Álftin og áldósin

Ljósmmynd © Britta Steger

Náttúrufræðistofnun Íslands vann gott starf í gær, sem aðra daga. Eftir ábendingar til Fuglaverndar – BirdLife Iceland á fésbókinni, heyrðum við í þeim og þeir létu ekki á sér standa. “Maðurinn með háfinn” er einn stjórnarmanna Fuglaverndar og leiðandi í fjölbreyttu sjálfboðaliðastarfi á vegum félagsins.

Í færslu frá Náttúrufræðistofnun Íslands segir:

Björgun dýra í neyð!
Það er löng hefð fyrir því á Náttúrufræðistofnun að hjálpa fuglum og öðrum dýrum sem hafa lent í hremmingu. Þær eru ófáar ferðirnar sem farnar hafa verið á umliðnum áratugum til að fanga erni, fálka, smyrla, uglur og aðra fulltrúa hinnar fiðruðu dróttar himinsins! Í morgun kom eitt slíkt kall: álft með áldollu krækta upp á neðra skolt við Urriðavatn! Hér voru hæg heimtök og ekki nema steinsnar frá NÍ í Urriðaholti á vettvang.

Fuglinn fannst eftir stutta leit; hann var lagstur fyrir í mýrinni austan við vatnið og augljóslega mjög af honum dregið. Fyrsta tilraun til að fanga fuglinn endaði háðulega. „Maðurinn með háfinn“ flaug á höfuðið og lá flatur í mýrinni en álftin náði á hlaupum út á vatn. Nú voru góð ráð dýr, báts var þörf!

Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst! Bjargvætturinn, Magni Þór Konráðsson hjá Firringu ehf., mætti á vettvang með fley og fagrar árar. Eftirleikurinn var auðveldur, fuglinn var sigldur uppi, háfaður, settur í spennitreyju og við landtöku var dollan klippt laus. Sárið var ljótt og fuglinn augljóslega búinn að bera dolluna í nokkurn tíma. Þetta var álbaukur undan orkudrykk. Álftin hafði rekið neðra skolt inn um drykkjargatið og þannig fest þennan aðskotahlut á viðkvæmum stað.

Náttúrufræðistofnun hefur átt góða samvinnu við Húsdýragarðinn um endurhæfingu fugla í neyð. Þangað lá leiðin með álftina og hún er nú í góðum höndum. Í Húsdýragarðinum fær hún næði til að gróa sára sinna og endurheimta fyrri styrk og í framhaldinu verður henni sleppt aftur út í náttúruna. Þetta litla dæmi sýnir að kæruleysi, líkt og að fleygja frá sér tómri áldollu, getur dregið dilk á eftir sér. Sýnum ábyrgð og skiljum ekki hluti eftir úti í náttúrunni sem geta orðið vinum okkar að grandi!


ÓKN

Og eins og Reykjavík iðandi af lífi sagði í færslu um atvikið: Áhrifarík dæmisaga um hvað umgengni okkar í náttúrunni getur haft mikil áhrif.