Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er mjög algengur fugl á Íslandi og telur hátt í milljón fugla að hausti. Hún er hvergi eins algeng í Evrópu og hér – og eins og þekkt er þá er lóan okkar helsti vorboði.  Lóan er einum degi seinna á ferðinni í ár en í fyrra, þegar hún sást við Garðskagavita 26. mars. Meðalkomutími þessa ljúfa vorboða undanfarna tvo áratugi er 23. mars.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, bendir á að afar sjaldgæft sé að svo margar lóur hafi hér vetursetu eins og nú í vetur, en í desember sáust yfir 100 lóur á Seltjarnarnesi og nokkrir tugir um og eftir áramót. Það séu þó allar líkur á því að fuglarnir sem sáust við Einarslund séu farfuglar, að sögn Kristins.

„Hún er að koma svona fram undir apríl, þannig að menn geta svo sem hengt sína vorkomu á hvað sem þeir vilja, en lóan er náttúrulega ágætur fulltrúi, syngur fallega og er ljúfur fugl. Þannig að það er ágætt að halda í þessa hefð og telja að vorið sé komið með lóunni,“ segir Kristinn.

Á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands kom fram í gær að fjórar heiðlóur sáust á flugi við Einarslund á Höfn. Óvenjumargar lóur ákváðu að vera um kyrrt á Íslandi nú í vetur, í stað þess að fljúga til Bretlandseyja eins og venja er.

 

Rauðbrystingar á flugi

Varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út tímabundnar varúðarreglur vegna fuglaflensu. Öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla er skylt að fylgja reglunum.

Fuglaflensa af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af sermisgerðinni H5N8 hefur breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, m.a. á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.

Nú þegar farfuglarnir eru farnir að koma til landsins frá vetrarstöðvum, er því full ástæða til þess að hafa varann á.

Varúðarreglurnar ganga út á að tryggja að villtir fuglar komist ekki í snertingu við alifugla. Mikilvægt er að fuglarnir séu inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum og þá er mikilvægt að fóður og drykkjarvatn fuglanna sé ekki aðgengilegt villtum fuglum.

Starfshópur sem í eru sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum, sem nú eru farnir að streyma til landsins. Meðgöngutími sýkingarinnar eru nokkrir dagar og því geta fuglar, sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið, náð til landsins áður en þeir veikjast. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á og setja ýmis konar takmarkanir á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú.

Sjá frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis:

Varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla:

Auglýsing um varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson 

 

Opnunartími skrifstofu

Það er lokað á skrifstofunni í dag 1.febrúar eftir hádegi. Í fínu lagi að senda okkur tölvupóst sem við reynum að svara sem fyrst.

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Væri ég fuglinn frjáls

Það gleður okkur að segja frá því að við höfum lokið útgáfu fuglaskoðunarrits fyrir börn sem ber heitið: Væri ég fuglinn frjáls. Fyrstu skrefin í fuglaskoðun.  

Verkefnið er skrifað fyrir 4.-5. bekkinga, en höfðar þó til allra sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu skemmtilega og fræðandi áhugamáli, jafnt heima sem í skóla.  Myndir af algengustu fuglum Íslands eru á kápusíðum en það gerir ungum og áhugasömum fuglaskoðurum kleift að greina þá fugla sem þeir sjá.

Ritið er fáanlegt á skrifstofu okkar og kostar kr. 3000, –
Höfundur er Jóhann Óli Hilmarsson

Eftirtaldir styrktu útgáfuna:
Umhverfis-og auðlindaráðuneytið
Barnavinafélagið Sumargjöf
Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar
Valitor – Samfélagssjóður
Landsbanki Íslands – Samfélagssjóður

Og þökkum við þeim kærlega fyrir það en það gerir okkur jafnframt kleift að senda svokallað bekkjarsett till allra grunnskóla landsins þeim að kosnaðarlausu.

 

Á fundi með forsetanum

Formaður og framkvæmdastjóri áttu ánægjulegan fund með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni í vikunni sem leið, ásamt nokkrum fulltrúum náttúruverndar, sem margir hverjir eru jafnframt hagsmunaaðilar í náttúruvernd. Orri Vigfússon formaður NASF, verndarsjóði villtra laxastofna,  átti heiðurinn að því að þessi fundur varð að veruleika en meðal annarra voru staddir þarna fulltrúar Auðlindar, Æðarræktarfélags Íslands, Félags smábátaeiganda og Fjöreggs(félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit).

Á myndinni með Guðna eru þau Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndar og Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri. Ljósmyndari: GOLLI

Garðfuglakönnun 2016-2017

Markmiðið með Garðfuglakönnuninni er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar í tegundasamsetningu yfir vetrarmánuðina, og skoða breytileika milli ára. Árangur í starfi sem þessu veltur að sjálfsögðu á ykkur / þátttakendunum.  Vakin er athygli á vef um garðfugla á þessum slóðum: Garðfuglar og hér á okkar síðu einnig.

Könnunin er með sama sniði og liðna vetur, en fyrsta Garðfuglakönnunin á vegum Fuglaverndar var gerð veturinn 1994-95.

Hér eru nokkur eyðublað til útfyllingar en þar má finna fáeinar spurningar um eðli og umfang garðsins/garðanna.
Garðfuglakönnun 16-17 – pdf skjal  og hér er eyðublað í Word
Garðfuglakönnun_Skraningarblad_excel
Garðfuglakönnun_fyrir_vinnustaði

Könnunin hefst 30. október 2016 og lýkur 29. apríl 2017 en það er hægt að byrja hvenær sem er.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að slá inn talningar sínar í meðfylgjandi skjal og senda síðan félaginu á tölvutæku formi, slíkt mun spara þann tíma sem fer í innslátt á talningum. Einnig er hægt að prenta út eyðublaðið og færa niðurstöður inn á blaðið. Við hvetjum sem flest ykkar til að taka þátt, hvort sem þið gefið fuglum eða ekki.

Sendið útfyllt eyðublöð sem fyrst eftir lok könnunar, í síðasta lagi fyrir maílok 2017. Netfangið er: gardfugl@gmail.com.
Ef niðurstöður eru sendar með pósti þá er utanáskriftin: Fuglavernd Garðfuglakönnun Hverfisgötu 101 – 105 Reykjavík

Þessa ljósmynd af skógarþresti, stara og svartþresti tók Örn Óskarsson

Ánafnað verðlaunafé

Jafnframt sem við óskum þeim hjónum Kolbrúnu og Jóhannesi á Hótel Rauðuskriðu til hamingju með að fá Náttúruverndarviðukenningu Sigríðar í Brattholti sem Umhverfisráðuneytið veitir, þá þökkum þeim kærlega fyrir að hafa ánafnað okkur verðlaunafénu.

Í rökstuðningi ráðherra fyrir viðurkenningunni kemur fram að þau Kolbrún og Jóhannes hafi komið Hótel Rauðuskriðu í gegn um strangt vottunarferli norræna Svansins fyrst íslenskra hótela og fyrsti gististaðurinn utan Reykjavíkur. Síðar hafi það fengið gullmerki Vakans, sem er umhverfis- og gæðavottunarkerfi ferðaþjónustunnar. Sterk hugsjón hafi drifið þau áfram og sé litið til Rauðuskriðu sem fyrirmyndarfyrirtækis í ferðaþjónustu í sveitum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í umhverfisstarfi hótela á norrænum vettvangi.

Sjá vef umhverfisráðuneytisins.

 

Fuglavernd óskar eftir markaðs- og samskiptafulltrúa

Fjöldi umsókna hafa borist um starf markaðs- og samskiptafulltrúa Fuglaverndar – 50% starf. Vonumst við eftir að niðurstaða verði komin um miðjan næsta mánuð.
Meginviðfangsefni
• Umsjón með kynningar‐ og markaðsmálum félagsins.
• Umsjón með heimasíðu Fuglaverndar og samfélagsmiðlum.
• Skrifa fréttir af starfsemi félagsins og miðla þeim til fjölmiðla.
• Umsjón með gerð kynningarefnis og auglýsinga á vegum Fuglaverndar.
• Umsjón með viðburðum á vegum félagsins og sölumálum, ásamt því að annast samskipti við félagsmenn.

Menntunar- og/eða hæfniskröfur:
• Góð almenn menntun og áhugi á umhverfs- og náttúruverndarmálum.
• Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
• Þekking og reynsla af markaðsmálum og skipulagningu viðburða.
• Góð íslenskukunnátta auk góðrar kunnáttu í ensku.
• Hæfileiki til tjáningar í ræðu og riti.
• Góð almenn tölvufærni og þekking á helstu forritum.
• Skipulagshæfileikar, sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum og hæfni í mannlegum samskiptum.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknir skulu hafa borist Fuglavernd eigi síðar en mánudaginn 25. október 2016.
Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfi og ástæða umsóknarinnar.
Frekari upplýsingar um starfið veitir Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri, netfang holmfridur@fuglavernd.is – sími 5620477

Fuglaverndarfélag Íslands eru frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að vernda fugla og búsvæði þeirra. Fræðsla er mikilvægur liður í starfseminni og tengls við félagsmenn okkar sem eru um 1300, einnig er samvinna við systurfélög okkar í náttúruvernd, innanlands sem utan, mikilvæg, svo og að veita yfirvöldum aðhald um lagasetningar og framkvæmdir.

Elma Rún Benediktsdóttir á þessa fallegu mynd af kríunni.

Fuglaskoðun við Elliðavatn

Við verðum með fuglaskoðun í Heiðmörk, við Elliðavatn, laugardaginn 1.október kl.13:00. Gengið frá Elliðavatnsbænum og meðfram vatninu og um nágrenni þess –  sjá meðfylgjandi kort. Við megum búast við að sjá jaðrakan, óðinshana og himbrima ásamt öðrum tegundum og mun Elma Rún Benediktsdóttir leiða gönguna.

Allir velkomnir – munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera klædd eftir veðri.