Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Væri ég fuglinn frjáls

Það gleður okkur að segja frá því að við höfum lokið útgáfu fuglaskoðunarrits fyrir börn sem ber heitið: Væri ég fuglinn frjáls. Fyrstu skrefin í fuglaskoðun.  

Verkefnið er skrifað fyrir 4.-5. bekkinga, en höfðar þó til allra sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu skemmtilega og fræðandi áhugamáli, jafnt heima sem í skóla.  Myndir af algengustu fuglum Íslands eru á kápusíðum en það gerir ungum og áhugasömum fuglaskoðurum kleift að greina þá fugla sem þeir sjá.

Ritið er fáanlegt á skrifstofu okkar og kostar kr. 3000, –
Höfundur er Jóhann Óli Hilmarsson

Eftirtaldir styrktu útgáfuna:
Umhverfis-og auðlindaráðuneytið
Barnavinafélagið Sumargjöf
Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar
Valitor – Samfélagssjóður
Landsbanki Íslands – Samfélagssjóður

Og þökkum við þeim kærlega fyrir það en það gerir okkur jafnframt kleift að senda svokallað bekkjarsett till allra grunnskóla landsins þeim að kosnaðarlausu.

 

Á fundi með forsetanum

Formaður og framkvæmdastjóri áttu ánægjulegan fund með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni í vikunni sem leið, ásamt nokkrum fulltrúum náttúruverndar, sem margir hverjir eru jafnframt hagsmunaaðilar í náttúruvernd. Orri Vigfússon formaður NASF, verndarsjóði villtra laxastofna,  átti heiðurinn að því að þessi fundur varð að veruleika en meðal annarra voru staddir þarna fulltrúar Auðlindar, Æðarræktarfélags Íslands, Félags smábátaeiganda og Fjöreggs(félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit).

Á myndinni með Guðna eru þau Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndar og Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri. Ljósmyndari: GOLLI

Garðfuglakönnun 2016-2017

Markmiðið með Garðfuglakönnuninni er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar í tegundasamsetningu yfir vetrarmánuðina, og skoða breytileika milli ára. Árangur í starfi sem þessu veltur að sjálfsögðu á ykkur / þátttakendunum.  Vakin er athygli á vef um garðfugla á þessum slóðum: Garðfuglar og hér á okkar síðu einnig.

Könnunin er með sama sniði og liðna vetur, en fyrsta Garðfuglakönnunin á vegum Fuglaverndar var gerð veturinn 1994-95.

Hér eru nokkur eyðublað til útfyllingar en þar má finna fáeinar spurningar um eðli og umfang garðsins/garðanna.
Garðfuglakönnun 16-17 – pdf skjal  og hér er eyðublað í Word
Garðfuglakönnun_Skraningarblad_excel
Garðfuglakönnun_fyrir_vinnustaði

Könnunin hefst 30. október 2016 og lýkur 29. apríl 2017 en það er hægt að byrja hvenær sem er.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að slá inn talningar sínar í meðfylgjandi skjal og senda síðan félaginu á tölvutæku formi, slíkt mun spara þann tíma sem fer í innslátt á talningum. Einnig er hægt að prenta út eyðublaðið og færa niðurstöður inn á blaðið. Við hvetjum sem flest ykkar til að taka þátt, hvort sem þið gefið fuglum eða ekki.

Sendið útfyllt eyðublöð sem fyrst eftir lok könnunar, í síðasta lagi fyrir maílok 2017. Netfangið er: gardfugl@gmail.com.
Ef niðurstöður eru sendar með pósti þá er utanáskriftin: Fuglavernd Garðfuglakönnun Hverfisgötu 101 – 105 Reykjavík

Þessa ljósmynd af skógarþresti, stara og svartþresti tók Örn Óskarsson

Ánafnað verðlaunafé

Jafnframt sem við óskum þeim hjónum Kolbrúnu og Jóhannesi á Hótel Rauðuskriðu til hamingju með að fá Náttúruverndarviðukenningu Sigríðar í Brattholti sem Umhverfisráðuneytið veitir, þá þökkum þeim kærlega fyrir að hafa ánafnað okkur verðlaunafénu.

Í rökstuðningi ráðherra fyrir viðurkenningunni kemur fram að þau Kolbrún og Jóhannes hafi komið Hótel Rauðuskriðu í gegn um strangt vottunarferli norræna Svansins fyrst íslenskra hótela og fyrsti gististaðurinn utan Reykjavíkur. Síðar hafi það fengið gullmerki Vakans, sem er umhverfis- og gæðavottunarkerfi ferðaþjónustunnar. Sterk hugsjón hafi drifið þau áfram og sé litið til Rauðuskriðu sem fyrirmyndarfyrirtækis í ferðaþjónustu í sveitum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í umhverfisstarfi hótela á norrænum vettvangi.

Sjá vef umhverfisráðuneytisins.

 

Fuglavernd óskar eftir markaðs- og samskiptafulltrúa

Fjöldi umsókna hafa borist um starf markaðs- og samskiptafulltrúa Fuglaverndar – 50% starf. Vonumst við eftir að niðurstaða verði komin um miðjan næsta mánuð.
Meginviðfangsefni
• Umsjón með kynningar‐ og markaðsmálum félagsins.
• Umsjón með heimasíðu Fuglaverndar og samfélagsmiðlum.
• Skrifa fréttir af starfsemi félagsins og miðla þeim til fjölmiðla.
• Umsjón með gerð kynningarefnis og auglýsinga á vegum Fuglaverndar.
• Umsjón með viðburðum á vegum félagsins og sölumálum, ásamt því að annast samskipti við félagsmenn.

Menntunar- og/eða hæfniskröfur:
• Góð almenn menntun og áhugi á umhverfs- og náttúruverndarmálum.
• Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
• Þekking og reynsla af markaðsmálum og skipulagningu viðburða.
• Góð íslenskukunnátta auk góðrar kunnáttu í ensku.
• Hæfileiki til tjáningar í ræðu og riti.
• Góð almenn tölvufærni og þekking á helstu forritum.
• Skipulagshæfileikar, sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum og hæfni í mannlegum samskiptum.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknir skulu hafa borist Fuglavernd eigi síðar en mánudaginn 25. október 2016.
Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfi og ástæða umsóknarinnar.
Frekari upplýsingar um starfið veitir Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri, netfang holmfridur@fuglavernd.is – sími 5620477

Fuglaverndarfélag Íslands eru frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að vernda fugla og búsvæði þeirra. Fræðsla er mikilvægur liður í starfseminni og tengls við félagsmenn okkar sem eru um 1300, einnig er samvinna við systurfélög okkar í náttúruvernd, innanlands sem utan, mikilvæg, svo og að veita yfirvöldum aðhald um lagasetningar og framkvæmdir.

Elma Rún Benediktsdóttir á þessa fallegu mynd af kríunni.

Fuglaskoðun við Elliðavatn

Við verðum með fuglaskoðun í Heiðmörk, við Elliðavatn, laugardaginn 1.október kl.13:00. Gengið frá Elliðavatnsbænum og meðfram vatninu og um nágrenni þess –  sjá meðfylgjandi kort. Við megum búast við að sjá jaðrakan, óðinshana og himbrima ásamt öðrum tegundum og mun Elma Rún Benediktsdóttir leiða gönguna.

Allir velkomnir – munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera klædd eftir veðri.

Fjöruhreinsun í Selvogi 31.ágúst

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík og Blái herinn, í samstarfi við Fuglavernd, býður til hreinsunarátaks í Selvogi miðvikudaginn 31. ágúst. Þetta er tækifæri til að sameinast um verndun umhverfisins, og hreinsa hluta af þessu fallega landi, sem er annaðhvort gestgjafi okkar eða heimili. Við munum eyða nokkrum klukkustundum í að hreinsa rusl í fjörum, undir leiðsögn landeigenda, en síðan mun sveitarfélagið Ölfus og landeigendur í Selvogi bjóða til grillveislu, til að fagna samstarfinu.

Sendiráðið mun sjá um flutning á sjálfboðaliðum til og frá staðnum. Brottför verður frá miðbæ Reykjavíkur kl. 11:00, staðsetning birt síðar. Þeir sem óska að koma á eigin bílum geta hitt hópinn við Strandarkirkju um hádegið.  Við hvetjum fólk að sjálfsögðu til að sameinast um bíla.

Þeir sem vilja taka þátt vinsamlegast sendið okkur póst á fuglavernd@fuglavernd.is og látið fylgja með upplýsingar um hvort þið komið á eigin vegum eða með rútu senduráðsins.

Við hvetjum alla til að taka þátt, unga sem aldna en munið eftir góðum hlífðarfötum.
Sjáum sem flesta 31. ágúst.

 

Fuglaskoðun í Flóa á sunnudag

Sunnudaginn 26. júní 2016 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun númer þrjú í fuglafriðlandinu í Flóa. Fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.

Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.

13 erlendir sjófuglafræðingar

Við hýstum fund í byrjun júní sem hafði það að markmiði að tilnefna verndarsvæði til Ospar samningsins og að því tilefni fengum við til okkur 13 erlenda sjófuglafræðinga sem gáfu vinnu sína í þetta verkefni, þrír innlendir tóku líka þátt, þeir Erpur Snær Hansen, Þorkell Lindberg Þórarinsson og Arnþór Garðarsson. BirdLife International getur tilnefnt fyrir aðildarfélögin sín en Fuglavernd er aðili að BirdLife.

Hér er linkur á Ospar samninginn sem Ísland fullgilti árið 1997.