Álftin og áldósin

Ljósmmynd © Britta Steger

Náttúrufræðistofnun Íslands vann gott starf í gær, sem aðra daga. Eftir ábendingar til Fuglaverndar – BirdLife Iceland á fésbókinni, heyrðum við í þeim og þeir létu ekki á sér standa. “Maðurinn með háfinn” er einn stjórnarmanna Fuglaverndar og leiðandi í fjölbreyttu sjálfboðaliðastarfi á vegum félagsins.

Í færslu frá Náttúrufræðistofnun Íslands segir:

Björgun dýra í neyð!
Það er löng hefð fyrir því á Náttúrufræðistofnun að hjálpa fuglum og öðrum dýrum sem hafa lent í hremmingu. Þær eru ófáar ferðirnar sem farnar hafa verið á umliðnum áratugum til að fanga erni, fálka, smyrla, uglur og aðra fulltrúa hinnar fiðruðu dróttar himinsins! Í morgun kom eitt slíkt kall: álft með áldollu krækta upp á neðra skolt við Urriðavatn! Hér voru hæg heimtök og ekki nema steinsnar frá NÍ í Urriðaholti á vettvang.

Fuglinn fannst eftir stutta leit; hann var lagstur fyrir í mýrinni austan við vatnið og augljóslega mjög af honum dregið. Fyrsta tilraun til að fanga fuglinn endaði háðulega. „Maðurinn með háfinn“ flaug á höfuðið og lá flatur í mýrinni en álftin náði á hlaupum út á vatn. Nú voru góð ráð dýr, báts var þörf!

Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst! Bjargvætturinn, Magni Þór Konráðsson hjá Firringu ehf., mætti á vettvang með fley og fagrar árar. Eftirleikurinn var auðveldur, fuglinn var sigldur uppi, háfaður, settur í spennitreyju og við landtöku var dollan klippt laus. Sárið var ljótt og fuglinn augljóslega búinn að bera dolluna í nokkurn tíma. Þetta var álbaukur undan orkudrykk. Álftin hafði rekið neðra skolt inn um drykkjargatið og þannig fest þennan aðskotahlut á viðkvæmum stað.

Náttúrufræðistofnun hefur átt góða samvinnu við Húsdýragarðinn um endurhæfingu fugla í neyð. Þangað lá leiðin með álftina og hún er nú í góðum höndum. Í Húsdýragarðinum fær hún næði til að gróa sára sinna og endurheimta fyrri styrk og í framhaldinu verður henni sleppt aftur út í náttúruna. Þetta litla dæmi sýnir að kæruleysi, líkt og að fleygja frá sér tómri áldollu, getur dregið dilk á eftir sér. Sýnum ábyrgð og skiljum ekki hluti eftir úti í náttúrunni sem geta orðið vinum okkar að grandi!


ÓKN

Og eins og Reykjavík iðandi af lífi sagði í færslu um atvikið: Áhrifarík dæmisaga um hvað umgengni okkar í náttúrunni getur haft mikil áhrif.

Mik­il fækk­un mó­fugla við vegi

Um­ferð um vegi lands­ins virðist hafa um­tals­verð áhrif á fugla­líf og benda nýj­ar niður­stöður rann­sókn­ar til þess að sum­um teg­und­um mó­fugla fækki um meira en helm­ing við vegi þar sem um­ferðin er frá því að vera lít­il og upp í um 4.000 bíla á sum­ar­dög­um.

Þetta má lesa út úr niður­stöðum rann­sókn­ar eða for­könn­un­ar þriggja höf­unda á áhrif­um um­ferðar á fugla­líf, sem birt er á vef Vega­gerðar­inn­ar og um fjallað í Morg­un­blaðinu í dag. Kannaður var þétt­leiki al­gengra mó­fugla við vegi með mis­mikla um­ferð og vökt­un­ar­gögn­um safnað við vegi á Suður­landi 2011-2018.

„Niður­stöður benda til að veg­ir minnki þétt­leika sumra mó­fugla langt út fyr­ir veg­inn. Flest­ir vaðfugl­arn­ir eru sjald­gæfari nær veg­um og sum­um þeirra fækk­ar meira nær um­ferðarþyngri veg­um,“ seg­ir þar.

Skýrslan: Áhrif umferðar á fuglalíf.pdf

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) – friðuð tegund í hættu

Fuglavernd vill áminna skotveiðimenn um friðun blesgæsar nú meðan gæsaveiðitímabilið stendur yfir eða frá 20. ágúst til 15. mars.

Blesgæs er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og hefur verið frá og með 12. júní 2006 skv. reglugerð 519/2006. Friðun blesgæsar er ótímabundin.

Blesgæs verpur víða á norðlægum slóðum og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Fuglar sem verpa á V-Grænlandi eru sérstök deilitegund (Anser albifrons flavirostris). Vetrarstöðvar þessara fugla eru á Bretlandseyjum og þá aðallega á Írlandi og í Skotlandi.

Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði

Helstu viðkomustaðir blesgæsa hér á landi eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Þar dveljast a.m.k. 60% stofnsins samtímis og væntanlega fer allur stofninn um þessi svæði. Þetta eru Andakíll, Ferjubakkaflói–Hólmavað, Borgarfjörður–Löngufjörur og Suðurlandsundirlendi.

Kort 2: Fjöldi og dreifing blesgæsa á S- og V-landi 13.−15. október 2013. Alls sáust 11.091 fuglar.

Válisti fugla, blesgæs í hættu

Á válista fugla sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman er blesgæs tegund í hættu (EN).

Kynslóðalengd (IUCN): 11,3 ár. Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1998–2032.

Þessi stofn var fyrst metinn með sæmilegu öryggi árið 1983 og var þá talinn um 16.500 fuglar. Í kjölfarið var gripið til verndarráðstafana á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum og óx stofninn hratt fram til 1998 í nær 36.000 fugla. Þá tók honum að hnigna meira og minna samfellt til 2015 (<19.000 fuglar) en var metinn 22.000 fuglar árið 2017 (Wildfowl & Wetlands Trust). Fækkunin á þessum 20 árum er því tæp 40%.

Viðmiðunartímabil IUCN fyrir blesgæsir (alla stofna) hefur verið lengt úr 21 ári í 34 ár vegna þess að nú er notað annað kynslóðabil. Þetta þýðir að grænlenska blesgæsin telst strangt til tekið ekki í hættu, eins undarlega og það kann að virðast. Ef fækkun sú sem hófst árið 1998 heldur áfram með sama hraða og sem svarar þremur kynslóðum (1998–2032) leiðir það til 56% fækkunar eða 2,44% á ári. Samkvæmt því telst blesgæsin í hættu (EN, A4a) og er miðað við það hér.

Sjá nánar á vef Náttúrfræðistofnunar Íslands: Blesgæs (Anser albifrons flavirostris)

 

Greining blesgæsar

Í kjölfar friðunar blesgæsa 2006 var gefinn út bæklingur til að auðvelda skotveiðimönnum greiningu blesgæsa. Bæklingurinn er í fullu gildi og hann má finna á vef Umhverfisstofnunar: Friðun blesæsar, upplýsingar fyrir skotveiðimenn.pdf

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) © Daníel Bergmann

 

Hvers vegna er lundinn að hverfa?

Stytt úr grein NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)

Ofveiði fisktegunda, veiðar og mengun eru meðal þátta sem valda álagi á fuglana en loftslagsbreytingar gætu reynst stærsta áskorunin.

“Lundinn er algengasti fugl Íslands” segir dr. Erpur Snær Hansen, stjórnarmaður í Fuglavernd og starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands. “Og hann er líka mest veiddur”.

Ásamt dr. Fayet, frönskum vísindamanni við Háskólann í Oxford, vinnur Erpur Snær Hansen að rannsókn hennar við vöktun á fjórum lundabyggðum, tveimur á Íslandi, einni í Wales og einni í Noregi. Frá árinu 2010 hefur dr. Erpur Snær einnig framkvæmt talningar tvisvar á ári, “lundarallið” þar sem hann ferðast tæpa 5.000 km hringinn í kringum landið og heimsækir um 700 merktar lundaholur í 12 lundabyggðum. Talin eru egg og ungar.

Hitastig sjávar umhverfis Ísland stjórnast af langtímasveiflum þar sem hlýskeið og kuldaskeið skiptast á. Frá 1965-1995 ríkti kuldaskeið og núverandi er hlýskeið. Dr. Erpur Snær segir að mælingar á hitastigi að vetri sýni hlýnun um 1°C, sem virðist vera lítið en hefur mikil áhrif á sandsíli. Kenning hans er þessi: “Ef hitastig hækkar um eina gráðu, breytir það vaxtarhraða og getu þeirra til að lifa af veturinn”.

Lundarallið hefur sýnt að 40% lundaunga léttast með tíma, sem er önnur slæm vísbending.

Þegar fullorðnu fuglarnir geta ekki veitt nóg til að fæða sjálfa sig og ungana, þá taka þeir ákvörðun með eðlisávísun sinni; ungarnir svelta.

Dr. Fayet kallaði leit sína “hjartabrjótandi”: “Þú stingur hendinni inn í lundaholuna og þreifar fyrir þér, finnur lítinn bolta á gólfinu, en áttar þig þá á því að hann er kaldur og hreyfir sig ekki”.

Dr. Hansen with a puffin chick pulled out of its burrow. ©Josh Haner – NY Times
Dead puffins taken by hunters that Dr. Hansen encountered on Lundey Island. ©Josh Haner – NY Times
Taking a break while hauling equipment on Iceland’s southeastern coast. ©Josh Haner – NY Times

Greinin í heild í NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)

Framtíð spóans

Alþjóðlegi farfugladagurinn var laugardaginn 12. maí og Spóahátíð var einn af þeim viðburðum sem haldinn var víðs vegar um heiminn til að halda daginn hátíðlegan.

Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi hélt síðasta erindi dagsins um vernd spóans hér á landi.

Myndband: Framtíð spóans

Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson og Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins

Votlendissjóðurinn tekur til starfa

Skrifað hefur verið undir stofnun Votlendissjóðsins. Tilgangur hans er að stuðla að endurheimt votlendis og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verndari sjóðsins er Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson. Kynningarfundur var haldinn á Bessastöðum þann 30. apríl 2018.

Votlendissjóðurinn er stofnaður um samfélagslegt verkefni sem hefur það að markmiði að fá fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að fjármagna endurheimt hluta þess votlendis sem þegar hefur verið raskað hérlendis. Víðtækt samstarf liggur að baki þessu verkefni svo sem Landgræðsla Ríkisins, Landbúnaðarháskólinn, Háskóli Íslands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, Vegagerðin, Fuglavernd, Landvernd, Klappir, Náttúrustofa Austurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, sveitarfélög, bændur og landeigendur.

Verkefnið verður unnið með hverju sveitarfélagi fyrir sig þar sem íbúar fá kynningu á verkefninu og landeigendur fá boð um að taka þátt. Sveitarfélagið Fjarðabyggð ríður á vaðið og verður þar tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Reynt verður að fá ríkið til að endurheimta votlendi á þeim ríkisjörðum sem ekki eru í notkun.

Ásbjörn Björgvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins.

Myndir

 

Meira um votlendi

Verkefnin>Votlendi

Votlendi.is

Facebook: Votlendi

 

 

 

 

Ástand fuglastofna heimsins - púlsinn tekinn á plánetunni. Forsíða.

Ástand fuglastofna heimsins

Fuglavernd eru aðilar að BirdLife International sem eru ein elstu náttúruverndarsamtök heims en sögu þeirra má rekja aftur til 1922.

Í samantekt BirdLife um ástand fuglastofna heimsins kemur m.a. fram að einn af hverjum átta fuglastofnum er talinn vera í útrýmingarhættu.  Þrátt fyrir að fréttirnar séu slæmar þá er hægt að grípa til ýmissa ráða, um það má líka lesa í skýrslunni.

Stofnþróun fuglastofna á válista IUCN og stofnþróun fuglastofna í Evrópu.
Stofnþróun fuglastofna á válista IUCN og stofnþróun fuglastofna í Evrópu.
Yfirlitsmynd um útrýmingarhættu fuglastofna og flokkun í áhættuflokka.
Yfirlitsmynd um útrýmingarhættu fuglastofna og flokkun í áhættuflokka.
Árangur sem náðst hefur í að minnka fugla sem meðafla við fiskveiðar.
Árangur sem náðst hefur í að minnka fugla sem meðafla við fiskveiðar.

Skýrslan í heild sinni

BirdLife: State of the World’s Birds – taking the pulse of the planet.  

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er komin að kveða burt snjóinn.  Helsti vorboði okkar er kominn á tilsettum tíma nú rétt fyrir páska, fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í dag. Aðeins tvisvar sinnum hafa lóurnar komið seinna en í dag, 1999 og 2001, en meðalkomudagur þeirra 1998-2017 hefur verið 23. mars. 

Lóan er einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu.  Lóan er vaðfugl sem verpur einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum.

Um helmingur af heimsstofni lóunnar verpur hér á landi, eða um 300.000 pör, svo ábyrgð okkar gagnvart þessum vorboða er mikil og nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar.

Vetrarheimkynnin eru í Vestur Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.

skjáskot af myndbandi um garðfugla

Myndband um garðfugla og fóðrun

Undir Verkefnin>Garðfuglar höfum við sett inn myndband um garðfugla og fóðrun þeirra.

Örn Óskarsson, http://ornosk.com/ hélt fræðsluerindi um garðfugla og fóðurgjafir fimmtudagskvöldið 25. janúar 2018. Í erindinu fjallar hann um helstu tegundir garðfugla á Íslandi, fóðurgjafir, vatn, hreinlæti og allt það helsta sem skiptir máli.

Þá viljum við minna á að í vefversluninni okkar finnur þú fuglafóður og fuglahús til styrktar félaginu.

 

Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.