Æðarfugl

Námskeið í fuglaljósmyndun

Fuglavernd stendur fyrir námskeiði í stafrænni fuglaljósmyndun dagana 19. – 21. maí 2017.

Markmiðið er að kynna grunnatriði í fuglaljósmyndun; tæki, tækni og nálgun við fugla. Farið verður yfir hvaða myndavélar henta best, hvernig linsur, þrífætur, forrit og fleiri tæknileg atriði. Rætt verður um myndbyggingu, felutjöld, ljósmyndun úr bíl og annan útbúnað.
Námskeiðið getur nýst jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Skráning og frekari upplýsingar má finna hér. 

Æðarfugl prýðir þessa frétt en ljósmyndina tók Sindri Skúlason.

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Ársskýrsla Fuglaverndar 2016

Aðalfundur Fuglaverndar var haldinn þriðjudaginn 18. apríl 2017.

Þar fór formaður félagsins, Jóhann Óli Hilmarsson yfir ársskýrslu fyrir árið 2016 og hana, ásamt eldri ársskýrslum er að finna undir Um Fuglavernd > Ársskýrslur

Á fundinum voru kjörnir tveir nýjir stjórnarmenn, þeir Aron Leví Beck og Trausti Gunnarsson og munu þeir taka sæti í stjórn um leið og tækifæri gefst til þess að kalla hana saman.

Dagur Jarðar í Grasagarðinum

Á laugardaginn, á Degi Jarðar, stóð Fuglavernd fyrir fuglaskoðun í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur. Alls komu um 60 manns í fuglaskoðunina, svo hópnum var skipt upp í tvo hópa til að njóta betur leiðsagnar um garðinn. Leiðsögumenn voru Einar Þorleifsson og Hannes Þór Hafsteinsson. Að lokinni göngunni komu hóparnir í garðskálann (Kaffi Flóru) þar sem kynning var á starfsemi Fuglaverndar, fuglahúsum og fuglafóðri.

Að lokinni dagskrá í Grasagarðinum tók við dagskrá hjá Garðyrkjufélagi Íslands þar sem boðið var upp á súpu og brauð í hádeginu. Þar voru kynnt starfsemi Garðyrkjufélagsins og býflugnarækt.

Myndir frá Degi Jarðar 2017

 

 

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Væri ég fuglinn frjáls gefin grunnskólum

Væri ég fuglinn frjáls, bekkjarsett hefur verið gefið í alla grunnskóla með 5. bekk

Fuglavernd hefur gefið út bókina Væri ég fuglinn frjáls, fyrstu skrefin í fuglaskoðun.

Allir grunnskólar landsins sem eru með 5. bekk hafa nú fengið að gjöf bekkjarsett af bókinni, til þess að efla náttúrufræðikennslu en það er eitt af markmiðum Fuglaverndar. Viðtökur við bókinni hafa vægast sagt verið frábærar, hvarvetna höfum við mætt miklu þakklæti fyrir gjöfina og kennarar hafa tekið nýju námsefni fegins hendi.

Þá fengum við sérstakt hrós fyrir umbúnað sendinganna, en við endurnýttum pappakassa og dagblöð sem umbúðir sendinganna til grunnskólanna.

Í samvinnu við Menntamálastofnun var bókin kynnt á dögunum á málþingi um náttúrufræðimenntun og þaðan er sömu sögu að segja, viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum.

Ályktun vegna vegagerðar í Gufudalssveit (Teigsskógur)

Fuglavernd leggst eindregið gegn þeirri veglínu, sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit. Ákvörðun Vegagerðarinnar brýtur í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem þeir voru gerðir afturreka með.

Fuglavernd hvetur Vegagerðina að stíga inní nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir. Stofnunin á að láta umhverfið njóta vafans.

Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.

Stjórn Fuglaverndar

 

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er mjög algengur fugl á Íslandi og telur hátt í milljón fugla að hausti. Hún er hvergi eins algeng í Evrópu og hér – og eins og þekkt er þá er lóan okkar helsti vorboði.  Lóan er einum degi seinna á ferðinni í ár en í fyrra, þegar hún sást við Garðskagavita 26. mars. Meðalkomutími þessa ljúfa vorboða undanfarna tvo áratugi er 23. mars.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, bendir á að afar sjaldgæft sé að svo margar lóur hafi hér vetursetu eins og nú í vetur, en í desember sáust yfir 100 lóur á Seltjarnarnesi og nokkrir tugir um og eftir áramót. Það séu þó allar líkur á því að fuglarnir sem sáust við Einarslund séu farfuglar, að sögn Kristins.

„Hún er að koma svona fram undir apríl, þannig að menn geta svo sem hengt sína vorkomu á hvað sem þeir vilja, en lóan er náttúrulega ágætur fulltrúi, syngur fallega og er ljúfur fugl. Þannig að það er ágætt að halda í þessa hefð og telja að vorið sé komið með lóunni,“ segir Kristinn.

Á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands kom fram í gær að fjórar heiðlóur sáust á flugi við Einarslund á Höfn. Óvenjumargar lóur ákváðu að vera um kyrrt á Íslandi nú í vetur, í stað þess að fljúga til Bretlandseyja eins og venja er.

 

Rauðbrystingar á flugi

Varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út tímabundnar varúðarreglur vegna fuglaflensu. Öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla er skylt að fylgja reglunum.

Fuglaflensa af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af sermisgerðinni H5N8 hefur breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, m.a. á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.

Nú þegar farfuglarnir eru farnir að koma til landsins frá vetrarstöðvum, er því full ástæða til þess að hafa varann á.

Varúðarreglurnar ganga út á að tryggja að villtir fuglar komist ekki í snertingu við alifugla. Mikilvægt er að fuglarnir séu inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum og þá er mikilvægt að fóður og drykkjarvatn fuglanna sé ekki aðgengilegt villtum fuglum.

Starfshópur sem í eru sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum, sem nú eru farnir að streyma til landsins. Meðgöngutími sýkingarinnar eru nokkrir dagar og því geta fuglar, sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið, náð til landsins áður en þeir veikjast. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á og setja ýmis konar takmarkanir á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú.

Sjá frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis:

Varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla:

Auglýsing um varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson 

 

Fundur um fuglameðafla við grásleppuveiðar

Þann 8. mars 2017 kallaði Fuglavernd saman hagsmunaaðila í grásleppuveiðum til að ræða rannsóknir sem við höfum verið að sinna undanfarin tvö ár um fuglameðafla í grásleppunetum.

Hingað komu fulltrúi frá Landssambandi smábátaeiganda, fulltrúar frá samtökum um sjálfbærar fiskveiðar á Íslandi (ISF), Hafró, Fiskistofu og MSC (Marine Stewardship Council) og funduðu með fulltrúum Fuglaverndar, Hólmfríði Arnardóttir framkvæmdastjóra og Rory Crawford verkefnastjóra.

Forsaga málsins er sú að 2015 og 2016 fékkst styrkur í gegnum Breska fuglaverndarfélagið og BirdLife til að rannsaka hve mikill fuglameðafli raunverulega sé í grásleppunetum og réðum við bæði árin, sjávarlíftæknisetrið Biopol til athugunarinnar. Þriðja ár rannsóknanna er 2017.

Við áttum okkur á því að ekki verður staðar numið hér. Til þess að öðlast betri skilning á umfangi og draga úr meðafla á fuglum við grásleppuveiðar er eftirfarandi lagt til:

  • Haldið verði áfram að afla gagna með sambærilegum hætti og gert var í verkefninu árin 2015 og sérstaklega árið 2016.
  • Fundnar verði leiðir til að bæta áreiðanleika skráninga í afladagbækur.
  • Framkvæmdar verði tilraunir til þess að reyna að minnka meðafla á fuglum við hrognkelsaveiðar og gerð verði yfirgripsmikil talning á sjófuglum við Ísland til þess að meta stofnstærð þeirra.

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Meira um verkefnið: Fuglameðafli

Hettumáfur. Ljósmynd: Elma Rún Benidiktsdóttir

Máfahátíð á Húsavík

Máfahátíð verður í fyrsta skipti haldin á Húsavík dagana 9. til 10. mars nk.  Það er Fuglastígur á Norðausturlandi sem stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við ýmsa aðila. Henni er ætlað að vekja athygli á ríku fuglalífi Norðurlands/Íslands að vetri til og hvernig það getur nýst samfélaginu. Þetta er gert með viðburðum af ýmsu tagi og er kastljósinu beint að öllum fuglum, stórum jafnt sem smáum, vinsælum jafnt sem óvinsælum. Þegar á botninn er hvolft, eru þeir allir jafn áhugaverðir – náttúran minnir á sig og þolmörk sín í gegnum þá.

Undanfarin ár hefur sambærileg hátíð notið mikillar velgengni í Varanger, nyrst í Noregi og mun forsprakki hennar, Tormod Amundsen frá arkitektastofunni Biotope, koma ásamt fleiri erlendum gestum. Hann mun greina frá tilurð hátíðarinnar,  undraverðum árangri í uppbyggingu fuglaskoðunar í Varanger og möguleikum okkar á því sviði. Þá mun hinn heimsþekkti fuglamyndlistamaður, Darren Woodhead, lyfta vetrarfuglunum á stall með pensli sínum. Hann mun kynna listsköpun sína í opinni dagskrá og vera með sérstakt námskeið fyrir nemendur Borgarhólsskóla.

Fuglaskoðun að vetri

Fuglaskoðun á Íslandi að vetri til á vafalaust eftir að aukast. Margar af þeim tegundum sem erlendum fuglaskoðurum þykir hvað eftirsóknarverðastar eru hér allt árið. Straumendur eru til dæmis auðfundnar víða við Norðurströndina að vetri til og geta þær sómt sér vel á stalli með Norðurljósunum, sökum góðs aðgengis, fegurðar og sérstöðu (finnast ekki utan Íslands í Evrópu). Sama má segja um fálkann, rjúpuna, húsöndina og fleiri vetrarfugla. Þá myndar æðarfuglinn gjarnan stóra fleka við strandlengjuna sem eru tilkomumikil sjón og í þeim leynast stundum ægifagrir æðarkóngar. Litskrúðugir hávellu- og toppandarsteggir gleðja líka augað. Þannig má lengi telja.

Eins og nafn hátíðarinnar gefur til kynna er máfunum, aldrei þessu vant, gert hátt undir höfði. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir eru algengustu fuglarnir í flestum sjávarplássum landsins og af mörgum gerðum. Sú hugsun að þeir geti nýst okkur á einhvern hátt er yfirleitt víðsfjarri. Tilhneigingin hefur frekar verið í hina áttina, þ.e. að líta á máfana sem eins konar meindýr eða eitthvað sem er fyrir okkur. Samfélagið lítur þá gjarnan hornauga. En hvað eru máfar eiginlega? Og hvernig geta þeir og aðrir fuglar nýst manninum?

Máfarnir afhjúpaðir

Leitast verður við að afhjúpa líf máfanna á hátíðinni og munu nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík ríða á vaðið með þátttöku í útinámsverkefni tengdu alþjóðlegri rannsókn á máfum í Norður-Atlantshafi. Teymi máfasérfræðinga mun veiða þá í þar til gerðar gildrur við höfnina og setja litmerki á fætur þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra og lífshlaupi. Þarna gefst nemendum og öðrum áhugasömum tækifæri á að skoða máfana í bak og fyrir. Yann Kolbeinsson, líffræðingur og fuglaskoðari, mun leggja til sína þekkingu.

Máfahátíðin er samstarfsverkefni Fuglastígs á Norðausturlandi, Náttúrustofu Norðausturlands, Norðurþings og fleiri aðila. Það er von okkar að hátíðin festi sig í sessi sem árlegur viðburður á Norðausturlandi, tileinkaður fuglaskoðun og samspili manns og náttúru við Norður-Atlantshaf. Hún höfðar ekki síst til þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref í fuglaskoðun eða jafnvel ekki komnir á stað. Fuglaskoðun er fyrir alla.
 

Viðburðurinn: Máfahátíð á Húsavík

Opnunartími skrifstofu

Það er lokað á skrifstofunni í dag 1.febrúar eftir hádegi. Í fínu lagi að senda okkur tölvupóst sem við reynum að svara sem fyrst.