Gönguferðir um Krýsuvíkursvæðið 9. maí

Fimmtudaginn 9. maí bjóða náttúruverndarsamtök alla náttúruunnendur velkoma til Krýsuvíkur til að skoða þetta fallega svæði. Kynnisferðir bjóða upp á sætaferðir frá BSÍ kl. 10:15 með viðkomu á N1 Hafnarfirði kl. 10:30 – en þeir sem ætla að nýta sér það sendi okkur línu á fuglavernd@fuglavernd.is eða skrái sig á fésbók síðu atburðarins.

Dagskrá hefst í Seltúni kl. 11:00.

Boðið verður upp á nokkrar stuttar og fræðandi gönguferðir um svæðið þannig að fólk geti valið þá göngu sem það vill eða farið í allar göngurnar, sem verða leiddar af staðkunnugum.

1. Hverasvæðið í Seltúni kl. 11:00
Gengið um litríkt hverasvæðið og fyrirbrigði þess skoðuð í fylgd jarðfræðings.
Seltún hafnaði í orkunýtingarflokki í rammaáætlun.

2. Sveifluháls – Pínir kl. 11:30
Gengið verður upp að hvernum Píni ofan við Seltún. Örlítið ofar á hálsinum fæst
gott útsýni yfir fyrirhugað virkjanasvæði og næsta umhverfi.

3. Grænavatn – Austurengjahver kl. 12:15 – 13:30.
Frá hinu iðagræna Grænavatni og upp í Austurengjar er stutt ganga. Austurengjahver var settur
í biðflokk í rammaáætlun.

 

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruvaktin, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Framtíðarlandið, Fuglavernd og fleiri náttúruverndarsamtök.

Dagsferð í fuglaskoðun á Reykjanesi

Laugardaginn 11. maí verður Fuglavernd með fuglaskoðunarferð um Reykjanesið. Helgi Guðmundsson leiðsögumaður og fuglaáhugamaður leiðir ferðina. Lagt verður af stað frá Höfða klukkan 9:00 að morgni þess 11. maí stundvíslega en áætlaður komutími til baka verður um klukkan fimm. Fólk þarf að muna að taka með sér sjónauka, jafnvel fuglabók, nesti fyrir allan daginn og gott er að hafa heitt á brúsa. Skráning er á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477 og kostar kr. 8000 kr. fyrir félagsmenn og kr. 10.000 fyrir utanfélagsmenn. Farið verður í ferðina ef 12 skrá sig en hámark eru 17 þátttakendur. Bendum þó á að síðasta vor seldist upp á nokkrum dögum.

Eftirfarandi er stutt leiðarlýsing birt með fyrirvara.
Farið verður frá Höfða kl. 09:00 og litið til fugla á Álftanesi þar sem margæsir eru nú í þúsundavís og stórir hópar af kríum og rauðbrystingum. Ef veður leyfir verður jafnframt skoðað flórgoða- og hettumávavarp á Ástjörn.
Ekið suður með sjó og numið staðar á helstu fuglaskoðunarstöðum, s.s. við höfnina í Garði, þar sem e.t.v. má sjá skrofur og súlur fljúga hjá. Við Garðskaga má jafnframt búast við sjófuglum og enn fremur safnast þar oft fjöldi vaðfugla í fjörur. Í Sandgerði eru einnig fjölmargir vaðfuglar og má að líkindum sjá sanderlur í fjörum og óðinshana á tjörnum.
Því næst verður ekið í átt að Ósabotnum og komið við í Höfnum. Þá verður litið til hafs við Valahnjúk á Reykjanesi þar sem Eldey blasir við skammt undan landi. Í Valahnjúk verpa m.a. fýll, rita og teista.
Ekið til austurs um Grindavík og Ögmundarhraun að Krýsuvíkurbergi. Í berginu verpa allir íslenskir svartfuglar: lundi, álka, langvía og stuttnefja, auk fýls og ritu. Ef veður og færð leyfir verður ekið niður að bjarginu og svipast um eftir bjargfuglum. Síðan verður haldið hjá Kleifarvatni til Reykjavíkur.

Þessa mynd af óðinshana tók Jakob Sigurðsson.

Fuglaskoðun á Álftanesi 12. maí

Í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum munum við vera með fuglaskoðun á Álftanesi sunnudaginn 12.maí. Alflestir farfuglarnar eru þá komnir. Ólafur Torfason mun leiða hópinn en lagt verður af stað frá Kasthústjörn klukkan 13:00 stundvíslega.

Ljósmyndin er af margæs en nú er mikið af þeim á Álftanesi og eru þær hér fargestir vor og haust. Okkar fargestir eru af undirtegund sem er ljósari á kviðinn og verpa á kanadísku Íshafseyjunum en hafa vetursetu á Írlandi. Aðalfæða þeirra er marhálmur, og draga þær nafn sitt af því, en þær sækja oft í tún á vorin og etur sjávarfitjung og grænþörunga. Margæsin er minnsta gæsin hér á landi, aðeins lítið eitt stærri en stokkönd. Höfundur myndarinnar er Eyþór Ingi Jónsson.

Allir velkomnir – munið að taka sjónaukan með. Það má svo gerast félagi að Fuglavernd með því að senda okkur póst á fuglavernd@fuglavernd.is en hér má sjá allt um aðildina: https://fuglavernd.is/felagar/

Hér er slóðin á vef alþjóðlega farfugladagsins: http://www.worldmigratorybirdday.org/

Fuglaganga í grasagarðinum 5.maí

Sunnudaginn 5. maí verður Grasagarðurinn í samstarfi við Fuglavernd með fuglagöngu um garðinn og nágrenni. Þetta er um eins og hálfstíma ganga en lagt verður af stað frá aðalinngangi Grasagarðsins kl. 11. Hannes Þór Hafsteinsson leiðir gönguna. Eyþór Ingi tók þessa fallegu mynd af glókolli en nokkur pör eru í garðinum. 

 

Græn ganga 1. maí

Miðvikudaginn 1. maí verður græn ganga á vegum samtaka um náttúru- og umhverfisvernd. Gangan verður farin niður Laugaveg í kjölfar kröfugöngu verkalýðsfélaganna. Í lokin verður grænum fánum stungið niður á Austurvelli við Alþingi. Göngumenn eru hvattir til að klæðast grænu. Hist verður á Snorrabraut við Hlemm kl. 13. Gangan hefst hálftíma síðar.

Efnt er til grænnar göngu til að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og til að minna á að þingið hefur ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar. Á því kjörtímabili sem nú er að hefjast verða teknar ákvarðanir um mörg verðmæt náttúrusvæði, t.d. Mývatn og Reykjanesskaga. Landskipulagsstefna sem gerir ráð fyrir háspennulínu og virkjunum á hálendinu mun koma til afgreiðslu hjá Alþingi og fyrir liggur krafa um stórar háspennulínur m.a. á Reykjanesskaga, í Skagafirði og víðar á Norðurlandi. Krafa grænu göngunnar er að náttúru Íslands verði hlíft.

Í nýliðinni kosningabaráttu voru umhverfismál lítið rædd þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni lítinn stuðning við áframhaldandi uppbyggingu virkjana og stóriðju. Þannig reyndust 44% aðspurðra andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% fylgjandi í nýlegri könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Landvernd. Í sömu könnun sögðust 51,3% vera andvíg því að fleiri álver yrðu reist hér á landi en 30,9% voru því hlynnt.

Eftirfarandi samtök standa að grænu göngunni: Fuglavernd, Landvernd, Ungir umhverfissinnar, Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Náttúruverndarsamtök Íslands, Framtíðarlandið, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Náttúruvaktin, Sól á Suðurlandi, Eldvötn og Græna netið.

Jóhann Óli Hilmarsson tók myndina af flórgoðunum.

Ályktanir aðalfundar Fuglaverndar 20.04.13

Fundurinn setti fram tvær ályktanir:
1. Ályktun gegn virkjun við Mývatn. 
Aðalfundur Fuglaverndar hvetur til þess að nú þegar verði hætt við öll frekari áform um jarðvarmavirkjanir við Mývatn.  Það steðja margar ógnir að einstöku lífríki vatnsins. Fleiri borholur í Bjarnarflagi munu hafa afar neikvæðar afleiðingar. Fuglvernd hvetur Landsvirkjun til að hætt nú þegar við áform um virkjun við Mývatn.

Greinargerð: Vatnasvæði Mývatns og Laxár hafa verndargildi á heimsmælivarða og eru einn allra mikilvægasti fuglastaður á Íslandi og þar verpa m.a.15 tegundir anda.

  • Við Mývatn er mesti varpstaður flórgoða í Evrópu, og 50 % allra flórgoða á Íslandi verpa við vatnið.
  • Nánast allar hrafnsendur á Íslandi halda til á Mývatni yfir 90% stofnsins.
  • Mývatn og Laxá stærsta og mesta varp straumanda í heiminum en straumendur finnast hvergi annars staðar í Evrópu.
  • Mývatn er geysi mikilvægur varpstaður  óðinshana á íslandi og í Evrópu
  • Mývatn og Laxá eru einu varpstaðir húsandar  í Evrópu utan fáeinna para sem verpa við aðrar ár í nágrenni vatnsins.

Forsenda hins einstaka lífríkis við Mývatn er sú að volgt, steinefnaríkt grunnvatn sérstaklega að kísli, hripar hægt en stöðugt í grunnt stöðuvatnið og skapar einstök skilyrði fyrir kísilþörunga og fleiri lífverur sem mynda grunninn að fuglalífinu. Rétta magnið örfar lífríkið en of mikið er ógnun við það. Frá því að nýting jarðvarma hófst við Mývatn hefur hallað undan lífríkinu. Jarðhitamengun, borholuvökvi frá Bjarnarflagi sem verður til við þéttingu gufu og inniheldur mikið af þungmálum rennur stöðugt frá eldri borholum til Mývatns sem getur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. Silung fækkaði mikið í vatninu og hefur ekki náð sér á strik. Þá hefur álag á lífríki vatnsins aukist þar sem frárennsli eða skólp frá mannvirkjum hefur aukist vegna mikils fjölda ferðamanna við vatnið, að ógleymdri mengun vegna vaxandi bílaumferðar.

2. Ályktun Fuglaverndar um endurheimt votlendis Fuglavernd hvetur stjórnvöld og landeigendur til að hætta framræslu og endurheimta votlendi.

Greinargerð: Árið 1996 var hafist handa við endurheimt tjarna og mýra í smáum stíl. Þrátt fyrir að vaxandi þekkingu á mikilvægi votlendis fyrir lífríki Íslands og loftslag hefur framræsla votlendis á Íslandi verið að færast í aukana á ný umfram það sem er endurheimt. Þessu verður að snúa við. Mýrarnar eru búsvæði fuglategunda sem við berum ábyrgð á á heimsvísu, t.d. óðinshana, jaðrakans og stelks.

Mýrarnar með flóum, flæðiengjum og smátjörnum eru fallegt náttúrulegt umhverfi sem mikilvægt er að vernda og endurheimta það sem spillt hefur verið en um 30.000 kílómetrar af skurðum voru grafnir á 20. öld á Íslandi. Mýrajarðvegurinn geymir milljarða tonna af kolefni sem safnast hefur þar upp sem mór á síðustu 10.000 árum eða frá lokum Ísaldar. Endurheimt mýra og vernd heillegra mýra er mikilvægasta lóðið á vogarskálar baráttunnar gegn loftslagsbreytingunum í heiminum sem Íslendingar geta lagt af mörkum.

Ljósmynd af hrafnsönd á Mývatni. Ljósmyndari. Jakob Sigurðsson.

Fuglar í og við Dyrhólaós 25. apríl

Á Degi umhverfissins, fimmtudaginn 25. apríl, mun Jóhann Óli Hilmarsson rithöfundur, fuglaljósmyndari og formaður Fuglverndar, halda erindi í Kötlusetri í Vík um fuglalíf í Mýrdal. Jóhann Óli hefur undanfarið ár rannsakað fuglalíf við Dyrhólaós og kynnir hann niðurstöður sínar í erindinu, jafnframt sem útgáfa rannsóknarskýrslu á fuglalífi við Dyrhólaós verður kynnt. Erindið hefst kl. 15:00, allir eru velkomnir.

Afmælisfagnaður laugardaginn 20. apríl

Laugardaginn 20. apríl heldur Fuglavernd upp á 50 ára afmæli félagsins í Nauthóli við Nauthólsvík. Kl. 12.30 verður boðið upp á fuglaskoðun í nágrenninu en kl. 13.30 hefjast aðalfundarstörf. Afmælisfagnaðurinn hefst svo klukkan 14.50, með fjölbreyttum og áhugaverðum erindum sem lýkur með hanastélsboði.

Á þessum tímamótum mun Fuglavernd fara yfir hálfrar aldar sögu sína en ekki síður horfa til framtíðar. Ýmis erindi verða um hlýnun loftslags og áhrif hennar á jörð, haf og dýralíf. Yngsti fyrirlesarinn er 16 ára fuglaáhugamaður, sem sýnir fuglaljósmyndir og einnig verður sagt frá verkefninu “Fljúgum hærra”, sem miðar að því að kynna fugla fyrir leikskólabörnum. Í lok dagskrár verður boðið upp á sérblönduðu hanastélin Þröst og Gráþröst undir ljúfum tónum fuglatengdra hljómsveita á borð við Eagles, Byrds og fleiri.

Afmælisdagskrá Fuglaverndar
í Nauthóli, laugardaginn 20. apríl 2013

12.30  Fuglaskoðun í nágrenni Nauthólsvíkur
13.30  Aðalfundur Fuglaverndar – lögbundin aðalfundarstörf – kjör heiðursfélaga
14.30  Kaffihlé
Afmælisdagskrá hefst
14.50  Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar setur samkomuna
15.00  Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpar samkomuna
15.10  Fuglavernd í 50 ár – stiklað á stóru í sögu félagsins
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur
15.40  Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla og yfirborð sjávar
Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent í jöklafræði við Jarðvísindadeild HÍ
16.05  Fuglalíf í framtíðinni
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur
16.30  Fljúgum hærra – handbók leikskólakennara um fugla
Gerður Gylfadóttir og Jóhanna Torfadóttir höfundar og leikskólakennarar
16.45  Fuglalíf á Eyrum
Alex Máni Guðríðarson
17.00  Karrastél þar sem boðið verður upp á léttar veitingar undir ljúfum fuglatengdum tónum

Fundarstjóri er Ólafur K. Nielsen

 

 

Opin ráðstefna um Andakílsfriðlandið

Í tilefni af skráningu Andakílsfriðlandsins á Ramsar, þá heldur Votlendissetur Landbúnaðarháskóla Íslands opna ráðstefnu í Ársal á Hvanneyri, miðvikudaginn 17.apríl, kl 13:00 til 15:30. Meðal fyrirlesara eru Ragnhildur H Sigurðardóttir, Antony Fox, Mitch Weegman, Sigurður Már Einarsson og Guðmundur A Guðmundsson. Fyrirlestrarnir verða á ensku.

Ráðstefnan er opin öllum, en eftir erindin verður boðið upp á hátíðarkaffi í  matsal Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Rauðbrystingar á flugi

AEWA – verndun votlendisfugla

Fuglavernd fagnar því að ríkisstjórn Íslands hefur undirritað alþjóðlegan samning um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (AEWA). Samningurinn kveðjur á um aðgerðir til verndunar votlendsifugla á viðkomustöðum þeirra og nær því til fjölda fuglategunda sem verpa eða hafa áningarstað á Íslandi. Náttúruverndarstofnun Íslands mun bera ábyrgð á framkvæmd samningsins og umhverfis- og auðlindaráðuneytið á að tryggja virka þátttöku okkar í AEWA samstarfi.

Áhrif á náttúruvernd á Íslandi
Erlendis hefur þessi samningur náð verulegum árangri í að vernda tegundir sem hafa verið í útrýmingarhættu eða bara niðursveiflu. Hættan sem steðjar að vatnafuglum er fyrst og fremst eyðilegging á búsvæðum eða áningastöðum tegundanna og varpstöðum en einnig geta veiðar komið við sögu. Í dag hafa 69 lönd og Evrópusambandið (EU)  undirritað samkomulagið um verndun votlendisfugla á farleiðum Evrasí og Afríku. Samkomulagið fjallar um votlendisfugla sem eru farfuglar.  Undir það falla alls um 255 fuglategundir og um 500 stofnar.  AEWA kveður á um starfsáætlanir til verndar tegundum og stofnum í hættu auk þess að stuðla að vernd allra þeirra fuglategunda sem hann nær til.  Samkomulagið felur ekki aðeins í sér vernd fyrir fuglana heima fyrir heldur einnig á vetrarstöðvum þeirra, hvort heldur sem þær eru löndum Vestur-Evrópu eða Afríku, þar sem að íslenskir farfuglar hafa vetrardvöl.

Blýhögl
Eitt af markmiðum samkomulagsins er, að bönnuð verði notkun á blýhöglum við fuglaveiðar.  Mikill fjöldi votlendisfugla ferst af völdum blýeitrunar þar sem þeir innbyrða höglin með sandi, sem er þeim nauðsynlegur til að melta fæðuna og því safnast höglin fyrir í maga þeirra (miðlungsstór önd getur drepist af því að innbirgða þrjú högl).  Nú þegar hafa aðildarlönd bannað notkun þessara skaðlegu hagla.  Þetta bann mundi verða íslenskum fuglum heilladrjúgt, því líklegt er að blýeitrun á vetrarstöðvum þeirra verður fjölda andfugla að aldurtila.  Árlega má sjá íslenskar álftir veslast upp vegna blýeitrunar hér á landi.
Slóð á vefsíðu AEWA
Rauðbrystingar á flugi, ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson