Alveg splunkuný heimasíða

Fuglavernd var að setja þennan nýja vef í loftið og er hann ekki nándar nærri tilbúinn. Við munum setja inn á hann efni jafnt og þétt en ef þið eruð með tillögur að efnistökum eða sjáið einhverja vankanta sem við höfum ekki séð enn þá endilega sendið okkur línu: fuglavernd@fuglavernd.is. Þessa tilkynningu skreytum við með mynd frá fuglaskoðun í Fossvogskirkjugarði.

Kolgrafarfjörður

Í hádegisfréttum í gær,5.feb., var sagt frá 6 milljón króna fjárveitingu ríkisstjórnarinnar til rannsókna á ástandinu í Kolgrafarfirði og hvort samhengi sé á milli þverunar fjarðarins og endurtekins síldardauða í firðinum. Fuglavernd fagnar þessu en hefur samt sem áður áhyggjur af ástandinu hér og nú. Rannsóknir eru þó af hinu góða. Á meðfylgjandi mynd má sjá grútarblauta langvíu en rannsakandi fjörunnar við Kolgrafarfjörð lýsti henni svona: Í þeim hluta fjörunnar sem hvað mest er af dauðri síld er grútarmengun veruleg, grútarlag er yfir allri fjörunni. Víðast er um að ræða þunna slikju sem hylur allt,gerir fjöruna mjög hála og litar svarta fjörusteina kremlitaða, en efst í fjörunni eru bunkar með blöndu af misstórum grútarkögglum, þangi og möl, allt að 1 m að þykkt. Grúturinn minnir helst á e.k. blöndu af smjöri og tyggjói og lyktin er mjög vond. Grúturinn festist í öllu sem við hann kemur, þ.á m.fötum, skóm, fiðri og fuglafótum. Við erum mjög uggandi yfir fuglalífinu á svæðinu. Þúsundir fugla leita í nýdauða síldina og mikil hætta á að grúturinn makist í fiðrið. Á myndinni má sjá grútarblauta langvíu en Róbert Arnar tók myndina.

Sendlingur - Ljósmynd: Gunnar Þór Hallgrímsson

Frá heiðalæpu til þangrottu – fræðslufundur 14.nóv.2013

Fræðslufundur félagsins verður að þessu sinni um sendlinga og lífshlaup þeirra. Sendlingar eru norrænir varpfuglar frá heimskautaeyjum NA Kanada í vestri til Taimyrskaga í Rússlandi. Innan þessa svæðis eru nokkrir stofnar sem eiga það sameiginlegt að halda til í grýttum fjörum í Atlantshafi yfir vetrartímann en engir aðrir vaðfuglar þola vetursetu jafn norðarlega og sendlingarnir. Á Íslandi verpur sérstök undirtegund sendlinga sem talin er vera staðfugl en utan varptímans koma hingað til lands aðrir stofnar. Í fyrirlestrinum verður farið yfir lífshlaup sendlinganna, helstu stofna og ferðalög auk verndargildis þeirra stofna sem tengjast Íslandi. Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur heldur erindið en fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjum við kl. 20:30. Gengið er inn um aðal inngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.