Vetrarfuglaganga í Laugardal

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 23. nóvember kl. 10. Gangan er skipulögð í samstarfi Fuglaverndar og Grasagarðs Reykjavíkur. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.

Mæting við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema víða í trjálundum. Í vetur hafa músarrindlar verið tíðir gestir í Grasagarðinum og vitað er um nokkur krossnefspör sem halda til á svæðinu og sjást öðru hvoru. Nýlega sást glóbrystingur á ferli í Laugardal og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Gunnar Þór Hallgrímsson tók þessa mynd af glóbrystingi í fyrravetur.

Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru

Þriðjudaginn næstkomandi, 16.sept., verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru.  Við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.
Má einnig sjá á fésbók.

Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli.

Glókollur - karlfugl

Fuglaganga í Laugardal

Sunnudaginn 4. maí næstkomandi munum við í samvinnu við Grasagarðinn skoða fjölskrúðugt fuglalífið í Laugardalnum.    Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur og Aron Leví Beck fuglarannsóknarmaður leiða gönguna og munu fræða okkur um hætti skógarfugla. Lagt af stað við aðalinngang í garðinn kl. 11.00.

Á meðfylgjandi mynd situr glókollur á grein – Örn Óskarsson tók myndina en á garðfuglavefnum okkar má sækja margvíslegan fróðleik.

Tjörn í friðlandinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglaskoðun í Flóa 16. júní 2013

Sunnudaginn 16. júní n.k. mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Örn Óskarsson mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 16:30 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.
Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum því það er mjög blautt á og muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.