Afmælisfagnaður laugardaginn 20. apríl

Laugardaginn 20. apríl heldur Fuglavernd upp á 50 ára afmæli félagsins í Nauthóli við Nauthólsvík. Kl. 12.30 verður boðið upp á fuglaskoðun í nágrenninu en kl. 13.30 hefjast aðalfundarstörf. Afmælisfagnaðurinn hefst svo klukkan 14.50, með fjölbreyttum og áhugaverðum erindum sem lýkur með hanastélsboði.

Á þessum tímamótum mun Fuglavernd fara yfir hálfrar aldar sögu sína en ekki síður horfa til framtíðar. Ýmis erindi verða um hlýnun loftslags og áhrif hennar á jörð, haf og dýralíf. Yngsti fyrirlesarinn er 16 ára fuglaáhugamaður, sem sýnir fuglaljósmyndir og einnig verður sagt frá verkefninu “Fljúgum hærra”, sem miðar að því að kynna fugla fyrir leikskólabörnum. Í lok dagskrár verður boðið upp á sérblönduðu hanastélin Þröst og Gráþröst undir ljúfum tónum fuglatengdra hljómsveita á borð við Eagles, Byrds og fleiri.

Afmælisdagskrá Fuglaverndar
í Nauthóli, laugardaginn 20. apríl 2013

12.30  Fuglaskoðun í nágrenni Nauthólsvíkur
13.30  Aðalfundur Fuglaverndar – lögbundin aðalfundarstörf – kjör heiðursfélaga
14.30  Kaffihlé
Afmælisdagskrá hefst
14.50  Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar setur samkomuna
15.00  Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpar samkomuna
15.10  Fuglavernd í 50 ár – stiklað á stóru í sögu félagsins
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur
15.40  Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla og yfirborð sjávar
Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent í jöklafræði við Jarðvísindadeild HÍ
16.05  Fuglalíf í framtíðinni
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur
16.30  Fljúgum hærra – handbók leikskólakennara um fugla
Gerður Gylfadóttir og Jóhanna Torfadóttir höfundar og leikskólakennarar
16.45  Fuglalíf á Eyrum
Alex Máni Guðríðarson
17.00  Karrastél þar sem boðið verður upp á léttar veitingar undir ljúfum fuglatengdum tónum

Fundarstjóri er Ólafur K. Nielsen

 

 

Opin ráðstefna um Andakílsfriðlandið

Í tilefni af skráningu Andakílsfriðlandsins á Ramsar, þá heldur Votlendissetur Landbúnaðarháskóla Íslands opna ráðstefnu í Ársal á Hvanneyri, miðvikudaginn 17.apríl, kl 13:00 til 15:30. Meðal fyrirlesara eru Ragnhildur H Sigurðardóttir, Antony Fox, Mitch Weegman, Sigurður Már Einarsson og Guðmundur A Guðmundsson. Fyrirlestrarnir verða á ensku.

Ráðstefnan er opin öllum, en eftir erindin verður boðið upp á hátíðarkaffi í  matsal Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Rauðbrystingar á flugi

AEWA – verndun votlendisfugla

Fuglavernd fagnar því að ríkisstjórn Íslands hefur undirritað alþjóðlegan samning um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (AEWA). Samningurinn kveðjur á um aðgerðir til verndunar votlendsifugla á viðkomustöðum þeirra og nær því til fjölda fuglategunda sem verpa eða hafa áningarstað á Íslandi. Náttúruverndarstofnun Íslands mun bera ábyrgð á framkvæmd samningsins og umhverfis- og auðlindaráðuneytið á að tryggja virka þátttöku okkar í AEWA samstarfi.

Áhrif á náttúruvernd á Íslandi
Erlendis hefur þessi samningur náð verulegum árangri í að vernda tegundir sem hafa verið í útrýmingarhættu eða bara niðursveiflu. Hættan sem steðjar að vatnafuglum er fyrst og fremst eyðilegging á búsvæðum eða áningastöðum tegundanna og varpstöðum en einnig geta veiðar komið við sögu. Í dag hafa 69 lönd og Evrópusambandið (EU)  undirritað samkomulagið um verndun votlendisfugla á farleiðum Evrasí og Afríku. Samkomulagið fjallar um votlendisfugla sem eru farfuglar.  Undir það falla alls um 255 fuglategundir og um 500 stofnar.  AEWA kveður á um starfsáætlanir til verndar tegundum og stofnum í hættu auk þess að stuðla að vernd allra þeirra fuglategunda sem hann nær til.  Samkomulagið felur ekki aðeins í sér vernd fyrir fuglana heima fyrir heldur einnig á vetrarstöðvum þeirra, hvort heldur sem þær eru löndum Vestur-Evrópu eða Afríku, þar sem að íslenskir farfuglar hafa vetrardvöl.

Blýhögl
Eitt af markmiðum samkomulagsins er, að bönnuð verði notkun á blýhöglum við fuglaveiðar.  Mikill fjöldi votlendisfugla ferst af völdum blýeitrunar þar sem þeir innbyrða höglin með sandi, sem er þeim nauðsynlegur til að melta fæðuna og því safnast höglin fyrir í maga þeirra (miðlungsstór önd getur drepist af því að innbirgða þrjú högl).  Nú þegar hafa aðildarlönd bannað notkun þessara skaðlegu hagla.  Þetta bann mundi verða íslenskum fuglum heilladrjúgt, því líklegt er að blýeitrun á vetrarstöðvum þeirra verður fjölda andfugla að aldurtila.  Árlega má sjá íslenskar álftir veslast upp vegna blýeitrunar hér á landi.
Slóð á vefsíðu AEWA
Rauðbrystingar á flugi, ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Nú eru Ramsar svæðin sex!

Guðlaugstungur, Andakíll og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið hafa verið tilnefnd af ríkistjórninni sem Ramsar svæði eða alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði með áherslu á mikilvægi þeirra fyrir votlendisfugla. Frábært áfangi fyrir verndun búsvæða þeirra fugla sem eiga allt undir votlendinu. Þessum tilnefningum fylgir ákveðin krafa um verndun sem byggir á rannsóknum, friðun og gæslu á þessum svæðum. Við fögnum þessu.
Sjá nánar á vef Ramsar
[btn color=”blue” text=”Linkur á síðu Ramsar” url=”http://www.ramsar.org/cda/en/ramsar-news-archives-2013-iceland-three/main/ramsar/1-26-45-590%5E26132_4000_0__”]

Hollvinir Tjarnarinnar

Fuglavernd hefur með Norræna húsinu ákveðið að stofna óformlegan hóp sem er kallaður “Hollvinir Tjarnarinnar”. Tilgangurinn er að virkja krafta þeirra áhugamanna sem tilbúnir eru að leggja góðu málefni lið, nefnilega að hlúa að lífríki Tjarnarinnar. Fyrsta aðgerðin verður 7. apríl kl. 10:00 en þá er ætlunin að  taka til hendinni í Friðlandinu s.s. að hreinsa síkin og friðlandið af rusli, klippa runna inni í friðlandinu og gera hreiður fyrir æðarfuglinn í Stóra hólmanum í Norður-Tjörn. Þeir sem eru tilbúnir til starfans eru beðnir að hafa samband við Fuglavernd og skrá sig; fuglavernd@fuglavernd.is. Nánari áætlun verður tilkynnt þegar nær dregur.

Meðfylgjandi mynd er af álftapari á Reykjavíkurtjörn. Ljósm.JÓH.

Sumar í lífi rjúpunnar – fræðslufundur

Þriðjudaginn 26. mars n.k. mun Aðalsteinn Örn Snæþórsson líffræðingur fjalla um lífsbaráttu rjúpna að sumarlagi en hann fylgdist með sendimerktum kvenfuglum á Norðausturlandi og kannaði varpárangur og lífslíkur þeirra. Niðurstöðurnar eru bornar saman við sambærilega athugun á Suðversturlandi.
Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar fyrirlesturinn klukkan 20:30. Gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.

[btn color=”red” text=”Fræðslufundir” url=”https://fuglavernd.is/portfolio_category/fraedslufundir/”]

Rjúpa ©Jakob Sigurðsson

Ráðstefna um veiðistjórnun á Íslandi

Wildlife Research and Wildlife Management
Haldin verður ráðstefnu um veiðistjórnun á Íslandi á Grand Hótel 21.mars 2013 frá 9-16:30. Skotvís stendur að ráðstefnunni í samstarfi við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Dagskrá

9:00 Ráðstefnan sett – Fundarstjóri Arnór Þórir Sigfússon
9:05 Ávarp frá Svandísi Svavarsdóttur Umhverfis- og auðlindaráðherra
9:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri landgæða,Umhverfis- og auðlindaráðuneyti
9:30 Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands
9:45 Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar
10:00 Elvar Árni Lund formaður SKOTVÍS
10:15 Gabor von Bethlenfalvy frá FACE um regluverk Evrópusambansins varðandi veiðar og vernd.
10:35 Kaffi
10:50 Kristinn Haukur Skarphéðinsson um endurskoðun „Villidýralaganna“
11:10 Tomas Willebrand, Hedemark University Noregi – Veiðistjórnun villtra dýra
11:40 Hreiðar Þór Valtýsson, Háskólanum á Akureyri – Auðlindastýring og veiðistjórnun
12:00 Hádegismatur ( Hægt að ská sig í mat við upphaf ráðstefnu 2.500kr)
13:10 Rán Þórarinsdóttir, Náttúrustofa Austurlands – Tilfærsla hreindýra – áhrif gróðurfarsbreytinga eða beitarálags?
13:40 Tomas Willebrand, Hedemark University Noregi – Áhrif veiða á villt dýr
14:00 Göran Ericsson, Swedush University of Agricultural Sciense – Maðurinn og stjórnun villtra dýra
14:20 Ólafur K. Nielsen, Náttúrufræðistofnun Íslands – Veiðistjórnun á rjúpu í fortíð, nútíð og framtíð
14:40 Thorsteinn Storaas, Hedemark University Noregi – Norska rjúpnaverkefnið
15:00 Guro Thane Lange, Noges Jakt og Fiske Forening (NJFF) – Hlutverk NJFF og veiðimanna í stjórnun veiða
15:20 Kaffi
15:30 Panel umræður
16:30 Ráðstefnulok

Frekari upplýsingar verður að finna á vef umhverfisstofnunnar http://www.ust.is

Skorradalsvatn – takmarkanir á umferð báta

Landeigendur Fitja áforma að koma í veg fyrir umferð við Álftarhólma og Álftatanga ( um Skrubbu) í Skorradalsvatni.  Þetta er í samræmi við stefnu í tillögu að aðalskipulagi hreppsins, kf. 4.11 Vélknúin umferð á Skorradalsvatni:  Öll umferð vélknúinna farartækja er bönnuð við austurenda Skorradalsvatns, þ.e. ósasvæði Fitjaár og við Álftarhólma og Álftatanga, frá 20. apríl til 1. júlí vegna viðkvæms fuglavarps á friðlandinu. Með þessu er átt við svæðið við austurenda Skorradalsvatns, þar sem Fitjaá kemur út í vatnið við Vatnshorn en það telst vera „ósasvæði Fitjaár“ eða hinar eiginlegu „fitjar“(s.71).

Fuglavernd hefur ábyggilegar heimildir fyrir því að á þessu svæði sé flórgoðar, þar verpi himbrimi og þarna sé 2-3 álftahreiður, ásamt fjölda hreiðra gæsa og anda.

Hálfrar aldar hetjusaga

Félagið okkar Fuglavernd varð fimmtugt þann 28. janúar síðastliðinn. Það er eitt elsta og jafnframt stærsta náttúruverndarfélag landsins og hefur marga fjöruna sopið í baráttunni fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Saga félagsins verður ekki rakin hér, heldur blásið til afmælishátíðar á afmælisári.
Aðalhátíðin verður haldin í Nauthóli þann 20. apríl. Boðað er til dagskrár frá hádegi og fram á kvöld. Aðalfundur verður haldinn þennan dag og síðan verður fræðslu- og skemmtidagskrá með erindum, myndasýningum og ávörpum. Umhverfisráðherra mætir og býður til hanastéls. Um kvöldið býðst fólki að snæða á staðnum.
Hátíðarútgáfa fugla kemur út í vor. Ákveðið var að fresta 2012 blaðinu, færa útgáfuna fram á vor og reyna að halda þeim útgáfutíma framvegis. Jafnframt er blásið til afmælisljósmyndasýningar. Fugl ársins verður kynntur í fyrsta sinn. Að tilnefna fugl ársins hefur lengi tíðkast hjá systurfélögum víða. Í tilefni afmælisins og sögu félagsins, þótti við hæfi að tilnefnda Haförninn. Veglegt smárit um örninn kemur síðan út á árinu í tilefni afmælisins. Jafnframt verður forsprakkanna minnst í ræðu og riti og þá sérstaklega Björns Guðbrandssonar, sem var prímus mótor félagsins í áratugi og sannkölluð hetja í baráttunni fyrir verndun arnarins.

Allar líkur eru til þess að Fuglavernd verði fullgildur meðlimur BirdLife International á árinu og þykir það viðeigandi á afmælisári. Loks hefur nýr vefur verið settur í loftið.

Það er því full ástæða til tilhlökkunar á þessari stóru stundu.
Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Alveg splunkuný heimasíða

Fuglavernd var að setja þennan nýja vef í loftið og er hann ekki nándar nærri tilbúinn. Við munum setja inn á hann efni jafnt og þétt en ef þið eruð með tillögur að efnistökum eða sjáið einhverja vankanta sem við höfum ekki séð enn þá endilega sendið okkur línu: fuglavernd@fuglavernd.is. Þessa tilkynningu skreytum við með mynd frá fuglaskoðun í Fossvogskirkjugarði.