Fýll © Daníel Bergmann

Fýlsungar á þurru landi

Fýlsungar eru að yfirgefa hreiður frá lok águst fram í miðjan september. Þeir svífa frá syllunni sinni  og ná oft ekki út í sjó og lenda þá á landi milli varpstöðva og sjávar. Eftir gott sumar er nú urmull af þeim í Mýrdalnum og vafalaust víðar. Þeir eru í tugum á götum Víkur þegar þetta er ritað.

Fæstum fýlsungum þarf að bjarga, þeir spjara sig oftast sem hafa lent á söndum, túnum, engjum
eða viðlíka “flugbraut”. Þeir léttast á nokkrum dögum og verja tíma sínum við að styrkja vængi.
Þeir sem lenda á bílastæðum, vegum, skógi, háu grasi og í lúpínubreiðu gæti hinsvegar þurft að bjarga.

ATH: Þegar fýlsungar verja sig þá spýja eða æla þeir lýsiskenndu magainnihaldi sínu. Bunan getur verið
hátt í 2 m á lengd. Það er vissara að varast að lenda í bununni.

Flesta fýlsunga sem lenda á vegum þarf ekki að flytja á brott, yfirleitt er nóg að koma þeim af vegi
sjávarmegin við veginn.

EF ÞAÐ ÞARF AÐ FANGA FÝLSUNGA t.d. í þéttbýli, skóglendi, bílastæði, lúpinubreiðu eða af vegi þá er best að vera með réttan útbúnað.

Hér má sjá viðtal í Landanum á RÚV við hóp sjálfboðaliða sem fór í björgunaleiðangur

FÖT: Föt sem má fórna í fýla-ælu, gúmmíhanskar.  Áberandi lit á fatnaði ef verið er við vegi, t.d. áberandi gul vesti.

VERKFÆRI:
Handklæði til að fanga fýlsunga með.
Kassar 2 – 20 kassar til að setja ungana í.
Aðeins má setja einn fýl í kassa. Ef þeir eru tveir eða fleiri þá geta þeir ælt á hvorn annan og verða útataðir í lýsi.
Þá eru þeir í vondum málum.
Bíll og jafnvel kerru.

HVAR Á AÐ SLEPPA FÝLSUNGA: Alls ekki í sandfjöru þar sem er brim, þá velkjast þeir bara um og drepast.
Það verður að sleppa þeim þar sem þeir geta náð að svífa niður á sjávarflöt.
Lygnar ár og víðir ósar koma til greina. Jökulsár eru ekki lygnar ár.

Sleppistaðir í kringum Mýrdal og undir Eyjafjöllum:
Dyrhólaey, neðri ey og Dyrhólaós. Lónin hjá Höfðabrekku.
Sandar sunnan lúpínubreiða.
Holtsós. Skógaá.

Fýlsungar eru stríðaldir af foreldrum sínum svo þeir verða of þungir til flugs. Fýlavarp hefur teygt sig lengra inn til landsins, fjær sjó en hentugt er fyrir fýlsunga. En fýlum hefur fjölgað á s.l. áratugum og fýlahjón leita sér að góðu hreiðurstæði í björgum.
Nokkrar ástæður eru fyrir vali á björgum fjarri sjó. Þar má telja að sjóbjargastæðin eru frátekin, viðkomandi fýll ólst upp á syllu t.d. í Markarfljótgljúfrum og leitar heim.
Fýlar geta orðið allt að 60 ára gamlir og geta komið upp einum unga árlega.

Við þiggjum með þökkum ábendingar um góða sleppistaði fýlsunga um land allt.

Meiri fróðleikur um fýla

Ragnheiður Blöndal og Sigurjón Halldór Birgisson bjarga fýlsungum, frétt á visir.is

 

Fýll. Ljósm: Jóhann Óli Hilmarsson
Veggfóðrari úr járni með lítinn fugl

Sólablómafræ ekki til í vefbúðinni sem stendur

Sólblómafræ hafa klárast í vefbúðinni okkar hjá Fuglavernd en munu verða komin aftur til sölu þegar nær dregur vetri. Sama er að segja um fóðrara og annað tengt fóðrun fugla. Munum við auglýsa það hér á fréttaveitu okkar.
Við viljum benda á að þegar hlýindi eru að sumri er ekki mjög gott að fóðra fugla sem þá koma margir saman á litlum fleti og þá eru meiri líkur á smitum milli þeirra, ef einhverjir fuglasjúkdómar eru á ferli. Einnig er gnótt ætis að sumri nema það sé þeim mun kaldara. Þegar kólna fer þá er kominn tími til að athuga með fóðrun.

Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar.

Formaður Fuglaverndar Ólafur Karl Nielsen sæmdur Fálkaorðunni

Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur og formaður Fuglaverndar var sæmdur Fálkaorðunni við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær 17. júní 2021. Heiðurinn hlýtir hann vegna rannsókna á íslenskum fuglum, ekki síst fálka og rjúpu, og miðlun þekkingar á því sviði.
Það er auðvitað viðeigandi að Ólafur K. beri Fálkaorðu á brjósti.

Hér er hann Ólafur K. í góðum félagasskap á Bessastöðum í gær.

Rita. Ljósmynd © Jóhann Óli Hilmarsson.

Aðalfundur Fuglaverndar 2021 og frestir vegna hans

Stefnt er að því að halda aðalfund Fuglaverndar fyrir starfsárið 2020 fimmtudaginn 15. apríl nk. Staður og stund verða nánar auglýst síðar.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar.
Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annað hvert ár gengur formaður úr stjórn. Í ár er sæti formanns laust og þrjú sæti í stjórn, en öll gefa kost á sér áfram. Sjá: Skrifstofa og stjórn.

Tillögum að breytingum á samþykktum félagsins þarf að skila inn fyrir 15. febrúar.  Sjá: lög og siðareglur félagsins.

Framboðum í stjórn og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti á netfang Fuglaverndar eða bréfleiðis til stjórnar.

Tölvupóstfang Ólafs Karls Nielsen formanns er okn@ni.is og félagsins fuglavernd@fuglavernd.is.

Hafnarhólmi apríl 2018

Aðalfundi 2020 frestað

Fyrirhuguðum aðalfundi Fuglaverndar hefur verið frestað um óákveðinn tíma, vegna frekari takmarkana á samkomubanni. Vonir standa til þess að hægt verði að finna nýja dagsetningu og auglýsa fundinn með löglegum fyrirvara, fyrir sumardaginn fyrsta, sem er þann 23. apríl 2020.

Samkvæmt lögum félagsins hefur aðalfundur æðsta vald í málefnum félagsins.  Hann skal halda fyrir sumardaginn fyrsta ár hvert og skal dagskrá hans vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
  2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
  3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 7. gr.
  4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
  5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
  6. Ákvörðun árgjalds.
  7. Önnur mál.

Fugl dagsins á Fésbók – skrifstofa lokuð

Lóuþræll. Ljósmynd: © Sindri Skúlason

Fugl dagsins hjá Fuglavernd

Á Fésbókarsíðu Fuglaverndar mun birtast ein færsla á dag um fugl dagsins meðan á samkomubanni stendur.

Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum, til að stytta fólki stundir og kannski aðeins að dreifa huganum, þó ekki sé nema í stutta stund á hverjum degi. Ef samkomubannið stendur í fjórar vikur þá komumst við yfir 28 fuglategundir alls, við þurfum þá að velja einhverjar þrjár sem eru ekki í hópi ábyrgðartegunda. Hægt verður að koma með ábendingar á Fésbókarsíðunni. Ef samkomubannið stendur lengur, þá finnum við bara til fleiri fuglategundir, það er af nógu að taka. 

Skrifstofa félagsins lokuð

Skrifstofa félagsins að Hverfisgötu 105 í Reykjavík verður lokuð á meðan samkomubannið er í gildi, en starfsfólk félagsins mun ýmist vera við vinnu þar, eða heimavið.

Hægt er að ná í starfsfólk félagsins í gegnum tölvupóst og fuglavernd@fuglavernd.is og gegnum samfélagsmiðla. 

Vefurinn er alltaf opinn og pantanir í vefverslun verða afgreiddar og afhentar eftir samkomulagi við viðskiptavini. 

 

Akurey friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri Reykjavíkur undirrituðu formlega friðlýsingu Akureyjar á Kollafirði við Eiðsgranda í dag, 3. maí 2019.

Þetta er fyrsta friðlýsing sem Guðmundur Ingi undirritar en nú stendur yfir átak friðlýsinga hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Búsvæðavernd

Akurey er að finna á nýjum vef, www.fuglavernd.is/sjofuglabyggðir en þar hefur Fuglavernd tekið saman upplýsingar um 37 sjófuglabyggðir við Ísland sem eru öll alþjóðlega mikilvæg, oftast vegna fjölda þeirra sjófugla sem reiða sig á þau.

Akurey er lítil, um 6,6 hektarar að stærð, láglend og flöt eins og aðrar eyjar á Kollafirði, hæsti punktur er 10 m.y.s. Eyjan er mjög gróskuleg og stórþýfð og einkennist af lundavarpinu sem þar er. Fjaran er stórgrýtt. Aðal varpfuglinn er lundi, um 20.000 pör í góðum árum, jafnframt verpur eitthvað af æðarfugli, fýl, hettumáfi, sílamáfi, svartabaki, teistu og kríu.

Í Akurey er alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð, því þar verpa yfir 15.000 pör af lunda, um 0.7% af íslenska stofninum. Einnig verpa þar ýmsir sjófuglar í minna mæli, eins og sílamáfuræður og teista.

Á válista fugla Náttúrufræðistofnunar Íslands eru tegundir sem verpa í Akurey flokkaðar; tegund í bráðri hættu (CR): lundi, tegundir í hættu (EN): fýllsvartbakurteista og tegundir í nokkurri hættu (VU): kríaæðarfugl.

Næstu skref

Fuglavernd fagnar þessar friðlýsingu Akureyjar, en fyrst skoraði Fuglavernd á Reykjavíkurborg að friðlýsa Akurey og Lundey með bréfi þann 10. febrúar 2014, eins og sjá má undir /umsagnir.

Vernd mikilvægs búsvæðis tegundar í bráðri útrýmingarhættu er mjög mikilvægt skref, en á borði Umhverfis- og auðlindaráðherra liggur áskorun frá 12. nóvember 2018 um aðgerðir til varnar svartfuglum.

Ný stjórn kjörin á aðalfundi

Frá vinstri: Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmallensee, Snæþór Aðalsteinsson, Trausti Gunnarsson og Ólafur Karl Nielsen formaður stjórnar. Á myndina vantar Daníel Bergmann og Erp Snæ Hansen. Ljósmynd: ©Dögg Matthíasdóttir.

Mánudaginn 11. mars 2019 var kjörin ný stjórn á aðalfundi Fuglaverndar.

Jóhann Óli Hilmarsson lét af formennsku en hann hefur verið formaður Fuglaverndar allt frá árinu 1999. Jóhann Óli sat fyrst í stjórn á árunum 1974-1977, þá gerði hann tíu ára hlé en kom aftur inn í stjórnina árið 1987 og tók við formennsku 1999. Í hans stað gaf kost á sér Ólafur Karl Nielsen en hann hefur verið varaformaður félagsins. Þá gaf Sindri Skúlason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Voru þeim í lok fundarins færðir þakklætisvottur fyrir störf sín í þágu félagsins.

Jóhann Óli flutti ársskýrslu, en hana er að finna á: Um Fuglavernd>Ársskýrslur

Ný stjórn var kjörin með einróma lófataki, en hana skipa:

Ólafur Karl Nielsen – formaður, Daníel Bergmann, Erpur Snær Hansen, Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmalensee, Snæþór Aðalsteinsson og Trausti Gunnarsson. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skiptir hún með sér verkum, aðeins formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi félagsins.

Áður en tekið var til hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Jóhann Óli erindi um fuglaskoðun á Borgarfirði eystra og Ólafur Karl Nielsen gerði grein fyrir athugunum á fuglalífi í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.  Um fuglalíf Njarðvíkur má lesa meira á: Verkefnin>Njarðvík.

Fundurinn var fjölsóttur og meðal félagsmanna sem tóku þátt í umræðum á fundum er greinilegur áhugi á að Fuglavernd takist vel til í hlutverki landeiganda á fjölsóttum ferðamannastað. Að leiðarljósi verði náttúruvernd sem er grunnstarfsemi félagsins sem og sjálfbærni og fræðsla en það eru aðrar meginstoðir í stefnu Fuglaverndar.

Fjölsóttur aðalfundur Fuglaverndar.

Dagur sjálfboðaliða

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Fuglavernd er rík af sjálfboðaliðum sem á hverju ári leggja starfseminni til tíma sinn og vinna ólaunuð störf í þágu fuglaverndar, búsvæðaverndar og leggja til starfskrafta sína í fræðslustarfsemi á vegum félagsins.

Á hverju ári koma sjálfboðaliðar saman til vorhreinsunar í Friðlandinu í Vatnsmýrinni fyrstu helgina í apríl, sá hópur hefur kallað sig Hollvini Tjarnarinnar. Í Friðlandinu í Flóa hafa sjálfboðaliðar tekið að sér að veita leiðsögn um friðlandið, vanalega annað hvort á laugardögum eða sunnudögum í júní.

Í vetrarstarfinu eru fræðslu- og myndakvöld veigamikill þáttur og allir þeir sem taka að sér að flytja erindi á vegum Fuglaverndar gera það í sjálfboðavinnu. Þegar félagið stendur fyrir kynningu á starfsemi sinni höfum við líka geta kallað til sjálfboðaliða til að standa vaktina. Þá er utanumhald á garðfuglatalningu sem stendur allan veturinn í 26 vikur og garðfuglahelgin síðustu helgina í janúar í höndum sjálfboðaliða. Fjölmargir ljósmyndarar leggja okkur lið á hverju ári með því að láta okkur í té myndir og myndefni til þess að vekja athygli á brýnum málefnum, allt í sjálfboðastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna setu í stjórn félagsins sem er í sjálfboðastarfi þeirra sem gefa kost á sér. Stjórn félagsins vinnur ályktanir og sendir á opinbera hagsmunaaðila í stjórnsýslunni bæði hvað varðar löggjöf og skipulagsmál.  Stjórnarmenn vinna ötullega að fræðslu á vegum félagsins, með rannsóknum, skrifum og myndum en þess má geta að tímarit félagsins, Fuglar er allt unnið í sjálfboðavinnu þ.m.t. umbrot blaðsins.

Öllum sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið, færum við okkar bestu þakkir.

Til hamingju með daginn.

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Til rjúpnaveiðimanna: Um hófsemi við veiðar og sölubann

©Ljósmynd: Daníel Bergmann

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

Þá vill Fuglavernd minna á að í gildi er sölubann þannig að óheimilt er að bjóða til sölu, flytja út eða selja rjúpur eða rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því banni eftir.

Veiðidagar rjúpu 2018

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2018. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 67 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 57 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Veiðidagar árið 2018 eru 15 og skiptast á fimm helgar, frá föstudegi til sunnudags og hefst veiði síðustu helgina í október sem hér segir:

  • Föstudaginn 26. október til sunnudags 28. október, þrír dagar.
  • Föstudaginn 2. nóvember til sunnudags 4. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 9. nóvember til sunnudags 11. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 16. nóvember til sunnudags 18. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 23. nóvember til sunnudags 25. nóvember, þrír dagar.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005:

“Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort. 

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Hófsemi veiðimanna er lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum.