís.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað.

Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Nánar um veiðitímabil á vef Umhverfisstofnunar.

Blesgæs friðuð

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar
Summertime

Sumarið er tíminn – 11. júní – 11. ágúst

Þegar komið er sumar þá eru fjölmörg störf að vinna úti í náttúrunni í starfi Fuglaverndar. Frá og með 11. júní til og með 11. ágúst er því stopul viðvera starfsfólks á skrifstofunni. Best er að hringja á undan sér til þess að tryggja að einhver sé við, í síma 562 0477.

Í júlí er skrifstofan lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks og á sama tíma verður ekki hægt að afgreiða pantanir sem gerðar eru í vefversluninni.

Hægt er að hafa samband gegnum vefinn eða í gegnum samfélagsmiðla t.d. Facebook Fuglaverndar

Það er margt um að vera, líttu í viðburðadagatalið og komdu út og vertu með.

 

Stefnumótunar- og leiðbeiningarit um virkjun vindorku á Íslandi

Engin stefna hefur verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi og því réðst Landvernd í það verkefni að semja stefnu sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.  Vonast er til að framkvæmdaaðilar og sveitarfélög geti nýtt sér þessa stefnumörkun til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Einnig vonast samtökin til að stefnan marki upphafið af almennri umræðu um málefnið hér á landi.

Landvernd leggst gegn vindorkuvirkjunum og –verum á mikilvægum fuglasvæðum (IBA svæðum) og hvetur til rannsókna á farleiðum fugla (þ.m.t. dægurfari) og varpstöðvum mófugla áður en slík mannvirki koma almennt til álita.

Mikilvæg fuglasvæði

Á Íslandi er skráð 121 mikilvægt fuglasvæði (IBA svæði, e. Important Bird Areas) og vísast til nánari upplýsinga um þau í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr.55.  Fuglavernd BirdLife Iceland hefur skráð IBA svæði og eru hjá BirdLife International skráð 99 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði á Íslandi.

Almennt er þekking á farleiðum fugla hér á landi takmörkuð, hvort heldur sem er milli varp- og vetrarstöðva eða milli fæðustöðva og náttstaða (dægurfar). Hérlendis er mjög hár þéttleiki verpandi mófugla og þarf að huga að því við staðsetningu vindorkuvirkjana en mannvirkjagerð og hávaði getur haft veruleg áhrif á varp mófugla.

 

Nánar má lesa um Verkefnin > Virkjun vindorku

Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Teista ©Daníel Bergmann

Hagsmunagæsla

Fuglavernd gætir hagsmuna náttúruverndar á opinberum vettvangi, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við önnur félagasamtök á sviði umhverfis- og náttúruverndar.  Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar hefur verið tengiliður félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndar við Umhverfisráðuneyti.

Undir Verkefnin>Hagsmunagæsla má lesa um alla þá snertifleti sem eru við opinbera aðila, í starfshópum, nefndum, ráðum og um athugasemdir sem Fuglavernd sendir frá sér m.a. vegna skipulagsmála.

18. 01.2018 var skipaður fulltrúi frálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverndar í starfshóp um lagabreytingar 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Árni Finnsson var skipaður.

21. 11.2017 var skipaður fulltrúi frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverdar í starfshóp um bætt umhverfi endurvinnslu, á vegum umhverfisráðherra. Starfhópurinn skal skila tillögum fyrir 1. júní 2018. Hildur Hreinsdóttir var skipuð.

 

Hófsemi veiðimanna lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2017. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 57 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 40 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Viðkoma rjúpunnar var metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars. Hlutfall unga reyndist vera 78% á Norðausturlandi og 79% á Suðvesturlandi, þetta er ágæt viðkoma. Miðað við niðurstöður rjúpnatalninga er stærð rjúpnastofnsins  í meðallagi víðast hvar um land 2017 en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi, þar er stofninn í lágmarki. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2017 var metin 173 þúsund fuglar, en var 132 þúsund fuglar 2016. Framreiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fuglar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og ofmeta stærð stofnsins nær örugglega.

Sjá nánar: Tillögur um rjúpnaveiði 2017

Veiðidagar rjúpu 2017

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:

  • föstudaginn 27. október, laugardaginn 28. október og sunnudaginn 29. október,
  • föstudaginn 3. nóvember, laugardaginn 4. nóvember og sunnudaginn 5. nóvember,
  • föstudaginn 10. nóvember, laugardaginn 11. nóvember og sunnudaginn 12. nóvember,
  • föstudaginn 17. nóvember, laugardaginn 18. nóvember og sunnudaginn 19. nóvember.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi.

Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005: “Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. 

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort.

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

 

Fyrirhuguð stækkun friðlands í Þjórsárverum

Fyrirhuguð stækkun Þjórsárvera – skilafrestur umsagna er 3. október 2017

Fuglavernd styður heilshugar og fagnar tillögu að stækkun friðlands í Þjórsárverum. Nú verður loks stigið skrefið til fulls, sem stóð til að stíga sumarið 2013, öll verin eru friðlýst og tenging verður við friðland í Guðlaugstungum norðvestan Hofsjökuls og fyrirhugað friðland í Kerlingarfjöllum suðvestan Hofsjökuls.

Nú verður Eyvafen friðlýst og þá er vonandi búið að slá endanlega út af borðinu allar hugmyndir um frekari lón í verunum (Norðlingaölduveitu), en Kvíslaveitur hafa nú þegar breytt vatnsbúskap veranna umtalsvert. Það hefði vissulega verið gaman, hefði friðlandið teygt sig niður með Þjórsá og Dynkur verið friðlýstur í leiðinni, en hann er einn stærsti, tignarlegasti og fallegasti foss landsins.  En hans tími mun koma.

Sjá frétt á vef UAR: Tillaga að stækkun friðlands Þjórsárvera til kynningar

Frestur til að skila umsögnum og athugasemdum vegna tillögunnar er til 3. október næstkomandi og má senda þær á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.