Eins og allir fuglavinir vita, þá eru birkifræ ein aðalfæða auðnutittlinga sem nú sækja í sólblómafræ í görðum þeirra er fóðra fugla. Fuglavernd hafði samband við Skógrækt Reykjavíkur og spurðist fyrir um hvernig stæði á því að það væri svo lítið af birkifræjum eftir sumarið 2023. Gústaf Jarl Víðarsson svaraði eftirfarandi:
“Sammála að það er ekki gott fræár hjá birki og fleiri trjátegundum. Ég hef heyrt að það sé svolítið af birkifræi á Vestfjörðum, en held að það sé lítið um það annars staðar.
Ég tel að ástæðan sé veðrið í vor, þar sem bar töluvert á trjáskemmdum á lauftrjám sem voru byrjuð að laufgast en fóru í illa í kaldri SV-átt sem var ríkjandi þegar kom fram á vor, en trén voru komin nokkuð af stað í apríl og farin að laufgast. Þá voru laufin svört og veðurbarin á mörgum lauftrjám og það hefur verið umtalsvert áfall fyrir þau. Trén náðu að laufgast aftur, en þetta hefur kostað þau talverða orku og hafa trén því ekki átt fyrir fræmyndun.
Síðastliðin ár hafa birkiþéla og birkikemba verið áberandi í birki og mætti kalla það faraldra sem hafa geisað í skógunum að vori og hausti. Þessi faraldrar hafa gert það að verkum að trén missa af ljóstillífun, ný laufblöð þurfa að vaxa og eiga þá ekki inni nægilega orku til þess að mynda fræ eins og þau gerðu annars. Vonandi minnkar það vandamál með sníkjuvespu sem nam land í sumar. Sjá; Náttúrulegur óvinur birkiþélu finnst á Íslandi | Skógræktin (skogur.is)
Ég gæti trúað að það verði ágætis fræár á næsta ári, þar sem sumarið varð síðan hlýtt og haustið langt.”
Sunnudaginn 18. júní héldu 13 félagar í fugla- og votlendisskoðun á Vesturland. Leiðsögumenn voru Polina Moroz og Jóhann Óli Hilmarsson, sem jafnframt ók. Fyrst var numið staðar við Eiðisvatn og Laxá í Leirársveit og skoðað svæði sem Endangered Landscape Programme (Endurheimt landslagsheilda) styrkti Fuglavernd til að skoða, sérstaklega möguleg áhrif endurheimtar votlendis á fuglalíf og gæði vatnasviðs Laxár. Verkefnið er á höndum Polinu. Í leiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður skoðað.
Þarnæst var Ramsar-svæðið Andakíll heimsótt og farið um Hvanneyrarhlöð. Eftir nestisstund við Borgarvog var farið á Mýrarnar og fyrst numið staðar við Kálfalæk. Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Brezka Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu. Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme, sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Verkefnið er framhald verkefnis, þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum og þess vegna þótti við hæfi að stoppa þar.
Eknir voru „hringirnir tveir“ um Mýrarnar og stoppað á fuglaríkum stöðum eins og Ökrum og við Straumfjörð. Við bæinn Krossnes á Mýrum rákumst við á gríðarmikla nýlega framræslu, svo hún er alls ekki úr sögunni, þrátt fyrir allt.
Veður var hið skaplegasta, hægviðri og fór ekki að rigna fyrr en á heimleiðinni.
Mikið hefur gengið á votlendi landsins undanfarna áratugi. Í kjölfar jarðræktarlaga (1923) og með tilkomu stórvirkra vinnuvéla á fimmta áratug þessarar aldar, urðu þáttaskil í nýtingu mýrlendis hér á landi. Upphófst þá tímabil stórfelldrar framræslu sem styrkt var með framlögum úr opinberum sjóðum.
Til að byrja með voru láglendismýrar, sem eru víða frjósamar og vel fallnar til ræktunar, ræstar fram til túngerðar. Seinna meir jókst mjög framræsla mýra til að bæta þær sem beitiland. Vegagerð og þéttbýlismyndun hafa einnig tekið sinn toll og við virkjanir fallvatna hefur straumvötnum verið breytt og landi sökkt undir miðlunarlón.
Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi. Sem dæmi má nefna að athuganir hafa leitt í ljós að einungis 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi (sjá: Íslensk votlendi. Verndun og nýting – Háskólaútgáfan 1998).
Þessi saga hnignunar votlendis hér á landi er ekki einsdæmi; svipaða sögu er að segja um allan heim þar sem örar tækniframfarir hafa orðið.
Fuglavernd, í samstafi við Árborg hefur endurheimt votlendi í Flóanum norðan Eyrarbakka við bakka Ölfusár.
Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Breska Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu.
Verkefnið er framhald verkefnis þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum. Þar kom í ljós að framræsla votlendis hafði eyðilagt farleiðir fiska upp læki á svæðinu, auk þess að hafa slæm áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði þeirra. Aftur á móti fundust hrygningarsvæði urriða í einu tilviki í skurði, en slíkt þarf að hafa í huga ef endurheimt verður á svæðinu.
Nú er hugmyndin að stækka rannsóknarsvæðið svo að þá nái yfir Mýrar, Hnappadal og alla leið að ósi Straumfjarðarár fyrir neðan Snæfelssnesveg. Svæðið er tilnefnt til Náttúruminjaskrár af Náttúrufræðistofnun vegna búsvæða vað- og vatnafugla. Ásamt aðliggjandi fjörum og grunnsævi er það einnig skilgreint sem Alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (IBA) af BirdLife International. Vötn og lækir á svæðinu eru líklega mikilvæg búsvæði silungs og áls, en áli hefur fækkað mikið í Evrópu og er nú talinn vera í útrýmingarhættu.
Í verkefninu verða lækir og vatnasvæði sem hafa orðið fyrir áhrifum framræslu kortlagaðir með tilliti til búsvæða fiska, sérstaklega urriða og áls. Hindranir verða skrásettar og metið verður hvaða áhrif endurheimt hefur á aðrar lífverur eins og fugla og gróðurfar. Mannfólkið er ekki heldur undanskilið en mikilvægt er að huga að landnýtingu og afstöðu landeigenda til endurheimtar. En ef endurheimt verður á svæðinu er mögulegt að aukin nýting fiskistofna verði í framtíðinni.
Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Þá aðallega með því að fjarlægða manngerðar hindranir eins og stíflur úr ám og lækjum. Nú er einungis verið að kanna möguleika á endurheimt, en ef gott samstarf og valkostir eru fyrir hendi, er mögulegt að vinna verkefnið yfir á framkvæmdastig í samvinnu við landeigendur.
Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.
Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.
Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.
Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.
Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.
Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.
Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.
Hvað er Fuglavernd?
Í stuttu máli: Fuglavernd eru frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar. Félagið var stofnað 1963 af áhugamönnum um verndun hafarnarins. Fuglavernd vinnur að því að fuglar og búsvæði þeirra skaðist sem minnst vegna framkvæmda.
Fuglavernd er aðili að Birdlife International sem eru samtök fuglaverndarfélaga um allan heim.
Félagar eru um 1300. Félagið heldur myndasýningar og fyrirlestra um fugla og fer í fuglaskoðun með félögum. Það gefur út tímaritið FUGLAR sem fjallar um fugla og málefni tengd fuglum.
Með aðild tekur þú þátt í fugla- og náttúruvernd. Hér geturðu sótt um félagsaðild Hér geturðu lesið um HAFÖRNINN á heimasíðu Fuglaverndar
Einkar áhugaverður útvarpsþáttur sem var endurtekinn á RáS 1 á sunnudaginn var, 4. september.
Í þriðja og síðasta þætti er fjallað um hagsmuni og mögulegan hagsmunaárekstur ferðaþjónustunnar og lundaveiðihefða í Eyjum. Rætt er við aðila í ferðaþjónustu, forstöðumann Safnahúss og erlenda ferðalanga á götum Heimaeyjar.
Vissuð þið að fuglar og gróður í næsta nágrenni eykur hamingju fólks?
í Þættinum Samfélagið á rás 1 var umhverfisspjall við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur sem vildi nefna eitthvað jákvætt á þessum drungalegu tímum neikvæðrar loftslagsskýrslu og stríðs.
Náttúruskoðun og fuglaskoðun fólks hefur verið rannsökuð og er vísindalega sannað að náttúruskoðun og sérstaklega fuglaskoðun hefur jákvæð áhrif á andlega líðan fólks og dregur úr þunglyndi. Fjöldi fugla í þéttbýli eykst með meiri gróðurþekju og hefur það bein áhrif á líðan fólks að vera með meiri gróður og þar af fleiri fugla í næsta umhverfi.
Graham Appleton hefur unnið með íslenskum vísindamönnum að rannsóknum á vaðfuglum sem dveljast bæði á Íslandi og Bretlandseyjum og ferðast milli eyjaklasanna og eru þar með sameiginlegir fuglar okkar.
Að þessu sinni vakti þetta blogg athygli en það fjallar um hvað Tjaldar gera þegar fæðuskortur gerir vart við sig. Fara þeir annað eða leggja þeir upp laupana og deyja? Graham Appleton og sjálfboðaliðar rannsökuðu þetta og svona skrifar hann á blogginu sínu.
Fuglavernd er hluti af BirdLife International og þar er að finna ágæta grein um hvernig á að maður fer á stefnumót, parar sig og skilur að skiptum samkvæmt fuglum.
Um er að ræða: Kríur, albatrosa, súlur og rúkraga.
Jól 2024: Hægt er að versla í vefverslun og fá sent í pósti til kl. 14 þann 23. desember. Hægt verður að sækja vöru og versla á staðnum á skrifstofu Fuglaverndar til kl. 15 sama dag. Það verður lokað um jól og Fuglavernd opnar aftur á nýju ári fimmtudag 2. janúar kl. 9. Gleðilega hátíð, fuglavinir nær og fjær. Loka
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna